Embættisbústaður biskups Íslands við Bergstaðastræti hefur verið seldur.
Embættisbústaður biskups Íslands við Bergstaðastræti hefur verið seldur.
Embættisbústaður biskups Íslands við Bergstaðastræti hefur verið seldur.
Hann var auglýstur til sölu á dögunum en um er að ræða 487 fm einbýli sem reist var árið 1928. Húsið stendur á 912 fm lóð sem er vel ræktuð. Fasteignamat hússins er 292.050.000 kr.
Smartland sagði frá því á dögunum að félag Birnu Jennu Jónsdóttur, EVB ehf. hafi fest kaup á húsinu. Birna Jenna er sjálfstæður fjárfestir sem starfaði áður í íslenska bankakerfinu.
Félag Birnu Jennu greiddi 360.500.000 kr. fyrir húsið. Kaupin fóru fram 4. september og var húsið afhent sama dag.
Paul Smith reisti húsið en hann var verkfræðingur sem vegnaði vel í viðskiptum. Árið 1920 stofnaði hann innflutnings- og heildsölufyrirtæki í Reykjavík sem var kennt við hann. Fyrirtækið seldi rafvörur og varð að versluninni Smith og Norland 1956. Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands, bjó í húsinu um tíma ásamt fjölskyldu sinni.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið keypti húsið árið 1968 og 1994 eignaðist Kirkjumálasjóður húsið. Frá 2021 hefur það verið í eigu Þjóðkirkjunnar.
Sr. Agnes Sigurðardóttir, fyrrverandi biskup Íslands, flutti inn í húsið við Bergstaðastræti þegar hún tók við embætti. Hún bjó sjálf á efri hæðinni en neðri hæðin var notuð fyrir samkomur og veisluhöld.