Hildur Björnsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir að hún hefði ekki lagst gegn framgangi samgöngusáttmálans, en í gær var uppfærsla sáttmálans rædd í borgarstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði í afstöðu sinni til málsins.
Hildur Björnsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir að hún hefði ekki lagst gegn framgangi samgöngusáttmálans, en í gær var uppfærsla sáttmálans rædd í borgarstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði í afstöðu sinni til málsins.
Hildur Björnsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir að hún hefði ekki lagst gegn framgangi samgöngusáttmálans, en í gær var uppfærsla sáttmálans rædd í borgarstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði í afstöðu sinni til málsins.
Segir hún að varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem kaus með sáttmálanum, hafi í raun verið að fylgja flokkslínunni.
Sjálfstæðisflokkurinn er að hennar mati í meginatriðum sammála um kosti og galla sáttmálans.
Þetta kemur fram í skriflegu svari hennar við fyrirspurn mbl.is.
Sáttmálinn var tekinn fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur í gær og greiddu þar fjórir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn sáttmálanum. Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi flokksins, sat hjá en varaborgarfulltrúi flokksins, Sandra Hlíf Ocares, greiddi atkvæði með.
Hildur var ekki á fundinum þar sem hún var erlendis í sjötugsafmæli móður sinnar.
mbl.is spurði Hildi í tvígang skriflega hvort að hún hefði kosið með, setið hjá eða kosið gegn uppfærðum sáttmála hefði hún verið á landinu. Hún svarar spurninginni ekki beint, en útskýrir í ítarlegu svari að ýmsir kostir og gallar séu við sáttmálann áður en hún segir að hún hefði ekki lagst gegn framgangi sáttmálans.
„Þó sáttmálinn sé ekki fullkomið plagg tel ég mikilvægt að rjúfa kyrrstöðuna í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, horfa til framtíðar og hefjast handa við mikilvægar samgöngubætur á svæðinu. Ég hef því ekki séð ástæðu til að leggjast sérstaklega gegn framgangi þessa sáttmála,“ skrifar hún.
Hún segir að líkt og með aðra stóra samninga þá geti verið „svolítið snúið að fá í hendur svo viðamikinn sáttmála og eiga að taka afstöðu til hans í heild“. Þá ekki síst fyrir þá sem sitja í minnihluta og fá enga aðkomu að málinu.
Hún segir gott að ríkið komi með stuðning við rekstur almenningssamgangna, að stigin séu fyrstu skrefin í jarðgangagerð á höfuðborgarsvæðinu og að tryggðar verði miklar umbætur á hjólastígakerfi svæðisins.
Hún bendir á að flokksráð Sjálfstæðisflokksins hafi undirstrikað mikilvægi þess að verkefnum sáttmálans yrði forgangsraða með hliðsjón af arðsemi og bráðavandanum í umferðinni. Hún kveðst taka undir það.
„Ég hef hins vegar töluverðar áhyggjur af fjármögnun sáttmálans en gert er ráð fyrir að þingið lögfesti heimildir til álagningar flýtigjalda í umferðinni. Engin slík löggjöf hefur litið dagsins ljóst og alls óvíst hvort pólitískur meirihluti fáist fyrir slíkri gjaldheimtu. Þetta er veikleiki að mínu mati enda virðist útfærslunni skotið til næstu ríkisstjórna,“ skrifar hún.
Hún segir þó að ef gjaldheimtan verði vel útfærð geti hún verið góð leið til að tryggja að fjármögnun samgönguinnviða miðist við að þeir borgi sem noti, en til þess þurfi samhliða að fella niður aðra skattheimtu af bifreiðareigendum.
Sandra Hlíf Ocares greiddi atkvæði með uppfærslu samgöngusáttmálans. Telur þú eðlilegt að varaborgarfulltrúi komi inn og kljúfi flokkinn í svona stóru máli?
„Samgöngusáttmálinn hefur breiðan stuðning meðal sjálfstæðismanna um allt höfuðborgarsvæðið. Hann er undirritaður af formanni flokksins og bæjarstjórum okkar víða um höfuðborgarsvæðið. Mikilvægi hans var jafnframt undirstrikað á nýafstöðnum flokksráðsfundi. Fulltrúi sem greiðir atkvæði með sáttmálanum er því raunar að fylgja flokkslínunni í málinu,“ svarar Hildur.
Spurð hvort að henni finnist ekki óheppilegt að ekki hafi náðst eining um afstöðu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessu máli segir Hildur:
„Kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokks eru í meginatriðum sammála um kosti og galla þessa sáttmála þó vissulega séu blæbrigði í skoðunum á einstökum atriðum. Það sætir engum sérstökum tíðindum í stórum flokki,“ svarar hún.