Vilhjálmur svarar fyrir misheppnuð mótmæli

Spursmál | 18. september 2024

Vilhjálmur svarar fyrir misheppnuð mótmæli

Vilhjálmur Birgisson segist ekki geta svarað því hvers vegna fáir svöruðu kalli verkalýðsforystunnar um þátttöku í mótmælum á Austurvelli í liðinni viku.

Vilhjálmur svarar fyrir misheppnuð mótmæli

Spursmál | 18. september 2024

Vilhjálmur Birgisson segist ekki geta svarað því hvers vegna fáir svöruðu kalli verkalýðsforystunnar um þátttöku í mótmælum á Austurvelli í liðinni viku.

Vilhjálmur Birgisson segist ekki geta svarað því hvers vegna fáir svöruðu kalli verkalýðsforystunnar um þátttöku í mótmælum á Austurvelli í liðinni viku.

Aðeins nokkur hundruð manns svöruðu kalli gjörvallrar verkalýðshreyfingarinnar í síðustu viku þegar efnt var til mótmæla við Austurvöll þegar þing kom saman til að hlýða á stefnuræðu forsætisráðherra.

Í sameiginlegri yfirlýsingu ASÍ, BSRB og KÍ sagði meðal annars: „Vinn­andi stétt­ir munu þar mót­mæla skeyt­ing­ar­leysi stjórn­valda gagn­vart hárri verðbólgu og vöxt­um.“

Athygli vakti að stór hópur mótmælenda reyndist svo hópur skreyttur Palestínufánum.

Orðaskiptin um þetta mál má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.

„Víst höfum við hljómgrunn“

Þið Vilhjálmur, í verkalýðsforystunni, bæði opinberi markaðurinn og almenni markaðurinn, boðaði til mótmæla með gríðarlega stórum orðum um að það væri allt á heljarþröm, samfélagið væri komið að þanmörkum og að það væri alveg við það að sjóða upp úr. Það mættu örfáar hræður til þess að bakka upp þennan málflutning ykkar og stór hluti þeirra var reyndar kominn til þess að mótmæla aðgerðum Ísraelsher á Gasa sem tengist íslensku samfélagi ekki með einum eða neinum hætti. Þið virðist ekki hafa hljómgrunn í samfélaginu miðað við þessa dræmu mætingu.

„Við höfum víst hljómgrunn í íslensku samfélagi.“

Vaxtastigið svakalegt

Mætingin gefur það ekki til kynna.

„Það sem var verið að mótmæla þarna Stefán er fyrst og fremst það vaxtastig sem íslenskum neytendum er boðið upp á í íslensku samfélagi.“

Neytendur mættu ekki.

„Voru þeir ekki bara í vinnunni?“ [innskot frá Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur]

„Ég er ekki með skýringuna á því. Ég ætla bara að segja það hreint út. Það liggur algjörlega fyrir hvernig verið er að fara með íslenska neytendur, íslensk heimili. Með þessu gríðarlega...“

Við erum búnir að fara yfir það...

„Við erum ekki búin að fara yfir það. Þetta eru stóru málin sem eiga að vera í brennidepli, það er hvernig íslenskt fjármálakerfi er.“

Vilhjálmur Birgisson er nýjasti gestur Spursmála.
Vilhjálmur Birgisson er nýjasti gestur Spursmála. Mbl.is/Samsett mynd

Vanskil aukast gríðarlega

Ekki draga fjöður yfir þetta, Vilhjálmur. Þið boðið með gríðarlega stórum orðum til mótmæla við þingsetningu þar sem þið segið að allt sé á heljarþröm og það hlustaði enginn á ykkur. Hvað veldur því?

„Ég er bara að segja það, Stefán, að það geta kannski verið margvíslegar ástæður fyrir því. En það liggur alveg fyrir, það þarf ekki annað en að horfa á nýjustu tölur frá Motus þar sem alvarleg vanskil íslenskra heimila eru að aukast um 20,1%, alvarleg vanskil fyrirtækja eru að aukast um 6,5%. Það er alveg hreint og klárt að það háa vaxtastig sem hér er er að soga allt fjármagn frá heimilunum til fjármálakerfisins sem bólgnar út eins og enginn sé morgundagurinn. Þar sem hreinar vaxtatekjur eru að aukast um þetta 20 til 25 prósent. Vaxtamunur er að aukast. Og mér er það mjög minnisstætt þegar stjórnvöld ákváðu að afnema bankaskattinn á sínum tíma þá var það vegna þess að þetta átti að vera til að minnka bankamun. Hann var 2,6% þá en er 3,1% núna.“

Er það ekki áhyggjuefni í ljósi alls þessa sem þú telur upp og enginn ber brigður á...

„Ekki skamma fólkið sem mætti.“

Á mótmælunum undir stefnuræðu forsætisráðherra mættu nokkur hundruð manns. Stór …
Á mótmælunum undir stefnuræðu forsætisráðherra mættu nokkur hundruð manns. Stór hópur skreyttur fána Palestínu. mbl.is/Karítas

Af hverju ekki meiri hljómgrunnur

Ég er að skamma ykkur sem boðuðuð til mótmælanna en enginn hlustaði á. Ég er að spyrja, af hverju fáið þið ekki meiri hljómgrunn, þetta er  bara sanngjörn spurning, af hverju fær þetta ekki meiri hljómgrunn fyrst staðan er svona skelfileg. Hver heldur þú að sé skýringin?

„Stefán, ef þið hér á þessum vinnustað áttið ykkur ekki á því að staðan hjá almenningi, íslenskum heimilum er mjög alvarleg.“

Það er ekki það sem spurningin snýst um. Svaraðu bara spurningunni. Af hverju fær þetta ekki hljómgrunn hjá þjóðinni?

„Við getum ekki svarað henni.“

Viðtalið við Vilhjálm Birgisson, sem er gestur Spursmála ásamt Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur, þingmanni Viðreisnar, má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is