„Rottuskíturinn kom mér á óvart. En ég var búinn að kvarta undan húsnæðinu við leigusalann daginn áður en heilbrigðiseftirlitið kom. Við vorum á leiðinni út úr þessum lager fyrir Vy-þrif,“ segir kaupsýslumaðurinn Quang Le um alræmdan matvælalager í Sóltúni.
„Rottuskíturinn kom mér á óvart. En ég var búinn að kvarta undan húsnæðinu við leigusalann daginn áður en heilbrigðiseftirlitið kom. Við vorum á leiðinni út úr þessum lager fyrir Vy-þrif,“ segir kaupsýslumaðurinn Quang Le um alræmdan matvælalager í Sóltúni.
„Rottuskíturinn kom mér á óvart. En ég var búinn að kvarta undan húsnæðinu við leigusalann daginn áður en heilbrigðiseftirlitið kom. Við vorum á leiðinni út úr þessum lager fyrir Vy-þrif,“ segir kaupsýslumaðurinn Quang Le um alræmdan matvælalager í Sóltúni.
Segja má að upphaf fregna er snúa að Quang Le megi rekja til þess þegar matvælalagernum í Sóltúni var lokað vegna óheilnæmrar geymslu matvæla. Þar innanhúss voru geymd fleiri tonn af matvælum. Á gólfum mátti sjá rottuskít og rottur í rottugildrum og engu líkara en að þarna hefði verið dvalið næturlangt því innanhúss var dýna og tjald svo dæmi séu nefnd.
Quang Le segir að til hafi staðið að flytja úr lagernum í Sóltúni og að hann hafi kvartað undan aðstæðum þar við leigusalann. Þá finnst honum hann ekki hafa notið sannmælis hjá Heilbrigðiseftirlitinu.
Hér fylgir annar hluti viðtals við Quang Le, sem einnig er nefndur Davíð Viðarsson. Í gær birtist ítarlegt viðtal við hann þar sem farið er yfir ásakanir um mansal, peningaþvætti og fleira til.
„Við höfðum kvartað við leigusalann út af aðstæðum þarna og vorum á útleið, búin að segja upp samningi. Við vorum að fara að flytja allt sem þarna var af lagernum. Við höfðum ekki geymt matvæli þarna. En ég hafði nýlega selt Vietnam Market og nýi eigandinn vildi að við tækjum öll matvæli þaðan. Við færðum allt í Sóltún. Við vorum búin að útbúa allt þannig að við gætum farið á Sorpu til að henda þessu. Allt var komið á pallettur og við það að leigja lyftara en þá kom Heilbrigðiseftirlitið.“
En nú voru fimm tonn af matvælum sem voru nýlega flutt til Íslands sem voru hluti af þeirri matvöru sem geymd var þarna. Varla er trúverðugt að þú hafir ætlað að henda því, eða hvað?
„Venjulega var það þannig að ég geymdi hlutina í vöruhúsi hjá Eimskip og flutti svo í markaðinn. En þegar síðasta sendingin kom til Íslands átti bróðir minn að fara með hana í veitingahúsin beint. Hins vegar gerði hann mistök og fór með þetta á lagerinn í Sóltúni. Við færðum aldrei neitt þaðan en vorum með áætlanir um að flytja þetta í burtu. Þetta var tveimur til þremur dögum áður en Heilbrigðiseftirlitið kom. Þegar Heilbrigðiseftirlitið kom sagði ég þeim frá því að stór hluti af því sem var þarna inni væri frá Vietnam Market sem ég var búinn að selja. Það var búið að merkja allar þessar vörur þannig að það ætti að henda þeim. Þetta stóð allt á pallettunum. Þar stóð „henda“.
En hvað með hinar vörurnar sem var nýlega búið að flytja til landsins?
„Ég spurði Óskar (Ísfeld Sigurðsson) hjá heilbrigðiseftirlitinu á staðnum hvort ég mætti nota þessa nýju matvöru eða hvort þyrfti að henda öllu. Hann sagði að okkur væri gert að henda öllu. Þá var það bara þannig og ég mótmælti því ekki. Það kom hvergi fram í fjölmiðlum að við höfðum merkt hluti þarna inni sem til stóð að henda,“ segir Quang Le.
En nú hefur fyrrverandi starfsmaður sagt í fjölmiðlum að hann hafi farið með mat af lagernum á veitingahús. Hvernig stendur á því?
„Það er sami maður og var í viðtali við Kveik. Þessi eini sem segir alla þessa hluti,“ segir Quang Le.
Er það þá lygi?
„Já“
Nú voru dýnur og tjald inni á lagernum. Engu líkara er en fólk hafi sofið þarna inni. Hvernig útskýrirðu það?
„Ég útskýrði fyrir mönnum á svæðinu að við værum að reka hótel (í Herkastalanum). Stundum færðum við hluti í geymsluna hjá Vy-þrifum. Kannski dýnur sem voru ekki lengur í notkun. Enda má sjá það á myndunum að dýnurnar eru ofan á pallettunum sem átti að henda. Hvers vegna ættirðu að sofa ofan á þeim?“ spyr Quang Le.
En það var tjald þarna líka.
„Þetta var tjald sem eitthvert fólk hafði skilið eftir á hótelinu og það átti að henda þessu,“ segir Quang Le.
Þannig að það svaf enginn á lagernum?
„Nei, aldrei.“
En hvers vegna heldur þú að Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki trúað þér?
„Eflaust því þá langaði að komast í fréttirnar. Segja frá einhverjum stóru.“
En þetta eru þá miklar ásakanir í garð eftirlitsaðila. Höfðu þeir eitthvað á móti þér?
„Já, þeir komu á veitingastaðina tvisvar til þrisvar í viku. Það þurfti endalaust að vera að útskýra fyrir þeim hluti á matseðlinum og svara alls kyns spurningum.“
En nú eru myndir af rottum og rottuskít þarna inni. Hvernig útskýrir þú það?
„Það kom mér virkilega á óvart að sjá myndir af því. Rottuskíturinn kom mér á óvart. En ég var búinn að kvarta undan húsnæðinu við leigusalann daginn áður en Heilbrigðiseftirlitið kom. Við vorum á leiðinni út úr þessum lager fyrir Vy-þrif,“ segir Quang Le.
En nú segir þú að lögreglan hafi haldið þér og fjölskyldu þinni án ástæðu. Segir að ASÍ standi á bak við ásakanirnar frá starfsfólki og nú að Heilbrigðiseftirlitið hafi verið á móti þér. Er þetta trúverðugt?
„Það var búið að setja allt á pallettur til að henda. Við vorum búin að panta lyftara til að henda þessu. Ég rétti Óskari símann þegar heilbrigðiseftirlitið var á staðnum og leigusalinn staðfesti þar að við værum að fara út úr húsinu eftir nokkra daga. Ég skil ekki hvers vegna þetta fékk ekki að koma neins staðar fram,“ segir Quang Le.