Þungunarrof eftir heimsleika: „Tók mér langan tíma í að syrgja“

Dagmál | 23. september 2024

Þungunarrof eftir heimsleika: „Tók mér langan tíma í að syrgja“

„Sirka sex vikum fyrir heimsleikana þá kemst ég að því að ég er ófrísk,“ sagði crossfitkonan Sólveig Sigurðardóttir í Dagmálum.

Þungunarrof eftir heimsleika: „Tók mér langan tíma í að syrgja“

Dagmál | 23. september 2024

„Sirka sex vikum fyrir heimsleikana þá kemst ég að því að ég er ófrísk,“ sagði crossfitkonan Sólveig Sigurðardóttir í Dagmálum.

„Sirka sex vikum fyrir heimsleikana þá kemst ég að því að ég er ófrísk,“ sagði crossfitkonan Sólveig Sigurðardóttir í Dagmálum.

Sólveig, sem er 29 ára gömul, tilkynnti á síðasta ári að hún væri hætt að keppa í crossfit og kom sú ákvörðun mörgum á óvart enda var hún efsti Íslendingurinn á heimslistanum í crossfit á þeim tíma.

Lagði mikið á sig

Sólveig keppti í fyrsta og eina sinn í einstaklingskeppninni á heimsleikunum árið 2022 þar sem hún hafnaði í 34. sæti.

„Það var búið að vera mitt helsta markmið að komast á heimsleikana í mjög langan tíma og ég lagði mikið á mig til þess að ná því markmiði,“ sagði Sólveig.

„Ég var að ganga í gegnum erfiða tíma í mínu persónulega lífi þegar ég komst að því að ég væri ófrísk. Ég hef aldrei talað um þetta opinberlega áður en mig hefur oft langað til þess að ræða þetta því mér finnst leiðinlegt hvernig fór á heimsleikunum. Ég hef viljað útskýra það fyrir fólki af hverju mér gekk svona illa.

Ég var í sambandi með manni sem ég vissi innst inni að ég ætti ekki að vera með. Þetta var ekki gott samband og ég náði í raun ekki að undirbúa mig almennilega fyrir heimsleikana. Það komst ekkert annað að en óléttan. Ég stóð líka frammi fyrir mjög erfiðri ákvörðun. Að fara í þungunarrof er mjög erfið ákvörðun og þetta er ákvörðun sem þú þarft að lifa með allt þitt líf. Það fer engin kona í þungunarrof af einhverri léttúð,“ sagði Sólveig.

Sólveig fagnar eftir að hafa tryggt sér sæti á heimsleikunum …
Sólveig fagnar eftir að hafa tryggt sér sæti á heimsleikunum árið 2022. Ljósmynd/Aðsend

Tíminn í móðu

Sólveig var efst af öllum Íslendingunum á heimslistanum, farandi inn á heimsleikana, en hún og Þuríður Erla Helgadóttir voru einu fulltrúar Íslands í einstaklingskeppninni í kvennaflokki.

„Ég var í hálfgerðu móki á heimsleikunum. Ég var stödd á Mallorca að æfa þegar ég komst að þessu og ég gerði mér engan veginn grein fyrir ferlinu sem var að fara af stað þarna. Ég kem heim því í mínum fullkomna heimi þá hélt ég að ég gæti bara látið þetta hverfa og svo undirbúið mig fyrir heimsleikana af fullum krafti.

Konur sem hafa gengið í gegnum þetta vita hins vegar að þetta er ekki alveg svona einfalt. Úr varð að ég þurfti að keppa ófrísk á heimsleikunum. Þessi tími í mínu lífi er í algjörri móðu og ég var í rauninni bara á botninum. Það komst heldur ekkert annað að í hausnum á mér en hvað tæki við hjá mér strax eftir heimsleikana. Ég naut mín ekki í eina sekúndu.“

Sólveig Sigurðardóttir tekur á því í köðlunum.
Sólveig Sigurðardóttir tekur á því í köðlunum. Ljósmynd/Aðsend

Með morgunógleði á leikunum

Sólveig náði ekki að sína sínar bestu hliðar á leikunum og sat það lengi í henni.

„Ég upplifði svakalega mikið samviskubit á heimsleikunum því margir vinir mínir og fjölskyldumeðlimir komu til Wisconsin til þess að fylgjast með mér og styðja mig. Mér fannst leiðinlegt að geta ekki sýnt mínar bestu hliðar þarna, líka fyrir sjálfa mig, og ég hefði getað gefið miklu meira af mér.

Ég var samt líka komin það langt á leið að ég vaknaði á morgnana með mikla morgunógleði og svo fylgdi þessu líka mikið þunglyndi. Fólk í mínum innsta hring vissi hvað ég var að ganga í gegnum en út á við vissi fólk það ekki. Eftir á að hyggja þá hefði ég kannski átt að sleppa heimsleikunum en það kom aldrei til greina á þessum tímapunkti að sleppa þeim.“

Sólveig Sigurðardóttir.
Sólveig Sigurðardóttir. Ljsómynd/ÍSÍ

Myndaði tengingu við fóstrið

Sólveig gekkst undir þungunarrof eftir heimsleikana og við tóku erfiðir tímar.

„Það voru margar erfiðar ákvarðanir sem ég þurfti að taka eftir þessa heimsleika. Ég vissi alltaf að þetta væri rétt ákvörðun en ég var samt búin að vera ófrísk í frekar langan tíma og því lengri tími sem líður, því erfiðara verður þetta. Þú ert mannlegur og þú myndar ákveðna tengingu við fóstrið.

Það voru líka erfiðar breytingar í gangi mínu lífi þarna en samt nauðsynlegar. Ég tók mér langan tíma í að syrgja þetta líf og gengið á heimsleikunum. Ég fór ein í Evrópureisu og keyrði á einhverjum Mini-Cooper-bíl sem ég átti um alla Evrópu. Þetta var ansi stór biti fyrir mig og crossfit varð aldrei eins aftur. Ég reyndi við heimsleikana 2023, því ég vildi ekki enda þetta svona, en þetta var of mikið fyrir mig ég var ekki með sama eldmóð og áður,“ sagði Sólveig meðal annars.

Viðtalið við Sólveigu í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Sólveig Sigurðardóttir.
Sólveig Sigurðardóttir. Ljósmynd/@Solasigurdardottir
mbl.is