Betra fyrir samfélagið að VG slíti samstarfinu

Alþingi | 25. september 2024

Betra fyrir samfélagið að VG slíti samstarfinu

Það eru skiptar skoðanir meðal Vinstri grænna um hvort slíta eigi ríkisstjórnarsamstarfinu, en þeir þurfa að ákveða sig eftir rúma viku. Einn flokksfélagi sem leggur fram tillögu þess efnis telur það betra fyrir samfélagið að slíta samstarfinu.

Betra fyrir samfélagið að VG slíti samstarfinu

Alþingi | 25. september 2024

„Ég trúi að þetta sé best fyrir VG og fyrir …
„Ég trúi að þetta sé best fyrir VG og fyrir samfélagið,“ segir Halla Gunnarsdóttir, sem mun leggja fram ályktun á landsfundi Vinstri Grænna um að slíta stjórnarsamstarfinu. Samsett mynd

Það eru skiptar skoðanir meðal Vinstri grænna um hvort slíta eigi ríkisstjórnarsamstarfinu, en þeir þurfa að ákveða sig eftir rúma viku. Einn flokksfélagi sem leggur fram tillögu þess efnis telur það betra fyrir samfélagið að slíta samstarfinu.

Það eru skiptar skoðanir meðal Vinstri grænna um hvort slíta eigi ríkisstjórnarsamstarfinu, en þeir þurfa að ákveða sig eftir rúma viku. Einn flokksfélagi sem leggur fram tillögu þess efnis telur það betra fyrir samfélagið að slíta samstarfinu.

Að óbreyttu verður tillaga um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri Grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lögð fram á landsfundi VG, sem verður haldinn 4.-6. október.

„Við teljum að þau viðfangsefni sem blasa við í íslensku samfélagi núna séu þess eðlis að það sé erfitt að takast á við þau innan þessa stjórnarsamstarfs,“ segir Halla Gunnarsdóttir, einn flytjenda ályktunarinnar.

Síðasti landsfundur var haldinn í mars 2023 og hefur ýmislegt gerst síðan þá. „Það var til dæmis ráðist inn í Palestínu, sem er stærðarinnar mál fyrir friðarhreyfinguna VG,“ segir hún og nefnir einnig erfiða stöðu í efnahagsmálum og náttúruverndarmál.

„Við sem stöndum að þessari tillögu teljum, miðað það sem flokkarnir segja, að það sé gott sem ómögulegt að takast á við þessi mál. Á hægri vængnum er bara kallað eftir niðurskurði, sem er að okkar mati alls ekki góð aðferð.“

Halla Gunnarsdóttir er ein þeirra níu sem standa að ályktun …
Halla Gunnarsdóttir er ein þeirra níu sem standa að ályktun um stjórnarslit. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölbreyttur hópur

Auk Höllu bera átta flokksmenn fram álykt­un­ar­drög­in: Andrés Skúla­son, Auður Al­fífa Ket­ils­dótt­ir, Ein­ar Ólafs­son, Guðrún Mar­grét Guðmunds­dótt­ir, Helgi Hlyn­ur Ásgríms­son, Saga Kjart­ans­dótt­ir, Stein­unn Rögn­valds­dótt­ir og Sveinn Máni Jó­hann­es­son.

„Þetta er blanda af fólki sem hefur verið lengi í VG, er að koma aftur í VG og fólk sem er að koma nýtt inn í VG,“ svarar Halla, sem hefur sjálf verið í grasrót flokksins í um 20 ár með hléum.

Halla segir að tillagan hafi ekki verið lögð fram í samráði við nokkurn annan en þá sem standa að henni.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

VG í lausu lofti frá því að Katrín fór

Halla vonar að tillagan verði samþykkt, en segir að það sé umdeilt meðal grasrótarinnar hvort VG eigi að halda áfram í stjórnarsamstarfinu. Í raun hefur þátttaka VG í stjórnarsamstarfinu verið umdeild frá upphafi. Fjöldi fólks sagði sig úr hreyfingunni þegar hún gekk í sömu sæng og Sjálfstæðisflokkurinn árið 2017.

„Það er ekki sjálfsagt mál að vinstri flokkur sé í samstarfi við hægri flokk, og taki í rauninni fulltrúalýðræðislega umræðu, sem ætti að eiga sér stað fyrir opnum tjöldum, inn á bak við luktar dyr,“ segir Halla.

Þá hafi einnig orðið mikil breyting þegar Katrín Jakobsdóttir sagði af sér sem forsætisráðherra og sem formaður VG í apríl til þess að fara í forsetaframboð – og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var allt í einu ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

„[Katrín] var nánast í foreldrahlutverki gagnvart þessari ríkisstjórn og passaði upp á hlutina,“ segir Halla. Það afl sé ekki lengur fyrir hendi.

„En síðan er nú liðið hálft ár. Og það má líka segja að það sé óhóflega langur tími fyrir stjórnmálaflokk að vera í lausu lofti.“

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

3,7%

VG mun því þurfa að kjósa sér nýja forystu á landsfundinum og hefur Svandís Svavarsdóttir gefið kost á sér í formannsstólinn. Höllu líst vel á Svandísi sem formann:

„Ég tel að Svandís Svavarsdóttir geti verið öflugur formaður VG. Hún er öflugur og reynslumikill stjórnmálamaður og ég tel að hún geti verið mjög kröftug sem slík.“

En landsfundurinn verður einnig haldinn í svörtum skugga fylgistaps. Flokkurinn mælist með 3,7% fylgi í nýjustu könnun Maskínu og myndi samkvæmt því ekki ná manni inn á þing.

„Það þráir enginn að fara í kosningar þegar maður mælist með rétt yfir þriggja prósenta fylgi. En þá má spyrja annars vegar: Mun það eitthvað breytast á næstu mánuðum? En hins vegar: Hvað er það sem þjóðfélagið þarf, frekar heldur en það sem VG þarf.“

Halla nefnir að trúverðugleiki VG fari dvínandi og það vandamál verði ekki leyst í stjórnarsamstarfinu.

„Ég trúi að þetta sé best fyrir VG og fyrir samfélagið. Kyrrstaðan inni í þessu er ekki góð í þessu ástandi sem við erum í, og það eru of margir alvarlegir hlutir að gerast til að leyfa því að sullast áfram án þess að fólk fái tækifæri til að fjalla um það og takast á og jafnvel kjósa.“

mbl.is