Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf kynnti í dag nýtt hjól sem fyrirtækið hefur hannað, en í þetta skiptið er um fulldempað fjallahjól að ræða og er það fjórða hjólið sem fyrirtækið kynnir til leiks á sjö árum. Samhliða þessu hefur fyrirtækið kynnt til leiks nýtt fimm daga alþjóðlegt fjallahjólamót sem halda á í lok ágúst á næsta ári, en Lauf hefur hingað til staðið fyrir stærsta hjólamóti ársins, malarhjólamótinu The Rift, þar sem hjólað er um Fjallabak.
Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf kynnti í dag nýtt hjól sem fyrirtækið hefur hannað, en í þetta skiptið er um fulldempað fjallahjól að ræða og er það fjórða hjólið sem fyrirtækið kynnir til leiks á sjö árum. Samhliða þessu hefur fyrirtækið kynnt til leiks nýtt fimm daga alþjóðlegt fjallahjólamót sem halda á í lok ágúst á næsta ári, en Lauf hefur hingað til staðið fyrir stærsta hjólamóti ársins, malarhjólamótinu The Rift, þar sem hjólað er um Fjallabak.
Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf kynnti í dag nýtt hjól sem fyrirtækið hefur hannað, en í þetta skiptið er um fulldempað fjallahjól að ræða og er það fjórða hjólið sem fyrirtækið kynnir til leiks á sjö árum. Samhliða þessu hefur fyrirtækið kynnt til leiks nýtt fimm daga alþjóðlegt fjallahjólamót sem halda á í lok ágúst á næsta ári, en Lauf hefur hingað til staðið fyrir stærsta hjólamóti ársins, malarhjólamótinu The Rift, þar sem hjólað er um Fjallabak.
Benedikt Skúlason, forstjóri Lauf, segir að með nýja hjólinu hafi fyrirtækið reynt að fara aftur í grunninn á hönnun fyrir fulldempuð fjallahjól og nýta þá þróun í loftdempurum sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Segir hann of mikið af óþarfa í hönnun á mörgum nýjum fjallahjólum og að Lauf hafi heldur viljað einfalda hönnunina og halda hjólinu sem léttustu, en á sama tíma hafa svigrúm fyrir meiri dekkjabreidd en gengur og gerist á keppnisfjallahjólum.
Lauf hefur hingað til verið hvað þekktast fyrir óhefðbundinn hjólagaffal sem er með glertrefjafjöðrum í stað hefðbundins teleskópískra dempara. Komu þeir gafflar alveg nýir inn á markaðinn árið 2013 og brá mörgum við, enda hönnunin nokkuð óhefðbundin frá því sem fólk þekkti þá í framhjóladempun.
Þó gaffallinn hafi fyrst verið hugsaður fyrir fjallahjólreiðar varð lendingin fljótlega að horfa til malarhjólreiða, enda var það þá hraðast vaxandi markaður hjólreiða í heiminum og gaffallinn virtist virka hvað best fyrir slíkar aðstæður frekar en harðkjarna fjallahjólreiðar með mjög grófu undirlagi.
Lauf hóf svo árið 2017 framleiðslu á eigin hjóli frekar en að selja gaffalinn bara sem íhlut. Komu út tvær týpur af malarhjólum undir nöfnunum True grit og Seigla. Í fyrra ákvað fyrirtækið svo að hefja framleiðslu á götuhjólinu Úthald, en samhliða því færði fyrirtækið vöruhús, vörusamsetningu og dreifingu til Virginíuríkis í Bandaríkjunum.
Við það tækifæri ræddi Benedikt við mbl.is og boðaði þá þróun fjallahjóls, sem nú lítur dagsins ljós.
Fjallahjólið, sem ber nafnið Elja, kemur í tveimur útgáfum. Annars vegar í „trail“ útgáfu og hins vegar „xc“ útgáfu. Er munurinn þar helst að „trail“ útgáfan er með aðeins meiri dempun meðan „xc“ útgáfan er hugsuð sem keppnishjól í svokölluðum ólympískum fjallahjólreiðum. Fyrir áhugasama verður slaglengdin á „xc“ 120 mm bæði að framan og aftan, en á „trail“ hjólinu er slaglengdin 130 mm að framan og 120 mm að aftan.
Það fyrsta sem vekur athygli þegar hjólið er skoðað er einkennandi útlit á afturhluta stellsins, en í staðinn fyrir sætisstag (e. seat stay) og keðjustag (e. chain stay) er um eitt stag að ræða sem tengist bæði í loftdempara og í stellið.
Þá er hjólið með einn snúningspunkt (e. single pivot), en slíkt er orðið nokkuð sjaldgæft á fulldempuðum hjólum sem eru í hæsta gæðaflokki og flestir að nota snúningspunkt með tengilið (e. linkage driven single pivot) eða fjöliða dempun (e. dual-link og Horst-link). Líklegast er best að útskýra muninn á þessu með að benda á meðfylgjandi Youtube-myndband.
En af hverju er Lauf að færa sig til baka í tækni sem flestir framleiðendur virðast hættir að nota? Benedikt segir að hjá Lauf hafi menn alltaf viljað gera eitthvað nýtt og að hugmyndin um fjallahjól hafi lengi verið að brjótast um. Þannig hafi hann og Bergur Benediktsson, sem var ásamt stofnendum fyrirtækisins fyrsti starfsmaðurinn, báðir komið úr fjallahjólreiðum. Báðir eru þeir með verkfræðimenntun og hafi í góðan tíma reynt að finna lausnina sem þeir væru tilbúnir að keyra á.
„Við tölum oft um að sækja ekki vatnið yfir lækinn,“ segir Benedikt og bætir við að sér finnist margir fjallahjólaframleiðendur á undanförnum árum hafa „gert mikið af lyfleysulaunum í afturfjöðrun.“ Þeir hafi hins vegar viljað einfalda uppsetninguna og draga úr þyngd.
„Single pivot-lausnin var algeng fyrir 25-30 árum, en þá var hún útfærð allt öðruvísi og með gormadempurum en ekki loftdempurum,“ segir Benedikt. Segir hann framfarir í loftdempurum hafa opnað aftur á að þetta væri einfaldað. Einnig hafi þeir breytt nokkuð hönnun afturhlutans, meðal annars með nokkuð stóru tengiboxi fyrir aftan sætistúbuna sem auki stífleika.
Segist Benedikt á undanförnum árum hafa rætt við fjölda verkfræðinga og sölumanna hjá öðrum hjólaframleiðendum og spurt þá út í hönnun, tilgang með ákveðnum uppsetningum og þá krafta sem eru að verkum. Hafi hann gert þetta með það fyrir augum að geta úrskurðað hvað væri „lyfleysa“ og hvað ekki.
Með allar þessar upplýsingar í farteskinu hafi þeir svo endað á þessari hönnun sem núna er komin fram. Segir hann jafnframt að markmiðið hafi verið að gera viðhald þannig úr garði að eigendur sjálfir sem hafi smá þekkingu eigi að geta séð um hluti eins og að skipta um sveifalegur o.fl.
Síðasti aðalpunkturinn í nýju hönnuninni að sögn Benedikts er dekkjabreiddin sem í boði er. Þannig er hægt að koma undir 2,8 tommu dekkjum og jafnvel 3 tommu dekkjum, en algengt er fyrir „trail“ og „xc“ hjól að þau séu með 2,2 og upp í 2,5 tommur.
„Samkeppnin er mest í 2,4 tommum,“ segir Benedikt. „En 2,4 er bara mjótt miðað við 2,8 eða 3 tommur.“ Rifjar hann upp að fyrir tveimur árum hafi Lauf kynnt malarhjólið Seiglu og þá hafi verið hægt að koma 2,2 tommu dekkjum undir það sem hafi þótt mjög mikið í malarsenunni á þeim tíma. Í dag séu hins vegar flestir á leið þangað eða komnir á svipaðan stað.
„Í götu- og malarhjólreiðum eru menn að færa sig upp í dekkjastærð. Þeir héldu að það væri hægara áður því það var mýkra, en svo var ekki,“ segir hann. „Að sama skapi voru fjallahjólarar að álykta að breiðari dekk væru hægari. Menn voru á 2 tommum fyrir nokkrum árum en eru nú komnir á 2,4 tommur. Þetta er bara þak sem þarf að brjóta,“ segir Benedikt um þessa þróun og að Lauf ætli sér að vera framarlega í þeirri vegferð.
Einhverjir gætu hugsað til þess að fyrir um áratug síðan voru til svokölluð plús fjallahjól, en þau voru með um og yfir 3 tommu dekk. Benedikt segir að þessi hjól hafi á sínum tíma eiginlega drepið þróunina á breiðum dekkjum því hjólin hafi aldrei verið hönnuð með hraða í huga heldur til að vera þægileg.
Elja er að sögn Benedikts hins vegar hugsað sem mjög hratt hjól og að það geti verið keppnishjól í fjallahjólakeppnum.
Rétt er að taka fram að fjallahjólakeppnir skiptast í nokkra undirflokka og þar sem meira er brunað bara niður, svo sem í Enduro og í fjallabruni, er fjöðrunin jafnan nokkuð meiri, allavega hjá keppnisfólki. Benedikt segir að markhópur Elju sé ekki keppnisfólk í þessum greinum, en að uppsetningin hjólsins gefi fólki samt alveg möguleika á að vera að leika sér í þessum greinum.
Síðustu ár, eftir faraldurinn, hafa verið hjólageiranum mjög erfið. Meðan faraldurinn stóð fór eftirspurn upp úr öllum væntingum og framleiðendur settu mikinn kraft í að auka framleiðsluna. Eftir að faraldrinum lauk datt eftirspurnin hins vegar mikið niður á heimsvísu og voru öll vöruhús full sem leiddi til þess að framleiðendur lækkuðu verð mikið í samkeppni um viðskiptavini. Segir Benedikt að stærsti íhlutaframleiðandinn Shimano hafi m.a. séð fjórðungs og þriðjungs lækkun á sölu milli nokkurra ársfjórðunga.
Lauf fór ekki varhluta af þessu ástandi og lækkaði einnig verð, en Benedikt segir að meðan sala á heimsvísu hafi lækkað mikið hafi hún verið nokkuð jöfn hjá Lauf og nú séu merki um að hjólakreppan sé á undanhaldi. Nefnir hann að Lauf hafi aukið sölu sína um 20-25% það sem af er þessu ári miðað við sama tíma í fyrra.
Samhliða kynningu á nýja hjólinu opinberaði Lauf einnig að til stæði að halda fimm daga fjallahjólakeppni á næsta ári, dagana 27-31. ágúst. Benedikt segir að þetta verði keppni í takt við Swiss epic og aðrar stórar fjöldægra fjallahjólakeppnir þar sem allt sé innifalið, þjónusta mikil og keppendur þurfi aðallega að hugsa um að keppa og svo njóta.
„Það verður allt teppalagt fyrir þig, morgun- og kvöldverður og hjólið geymt og þvegið fyrir þig,“ segir Benedikt. Þessi aukna þjónusta og uppihald verður einnig nokkuð dýrari en þátttökugjald í hefðbundinni hjólakeppni, eða 5.500 Bandaríkjadalir. Innifalið í því verður einnig gisting og flutingur á hjólum o.fl.
Fyrsta árið segist Benedikt vona að um 100-140 muni taka þátt, en að á komandi árum fari fjöldinn upp í 300-500 manns.
The Rift keppnin sem haldin hefur verið undanfarin ár hefur á skömmum tíma orðið að stærstu hjólakeppni ársins þar sem mikill meirihluti keppenda kemur erlendis frá. Þar eru hjólaðir 200 km frá Hvolsvelli upp á Fjallabak og svo aftur niður á Hvolsvöll. Eru keppendur þar um þúsund á hverju ári.
Benedikt segir að þessi nýja keppni verði líklegast erfiðari en Riftið þar sem um fjöldægra keppni er að ræða og mega keppendur búast við 3-9 klst dagleiðum. Hann vill að öðru leyti lítið tjá sig um leiðarval eða uppbyggingu keppninnar. Það sé hins vegar líklegt að blandað verði saman dögum á láglendi og hálendi þar sem auðvelt og stutt sé að fara þar á milli hér á landi.
„Þetta gæti verið einn dagur single track, svo annar dagur upp á hálendi og þriðji dagurinn að klifra yfir fjall,“ segir Benedikt en tekur fram að þetta verði allt kynnt betur síðar.
Lauf er í dag að selja um 3 þúsund hjól árlega að sögn Benedikts. Í næstu viku mun fyrirtækið opna sýningarsal í verksmiðjunni í Virginíu, en Lauf hefur síðasta árið einnig tekið yfir stærri og stærri hluta af þessari gömlu prentsmiðju. Hann segir að samtals ráði húsið við samsetningu og vörugeymslu fyrir um 10-12 þúsund hjól á ári og að honum langi til að ná upp í þann fjölda á næstu 2-3 árum. Það muni þó allt koma í ljós, meðal annars miðað við hvernig viðtökur fyrir fjallahjólið verði.
Á undanförnum árum hefur markaðurinn fyrir rafmagnshjól verið einn sá stærsti í hjólum, bæði þegar kemur að samgönguhjólum, en líka fjallahjólum. Spurður hvort Lauf ætli sér ekkert út á þann markað segir Benedikt: „Við útilokum ekki neitt.“