Ekkert bendir til þess að atburðarásinni sé lokið

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 26. september 2024

Ekkert bendir til þess að atburðarásinni sé lokið

Ekkert bendir til þess að atburðarásin á Reykjanesskaga sé að líða undir lok. Eldgosin hafa verið að stækka með tímanum og má búast við endurteknum atburðum á Sundhnúkagígaröðinni á meðan kvikusöfnun heldur áfram.

Ekkert bendir til þess að atburðarásinni sé lokið

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 26. september 2024

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi.
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert bendir til þess að atburðarásin á Reykjanesskaga sé að líða undir lok. Eldgosin hafa verið að stækka með tímanum og má búast við endurteknum atburðum á Sundhnúkagígaröðinni á meðan kvikusöfnun heldur áfram.

Ekkert bendir til þess að atburðarásin á Reykjanesskaga sé að líða undir lok. Eldgosin hafa verið að stækka með tímanum og má búast við endurteknum atburðum á Sundhnúkagígaröðinni á meðan kvikusöfnun heldur áfram.

Þetta kom fram í erindi Bergrúnar Örnu Óladóttur, sérfræðing hjá Veðurstofu Íslands, á upplýsingafundi með Vogamönnum í tengsl­um við jarðhrær­ing­ar á Reykjanesskaga.

Al­manna­varn­ar­nefnd Suður­nesja utan Grinda­vík­ur í sam­starfi við Sveit­ar­fé­lagið Voga boða til fund­ar­ins.

Óljóst hvenær næsti atburður á sér stað

„Eins og við höfum séð áður þá er landris hafið að nýju og þar af leiðandi líka kvikusöfnun – undir Svartsengi – en við því miður getum ekkert sagt um hvenær næsti atburður mun eiga sér stað,“ sagði hún.

Hún sýndi graf sem sýndi kvikusöfnun fyrir hvert gos að undanförnu.

„Í rauninni þá getum við sagt að við erum að horfa á endurtekinn atburð,“ sagði hún um kvikusöfnunina.

Hún sýndi þetta kort af kvikusöfnuninni undir Svartsengi.
Hún sýndi þetta kort af kvikusöfnuninni undir Svartsengi. Skjáskot/Veðurstofan

Eldgosin að verða stærri

Þá sagði hún að eldgosin væru sífellt að verða stærri á Reykjanesskaga.

„Það sem við vitum út frá þeim gögnum sem við höfum það er að þessi gos þau eru að stækka. Útstreymishraðinn í byrjunarfasanum, hann er að stækka. Í gosi númer þrjú var hann um fimm hundrað rúmmetrar á sekúndu. Í síðasta gosi náði hann næstum því 2.500 rúmmetrum á sekúndu. Þannig atburðirnir eru að stækka og þeir eru að verða hraðari. Á sama tíma þá er lokaafurðin – hraunið – það er líka að stækka,“ sagði Bergrún og hélt áfram:

„Það er ekkert í gögnunum okkar sem bendir til þess að þessari atburðarás sé að ljúka. Þannig við verðum bara að horfast í augu við það að á meðan kvikusöfnun á sér stað undir Svartsengi þá verðum við að búast við því að það geti orðið kvikuhlaup og jafnvel annað eldgos á Sundhnúkagígaröðinni.“

mbl.is