Hér er á ferðinni ljúffengur pastaréttur sem er einfalt að útbúa og mun töfra matargestina upp úr skónum. Heiðurinn af uppskriftinni á Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir hjá Grænkerum og hennar reynsla er sú að allir sem smakka þennan elski hann.
Hér er á ferðinni ljúffengur pastaréttur sem er einfalt að útbúa og mun töfra matargestina upp úr skónum. Heiðurinn af uppskriftinni á Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir hjá Grænkerum og hennar reynsla er sú að allir sem smakka þennan elski hann.
„Ég kynntist þessum pastarétti upprunalega hjá systur minni sem eldaði dásamlega bragðgóðan og ofureinfaldan pastarétt þar sem sósan samanstóð fyrst og fremst af tómötum í dós og matreiðslurjóma. Við það að blanda matreiðslurjómanum út í klassíska marinara sósu urðu einhverjir töfrar til og bragðið er tekið á næsta stig,“ segir Þórdís.
Girnilegur pastarétturinn.
Ljósmynd/Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir
Pastarétturinn sem allir elska
- 300 g pasta
- 1 msk. olía
- 1 gulur laukur
- 2-3 hvítlauksrif
- 1 rauð paprika
- 4 stórar gulrætur
- 1 dl rauðar linsubaunir
- 1 dós maukaðir tómatar, t.d. San Marzano tómatar
- 2-3 msk. tómatpúrra
- 250 ml Oatly matreiðslurjómi
- 1 grænmetisteningur
- salt og pipar eftir smekk
- 2 tsk. þurrkuð ítölsk krydd, t.d. basil og oreganó (endilega nota ferskar kryddjurtir í staðinn)
Aðferð:
- Hitið pönnu eða pott með olíu.
- Saxið lauk og hvítlauk smátt og mýkið í olíunni.
- Skolið linsubaunirnar vel og bætið þeim út á pönnuna.
- Saxið papriku og rífið gulrætur smátt og bætið einnig saman við.
- Steikið við vægan hita þar til grænmetið er mjúkt.
- Kryddið og bætið tómötum í dós, tómatpúrru og matreiðslurjóma saman við.
- Leyfið sósunni að malla á meðan pastað er soðið. Hér má mauka sósuna með töfrasprota en Þórdís sleppti því.
- Þegar pastað er næstum því soðið í gegn leggur Þórdís til að setja það út í sósuna ásamt örlitlu pastavatni og leyfa því að fulleldast í sósunni.
- Berið réttinn fram með kasjúhnetu-parmesanostinum, sjá uppskrift hér fyrir neðan, góðri ólífuolíu og jafnvel ferskri basiliku og baguette brauði.
Kasjúhnetu-parmesanostur
- 1 dl kasjúhnetur
- 2 hvítlauksrif
- 1 msk. næringarger, eða eftir smekk
- 1/2 tsk. salt
Aðferð:
- Þurrristið kasjúhneturnar á pönnu eða í ofni þar til þær eru gullnar að lit.
- Saxið eða pressið hvítlaukinn og setjið svo öll hráefnin saman í blandara og blandið þar til fínmalað.
- Geymið kasjúhnetu-parmesanostinn í kæli.