Þingmenn gagnrýndu stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi í baráttunni gegn vinnumansali, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun.
Þingmenn gagnrýndu stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi í baráttunni gegn vinnumansali, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun.
Þingmenn gagnrýndu stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi í baráttunni gegn vinnumansali, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun.
Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði vinnumansal vera svartan blett á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi. Vitnaði hann því til stuðnings í þáttinn Kveik á RÚV þar sem fjallað var um málið fyrr í vikunni.
Þingmaðurinn kallaði eftir „miklu sterkari viðbrögðum íslenskra stjórnvalda“ og sagði nauðsynlegt að ljúka við að uppfæra viðbragðsáætlun gegn mansali.
„Við verðum að stíga miklu fastar niður hvað varðar vinnumansal og mansal almennt á Íslandi,“ sagði hann og bætti við að allt samfélagið krefjist þess að stjórnvöld bregðist við.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði: „Hvar er hinn skýri tónn íslenskra stjórnvalda um að þessi brot á íslenskum landslögum verði ekki liðin?“
Hún kallaði eftir afdráttarlausri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þess efnis og nefndi að fyrir sex árum hefði ríkisstjórnin boðað aðgerðir gegn mansali en lítið hefði áunnist. Sagði hún það lágmarkskröfu og algjört fyrsta skref vera að ríkisstjórnin sendi frá sér skilaboð um að brot hefðu afleiðingar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, nefndi útspil flokksins síðasta vor þar sem bent var m.a. á aðgerðir til að herða ráðningarsambönd og eftirlit með starfsmannaleigum.
Hann sagði verkalýðshreyfinguna fyrst og fremst sinna vinnustaðaeftirliti samkvæmt lögum frá árinu 2010 og nefndi að Sjálfstæðisflokkurinn hefði einn flokka lagst þeim. Þessi lög þyrfti að uppfæra.
Þingmaðurinn sagði að ríkisstjórninni hefði mistekist að tryggja stofnunum bolmagn til að takast á við vinnumansal. Aukið fjármagn og mannskap þyrfti til.
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á að Kveikur hefði fjallað um nákvæmlega sama hlutinn fyrir sex árum. Þess vegna væri sorglegt að ekki hefði þokast í rétta átt. Hann lagði áherslu á að tryggja þyrfti að hér væru nægileg verkfæri í boði til að framfylgja lögunum sem eru til staðar. Einnig sagði hann að styrkja þyrfti núverandi lög.