„Ég mun ekki skipta mér af þeirra störfum“

Byrlunarmálið | 27. september 2024

„Ég mun ekki skipta mér af þeirra störfum“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki ætla að tjá sig um ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi eystra að fella niður rannsókn í byrlunar- og símastuldsmálinu svokallaða. Hún vilji ekki vega að sjálfstæði lögregluembættisins.

„Ég mun ekki skipta mér af þeirra störfum“

Byrlunarmálið | 27. september 2024

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki ætla að tjá sig um ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi eystra að fella niður rannsókn í byrlunar- og símastuldsmálinu svokallaða. Hún vilji ekki vega að sjálfstæði lögregluembættisins.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki ætla að tjá sig um ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi eystra að fella niður rannsókn í byrlunar- og símastuldsmálinu svokallaða. Hún vilji ekki vega að sjálfstæði lögregluembættisins.

Þá vill hún heldur ekkert segja um þá ákvörðun lögregluembættisins að birta ítarlega yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum Facebook um niðurfellinguna. Í yfirlýsingunni er meðal annars gert því skóna að blaðamenn og ann­ar sak­born­ing­ur hafi gerst brot­leg­ir við lög en að sönn­un­ar­byrði hafi reynst erfið í mál­inu.

Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur meðal annars sagt að yfirlýsingin sé lögreglu ekki sæmandi í réttarríki og þá hafa nokkrir þeirra sem höfðu stöðu sakbornings í málinu gagnrýnt framsetningu lögreglunnar.

„Nú er það þannig að lögreglan á Norðurlandi eystra hefur fullt forræði á þessu máli. Ég mun að sjálfsögðu ekki vega að sjálfstæði lögreglunnar í þessu máli frekar en öðrum,“ sagði Guðrún þegar mbl.is leitaði viðbragða frá henni um niðurfellingu lögreglunnar eftir ríkisstjórnarfund í dag. „Ég mun ekki tjá mig um það. Það verður lögreglan á Norðurlandi eystra að gera.“

Lögreglan heyrir undir dómsmálaráðuneytið og þótt ráðherra vilji ekki tjá sig um einstaka mál var hún einnig spurð um yfirlýsingu lögreglunnar og hvort slík framsetning væri eðlileg almennt. Guðrún vildi heldur ekki svara fyrir það. „Ég ítreka að lögreglan á Norðurlandi eystra verður að svara fyrir það. Ég mun ekki skipta mér af þeirra störfum.“

Guðrún staðfesti að málið hafi ekki verið rætt á ríkisstjórnarfundinum.

mbl.is