Þrátt fyrir ágæta lækkun verðbólgu í september, sem Hagstofan kynnti í morgun, þá spá greiningardeildir bankanna því áfram að Seðlabankinn muni halda óbreyttum vöxtum.
Þrátt fyrir ágæta lækkun verðbólgu í september, sem Hagstofan kynnti í morgun, þá spá greiningardeildir bankanna því áfram að Seðlabankinn muni halda óbreyttum vöxtum.
Þrátt fyrir ágæta lækkun verðbólgu í september, sem Hagstofan kynnti í morgun, þá spá greiningardeildir bankanna því áfram að Seðlabankinn muni halda óbreyttum vöxtum.
Vaxtaákvörðunardagur bankans er á miðvikudaginn í næstu viku. Bæði greiningardeild Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans spá óbreyttum vöxtum, en Íslandsbanki á von á vaxtalækkun í nóvember. Stýrivextir Seðlabankans standa nú í 9,25%.
Tólf mánaða verðbólga mælist nú 5,4%, en hafði verið 6% í ágúst. Hefur verðbólgan ekki mælst lægri síðan í desember 2021. Hún fór hæst í 10,2% í febrúar 2023, en hefur síðan verið á niðurleið, með nokkrum hikum þó inn á milli.
Mest lækkun var á verði í mötuneytum eða 35,9% og flugfargjöldum til útlanda, sem lækkuðu um 16,5%. Lækkun í mötuneytum er að miklu leyti komin til vegna þess að máltíðir í grunnskólum eru nú gjaldfrjálsar.
Verð á fötum og skóm hækkaði um 5,0% og reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,7%.
Í spá Íslandsbanka segir að ýmsar vísbendingar séu um að verðbólguþrýstingur fari nú hjaðnandi og að spenna í hagkerfinu sé á undanhaldi. „Við spáum því að vaxtalækkunarferli hefjist í nóvember og að það herði á lækkunartaktinum eftir því sem hagkerfið kólnar frekar og verðbólga hjaðnar.“
Íslandsbanki spáir því að verðbólga verði komin í 5,1% um áramótin og hjaðni svo enn frekar á næsta ári og verði um 3% undir lok næsta árs.
Í spá Landsbankans er bent á að verðbólguhjöðnun undanfarið skýrist að hluta til af niðurfellingu einstaka skólagjalda og gjalda vegna skólamáltíða. Slík niðurfelling lækki vísitöluna, en leiði einnig til þess að almenningur hafi meira á milli handanna og kunni því til lengri tíma að vera þensluhvetjandi.
Landsbankinn telur að þrátt fyrir ríflega verðbólguhjöðnun og síhækkandi raunstýrivexti sé ólíklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans þyki forsendur hafa skapast fyrir vaxtalækkun. Vísað er til þess að nefndin hafi stigið varlega til jarðar síðustu mánuði og haldið vöxtum óbreyttum í heilt ár. Þá hafi í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar sérstaklega verið talað um varkárni og að bankanum sé mikið í mun að hætta ekki á að missa stjórn aftur á verðbólguvæntingum.
Landsbankinn bendir jafnframt á að kröftug kortavelta bendi enn til þess að heimilin hafi svigrúm til neyslu og síaukin innlán heimila gefi til kynna að neyslan geti aukist. Þá sé enn eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði og ekki sé farið að bera á verulega auknu atvinnuleysi.