Safnar forða til vetrarins

Uppskriftir | 29. september 2024

Safnar forða til vetrarins

Dómkirkjupresturinn Elínborg Sturludóttir fer á hverju hausti út í náttúruna að safna í kistuna fyrir veturinn. Hún veit fátt betra en að tína upp í sig safarík aðalbláber í grænni lautu.

Safnar forða til vetrarins

Uppskriftir | 29. september 2024

Elínborg bauð blaðamanni í morgunmat og að sjálfsögðu bar hún …
Elínborg bauð blaðamanni í morgunmat og að sjálfsögðu bar hún fram hafragraut með bláberjum og sterkt og gott kaffi. mbl.is/Ásdís

Dómkirkjupresturinn Elínborg Sturludóttir fer á hverju hausti út í náttúruna að safna í kistuna fyrir veturinn. Hún veit fátt betra en að tína upp í sig safarík aðalbláber í grænni lautu.

Dómkirkjupresturinn Elínborg Sturludóttir fer á hverju hausti út í náttúruna að safna í kistuna fyrir veturinn. Hún veit fátt betra en að tína upp í sig safarík aðalbláber í grænni lautu.

Elínborg heldur í gamlar hefðir formæðranna þegar hún gengur til fjalla á haustin og safnar fyrir veturinn. Ber, sveppir og jurtir ýmis konar enda svo út á skyrið, í sósuna, á lambalæri, í te eða í heilsuþeytinginn.

„Ég hef tínt ber alveg síðan ég var barn. Ég fór með foreldrum mínum í berjamó og mamma kepptist við og frysti og sultaði, enda var það hluti af því að komast af þegar það var óðaverðbólga í landinu og þau að byggja. Við fengum iðulega frosin bláber með rjóma og sykri á sunnudögum,“ segir Elínborg.

„Svo er fátt betra en að liggja í guðsgrænni náttúrunni og tína berin beint upp í sig.“

Atvinnumaður í berjatínslu

„Ég man þegar ég var unglingur og vann á spítalanum í Hólminum, var ég send á vegum St. Fransicussystranna til að fara út að tína ber sem voru svo fryst fyrir sjúkrahúsið. Þannig að ég var eiginlega atvinnumaður í berjatínslu,“ segir Elínborg og hlær dátt.

„Þegar ég fór sjálf að halda heimili hélt ég áfram að tína ber með minni fjölskyldu. Þetta er svo gaman og mikil náttúruupplifun,“ segir hún þegar hún er spurð hvað tínslan gefi sér.

„Maður kemst í snertingu við náttúruna og að fara í berjamó sameinar útivist, hreyfingu og slökun og veitir mikla ánægju. Ég er ekki frá því að það sé frumafl að fara í berjamó því maður tengist þeirri tilfinningu að safna forða til vetrarins og tryggja afkomu fjölskyldunnar. Þetta er mikil jarðtenging og maður þekkir sína uppáhalds staði; hvar bestu berin eru að finna.“

Rifsberjahlaupið og bláberjasultan njóta vinsælda á heimilinu.
Rifsberjahlaupið og bláberjasultan njóta vinsælda á heimilinu. mbl.is/Ásdís

Berjaáhuginn frá mömmu

„Svo er svo dásamlegt að bera þetta á borð fyrir fólkið sitt og berin eru meinholl. Ég bý til hrásaft úr krækiberjum og fæ mér staup á morgnana. Bláberin frysti ég og nota út á hafragrautin á morgnana og nota út í „búst“ líka,“ segir Elínborg sem fer á hverju hausti í berjamó.

„Ég fer aðallega í Borgarfjörðinn eða á Snæfellsnesið þar sem ég fer í berjamó með móður minni, Hallgerði Gunnarsdóttur, en hún er ábyggilega ein mesta berjakona landsins. Hún myndi nánast hætta lífi sínu ef besta berjasprettan væri í brattri hlíð. Hún fer með nesti og nýja skó og liggur úti heilu og hálfu dagana og gleymir sér innan um lyngið,“ segir Elínborg og ljóst er að hún fékk áhugann með móðurmjólkinni.

Rifsberjahlaup.
Rifsberjahlaup. mbl.is/Ásdís

Sveppir og fjallagrös

Á hverju hausti fyllir Elínborg frystinn af fleiri kílóum af krækiberjum og bláberjum en lætur sér það ekki nægja, því í garðinum vaxa sólber og rifsber, en auk þess ræktar hún þar rabarbara. „Sólberin eru svolítið súr en það er alveg hægt að nota þau,“ segir Elínborg og lætur ekki staðar numið við berin, því hún fer líka í sveppamó.

„Ég er aðallega að tína lerkisveppi, furusveppi og kúalubba sem ég síðan þurrka og á allan veturinn í sósur með lambalærinu eða á pítsuna. Ég er ekki í töfrasveppunum,“ segir Elínborg og hlær.

„Ég er mjög varkár í sveppatínslunni, enda geta sumir verið varasamir. Ég tíni líka blóðberg, fjallagrös og villijurtur og er með myntu í garðinum. Það er nóg að gera á haustin þegar uppskeran er mikil,“ segir Elínborg og gefur lesendum góðar uppskriftir þar sem gjafir náttúrunnar eru nýttar til fullnustu. Hún byrjar hér á Rifsberjahlaupi og bláberjasultu sem njóta mikilla vinsælda á hennar heimili.

Bláberjasulta.
Bláberjasulta. mbl.is/Ásdís

Rifsberjahlaup

  • 1 kg rifsber
  • 1 vanillustöng
  • pektín ef þarf
  • 700-1000 g sykur
  • vatn

Aðferð:

  1. Takið eitt kíló af hreinum rifsberjum úr garðinum, með stilkum og laufum.
  2. Sjóðið í ½ bolla af vatni í 10-15 mínútur.
  3. Þá má kremja þau með körtöflustappara og hella í fínt sigti eða láta safann leka í gegnum gamlan og hreinan bleyjuklút í nokkrar klukkustundir.
  4. Þá er safinn settur aftur í pott og 700 g – 1 kg af sykri blandað saman við (eftir því hve sætt hlaupið á að vera. Í gamla daga var alltaf 1 kg af berjum á móti 1 kg af sykri en það er mjög sætt!).
  5. Gott er að setja eina vanillustöng saman við sultuna eða bourbon-vanillu á hnífsoddi.
  6. Ef berin eru orðin mjög rauð má blanda pektíni saman við sykurinn svo það sé tryggt að rifsið hlaupi. Sykurinn og saftin er látin sjóða í 20 mínútur.
  7. Þá er heitum vökvanum hellt á hreinar sultukrukkur.
  8. Dýrðlegt ofan á ristað brauð, osta og kex eða út í jólasósuna.

Bláberjasulta

  • 1 kg íslensk (aðal)bláber
  • 700-800 g sykur
  • ⅓ dl vatn
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk pektín

Aðferð:

  1. Allt soðið saman í um það bil 10 mínútur við vægan hita og sett beint á hreinar krukkur og lokað vel.
mbl.is