Hvassahraunsflugvöllur áfram til skoðunar

Reykjavíkurflugvöllur | 1. október 2024

Hvassahraunsflugvöllur áfram til skoðunar

Veðurfarslega er ekkert því til fyrirstöðu að fara í uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni. Þá er flugvallarsvæðið að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og líkur á gosupptökum á svæðinu eru hverfandi, auk þess sem svæðið er ekki útsett fyrir hraunflæði lítilla gosa sem eiga sér stað í nálægustu eldstöð. Þá er flutningur ekki talinn hafa mikil langtímaáhrif á innanlandsflug.

Hvassahraunsflugvöllur áfram til skoðunar

Reykjavíkurflugvöllur | 1. október 2024

Nefndin leggur til að svæði verði tekið frá vegna flugvallar …
Nefndin leggur til að svæði verði tekið frá vegna flugvallar í Hvassahrauni og að áfram verði unnið að uppbyggingahugmyndum. mbl.is/Árni Sæberg

Veðurfarslega er ekkert því til fyrirstöðu að fara í uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni. Þá er flugvallarsvæðið að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og líkur á gosupptökum á svæðinu eru hverfandi, auk þess sem svæðið er ekki útsett fyrir hraunflæði lítilla gosa sem eiga sér stað í nálægustu eldstöð. Þá er flutningur ekki talinn hafa mikil langtímaáhrif á innanlandsflug.

Veðurfarslega er ekkert því til fyrirstöðu að fara í uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni. Þá er flugvallarsvæðið að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og líkur á gosupptökum á svæðinu eru hverfandi, auk þess sem svæðið er ekki útsett fyrir hraunflæði lítilla gosa sem eiga sér stað í nálægustu eldstöð. Þá er flutningur ekki talinn hafa mikil langtímaáhrif á innanlandsflug.

Þetta er meðal helstu niðurstaða í skýrslu starfshóps um flugvöll í Hvassahrauni sem hefur verið að störfum síðan árið 2020. Markmiðið var að fullkanna kosti þess að reisa og reka flugvöll sem myndi gegna hlutverki varaflugvallar, innanlandsflugvallar og flugvallar fyrir kennslu-, æfinga- og einkaflug. Myndi þessi flugvöllur því koma í stað Reykjavíkurflugvallar, en mikil umræða hefur verið undanfarna tvo áratugi um að flytja þann flugvöll úr Vatnsmýrinni til að rýma meðal annars fyrir byggð.

Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á fundi innviðaráðuneytisins núna fyrir skömmu.

Veðurskilyrði ekki verri en yfir Reykjavíkurflugvelli

Þar segir meðal annars að takmarkanir vegna vinds eða hliðarvinds, skyggnis skýjahæðar eða ókyrrðar séu ekki meiri í Hvassahrauni en almennt er þekkt suðvestanlands.

Í gegnum tíðina hefur meðal annars mikið verið rætt um mögulega meiri ókyrrð yfir Hvassahrauni en yfir Reykjavíkurflugvelli. Niðurstaða starfshópsins eftir mælingar og tilraunaflug yfir bæði Reykjavíkurflugvelli og Hvassahrauni var að ókyrrð væri almennt hærri í vindáttum á milli norðurs og austurs á Reykjavíkurflugvelli. Því væri hins vegar öfugt farið og hærri í Hvassahrauni fyrir vindáttir frá austri til suðurs, sem jafnframt eru algengar vindáttir þar.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra á kynningarfundi vegna skýrslu Hvassahraunsnefndarinnar í dag.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra á kynningarfundi vegna skýrslu Hvassahraunsnefndarinnar í dag. mbl.is/Karítas

„Að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa“

Í ljósi ítrekaðra eldsumbrota við Fagradalsfjalla og Sundhnúkagíga hefur náttúruvá verið framarlega þegar kemur að varnarorðum um mögulega uppbyggingu í Hvassahrauni. Skýrsluhöfundar segja þó að þegar komi að náttúruvá sé mögulegt flugvallarsvæði „að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og líkur á gosupptökum á svæðinu eru hverfandi.“

„Svæðið er ekki útsett fyrir hraunflæði lítilla gosa en eigi gos sér stað í eldstöðvakerfi Krýsuvíkur, næst svæðinu, benda niðurstöður til þess að líklegt sé að hluti athugunarsvæðisins verði fyrir hrauni. Líkur á því minnka þó eftir því sem norðar kemur á svæðið,“ segir í skýrslunni.

Flugvallarstæðið í Hvassahrauni er um 15-20 km frá hraunmörkum og gígum í núverandi goshrinu við Sundhnúka, en Keflavíkurflugvöllur er í um 10-15 km fjarlægð. Er fjarlægð frá Hvassahrauni að hrauni og gosum sem komu úr fyrri hrinunni sem varð við Fagradalsfjall um 10 km.

Hverfandi líkur á flæði frá öðrum eldstöðvum á Reykjanesskaga

Þá er talið ólíklegt að hraun renni yfir Reykjanesbrautina á þessu svæði, en þó ekki útilokað.

Hverfandi líkur eru taldar á hraunflæði frá öðrum eldstöðvum og fullvíst að áhrif af jarðskjálftum séu vel viðráðanleg í allri mannvirkjahönnun. „Líklegast er að gasmengun verði ekki mikil á athugunarsvæðinu en að þær aðstæður geti skapast að loftgæði verði mjög óholl af völdum brennisteinsdíoxíðs að gasstyrkur fari vel yfir hættumörk. Líklegast er að gjóskufall valdi einungis skammvinnum áhrifum á athugunarsvæðið í Hvassahrauni.“

Lítil áhrif á innanlandsflug

Hópurinn telur líklegast að langtímaáhrif á eftirspurn í innanlandsflug verði ekki mikil ef af flutningi verður, sem og langtímaáhrif á kennslu-, æfinga- og einkaflug. „Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur er hins vegar líklegur til að hafa mikil áhrif á notkun þess,“ segir í skýrslunni.

Í samantek í skýrslunni eru þessar niðurstöður dregnar saman: „Veðurfarslega er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram undirbúningi að byggingu flugvallar í Hvassahrauni sem myndi þjóna kennslu-, æfinga- og einkaflugi, innanlandsflugi og sem varaflugvöllur millilandaflugs. Ekki er hægt að útiloka að flugvöllurinn verði fyrir áhrifum af völdum hraunflæðis en líkur eru taldar afar litlar.“

Vilja taka frá svæði fyrir flugvöll fara í frekari vinnu

Leggur nefndin til að tekið verði frá svæði upp af Hvassahrauni og gert sé ráð fyrir tveimur 3.000 metra löngum flugbrautum og þriðju brautinni upp á 1.500 metra til að hækka nothæfisstuðulinn fyrir flugvélar með lítið hliðarvindþol. Þá verði unnið að áhættumati fjárfestingar, viðskiptaáætlun, fjármögnun, áfangaskiptingu og tímasetningu framkvæmda.

Einnig er lagt til að farið verði í frekari rannsóknir og flugprófanir, einkum við erfið skilyrði og nákvæmari líkanagerð útfærð fyrir ókyrrð á svæðinu.

Kemur í kjölfar samkomulags frá 2019

Starfshópurinn hóf störf í kjölfar skýrslu nefndar um greiningu valkosta um framtíðarskipan flugvallarmála á suðvesturhorni landsins, en sú skýrsla kom út í nóvember 2019 og samkomulags ríkis og Reykjavíkurborgar um samstarf á rannsóknum um möguleika á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

Þau sem sitja í stýrihópnum og eru skrifuð fyrir skýrslunni eru þau Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður stýrihópsins og verkefnastjóri, Birgir Örn Ólafsson og Kolbrún Jóna Pétursdóttir frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Ólöf Örvarsdóttir og Haraldur Sigurðsson frá Reykjavíkurborg og Friðfinnur Skaftason frá innviðaráðuneytinu.

Lítil bjartsýni um uppbyggingu í Hvassahrauni

Eftir eldsumbrotin á Reykjanesskaga virðast vonir um uppbyggingu í Hvassahrauni hafa dvínað nokkuð og sagði borgarstjóri meðal annars í sumar að flugvöllur yrði áfram í Vatnsmýri.

Forstjóri Isavia hefur einnig bent á að það muni kosta hundruð milljarða að byggja annan alþjóðaflugvöll sem geti sinnt tengiflugi líkt og Keflavíkurflugvöllur. Hugmyndirnar sem settar hafa verið fram með Hvassahraun gera þó frekar ráð fyrir að hann verði innanlandsflugvöllur, en á sama tíma varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll, en ekki fullbúinn alþjóðaflugvöllur fyrir tengiflug.

Þá vakti athygli í sumar að landeigendur jarðarinnar Hvassahrauns hefðu sett jörðina á sölu. Jörðin er um 2.200 hektarar að stærð, en eigendurnir töldu líkur á flugvelli hafa minnkað, en að kannski væri hægt að koma þar upp aðstöðu fyrir þyrlur sem gætu þjónustað ferðamenn. Hins vegar væru verðmæti fólgin í vatnsauðlind undir jörðinni.

Forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason, sagði í sumar að félagið hefði afskrifað möguleika á nýjum innanlands- og millilandaflugvelli í Hvassahrauni næstu áratugi og að engin þörf væri á nýjum flugvelli. „Við erum með fjóra alþjóðflugvelli á Íslandi í dag sem eru bara fínir en skynsamlegt að styrkja þá enn frekar. Til dæmis flugvöllurinn hér í Vatnsmýrinni, það þarf að gera hann enn betri, bæði fyrir farþega og starfsmenn og styrkja hann enn frekar sem varaflugvöll,“ var haft eftir Boga í frétt á Rúv í júlí.

mbl.is