Hjaðningavíg innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins hafa komið upp á yfirborðið að undanförnu. Upphafið að þeirri atburðarás má rekja til rauss milli tveggja hlaðvarpsstjórnenda.
Hjaðningavíg innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins hafa komið upp á yfirborðið að undanförnu. Upphafið að þeirri atburðarás má rekja til rauss milli tveggja hlaðvarpsstjórnenda.
Hjaðningavíg innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins hafa komið upp á yfirborðið að undanförnu. Upphafið að þeirri atburðarás má rekja til rauss milli tveggja hlaðvarpsstjórnenda.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta þætti Spursmála þar sem Kristín Gunnarsdóttir, annar tveggja stjórnenda hlaðvarpsins Komið gott, mætti til leiks til að fara yfir fréttir vikunnar.
Hún stjórnar varpinu ásamt Ólöfu Skaftadóttur, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins. Ólöf er mágkona Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni. Í hlaðvarpinu, sem er vikulegt, koma þær stöllur einatt tvær saman yfir bjórkollu á 101 hótel í miðborg Reykjavíkur og láta gamminn geisa.
Í síðasta þætti hlaðvarpsins, sem fleytt var á öldum ljósvakans á miðvikudag í síðustu viku, rakti Ólöf hreint lygilega frásögn af samskiptum Hildar og borgarfulltrúans Mörtu Guðjónsdóttur, sem setið hefur í borgarstjórn sem aðalmaður frá 2017 en frá 2006-2017 sem varaborgarfulltrúi.
Frásögn Ólafar lýtur að stimpingum um útdeilingu sæta í sal borgarstjórnar á síðasta kjörtímabili, þegar Eyþór Arnalds var oddviti flokksins og Hildur vermdi annað sæti lista flokksins í kosningunum sem þá höfðu farið fram.
Samkvæmt frásögninni mun Marta hafa haft áhrif á stólaskipan borgarfulltrúa í sal borgarstjórnar, þvert á það sem hefð gerir ráð fyrir. Þannig hafi hún fært stólamerkingar og tryggt sér með því sæti næst oddvita flokksins en fært Hildi, sem með réttu hefði átt að verma það sæti, aftar í sal borgarstjórnar.
Fara þær Ólöf og Kristín hörðum orðum um Mörtu og eru lýsingar þeirra í meira lagi beinskeyttar.
Hildur hefur ekki blandað sér í þessa umræðu opinberlega en Marta Guðjónsdóttir hefur hafnað þessari frásögn mágkonunnar sem „fjarstæðu, bulli og firru“. Það gerði hún í samtali við Vísi í fyrri viku.
Orð hefur risið gegn orði í þessum hildarleik. Þannig hefur Katrín Atladóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá fyrra kjörtímabili, stigið fram á miðlinum X þar sem hún vísar í fyrrnefnd ummæli Ólafar og segist staðfesta frásögnina.
Björn Ingi Hrafnsson, er gestur Spursmála ásamt Kristínu og hann segir málið fyrst og síðast til marks um þann mikla klofning og eineltismenningu sem grasserað hafi í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins á síðustu árum. Það sem einkenni þá stöðu að hans mati sé sú staðreynd að borgarfulltrúar virði ekki niðurstöður prófkjara og það hverjir hafi valist til forystu fyrir hönd flokksins. Telur Björn Ingi að taka þurfi á þessum vanda innan borgarstjórnarflokksins.
Í Spursmálum er Kristín spurð út í þá bersögli sem einkennir hlaðvarpið Komið gott, en fyrrnefnd frásögn Ólafar er dæmi um það hvernig mál eru dregin upp á yfirborðið á þeim vettvangi, sem annars myndu liggja áfram í þagnargildi.
Orðaskiptin um þetta atriði má sjá í spilaranum hér að ofan. Hér að neðan er viðtalið aðgengilegt í heild sinni.