Ráðleggja sextugum og eldri frá meðferð

Dagmál | 3. október 2024

Ráðleggja sextugum og eldri frá meðferð

„Þó að lyfin séu frábær þá virka þau ekki fyrir alla, því miður,“ segir Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir yfirlæknir á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans um líftæknilyf sem sýnt hafa fram á jákvæða virkni og góðan árangur á sjálfsofnæmissjúkdóminn Alopecia. 

Ráðleggja sextugum og eldri frá meðferð

Dagmál | 3. október 2024

„Þó að lyfin séu frábær þá virka þau ekki fyrir alla, því miður,“ segir Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir yfirlæknir á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans um líftæknilyf sem sýnt hafa fram á jákvæða virkni og góðan árangur á sjálfsofnæmissjúkdóminn Alopecia. 

„Þó að lyfin séu frábær þá virka þau ekki fyrir alla, því miður,“ segir Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir yfirlæknir á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans um líftæknilyf sem sýnt hafa fram á jákvæða virkni og góðan árangur á sjálfsofnæmissjúkdóminn Alopecia. 

Elísabet ræddi um sjúkdóminn, algengi hans, einkenni, bata- og framtíðarhorfur nýrrar lyfjaþróunar í Dagmálum á dögunum ásamt þeim Hilmari Pálssyni deildarlækni á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans og Höllu Árnadóttur forstöðukonu mannauðs- og launalausna hjá Origo en hún hefur upplifað sjúkdóminn vel á eigin skinni og missti til að mynda hár, augnhár og augabrúnir á síðasta ári sem var henni nokkurt áfall.

Hilmar, Elísabet og Halla ræða um sjúkdóminn. Blettaskalli er hvimleiður …
Hilmar, Elísabet og Halla ræða um sjúkdóminn. Blettaskalli er hvimleiður sjúkdómur og mikið ólíkindatól. mbl.is/María Matthíasdóttir

Ráða eldra fólki frá meðferð

Íslenska heitið yfir Alopecia er blettaskalli og skiptist sjúkdómurinn í þrjár tegundir sem skilgreindar eru út frá alvarleika hans; Alopecia areata (misstórir skallablettir hér og þar), Alopecia totalis (hár á höfði, augnhár og augabrúnir tapast) og Alopecia universalis (alskalli). 

Samkvæmt þeim Elísabetu og Hilmari geta börn jafnt sem fullorðnir fengið sjúkdóminn einhvern tímann á lífsleiðinni, óháð kyni og kynþætti. Oftast nái sjúkdómurinn hámarki sínu þegar fólk er á milli tvítugs og fertugs. Lyfjameðferðir við sjúkdómnum segja þau hafa sannað gildi sitt síðustu ár, þá sérstaklega á meðal yngra fólks.

„Það sem okkar reynsla hefur sýnt, sem er að einhverju leyti gott líka, er að lyfin virka mun betur fyrir yngra fólk. Áhættan er mun meiri fyrir þá sem eru eldri og ávinningurinn er meiri fyrir yngri,“ segir Elísabet en umrædd lyf voru upprunalega notuð við iktsýki og alvarlegum gigtarsjúkdómum og hafa einnig æxlishemjandi virkni.

„Eins og staðan er núna þá helst ráðleggjum við fólki frá meðferð sem er orðið sextugt,“ segir Elísabet og telur svörun hjá eldra fólki við lyfjunum oft ómarktæka eða lakari en hjá þeim sem yngri eru.

Elísabet Reykdal húðlæknir og sérfræðingur í blettaskalla.
Elísabet Reykdal húðlæknir og sérfræðingur í blettaskalla. mbl.is/María Matthíasdóttir

Greining þarf að liggja fyrir

Hvaða ferli fer í gang hjá ykkur þegar þið fáið svona vandamál inn á borð til ykkar þar sem þið sjáið augljóslega að allt hárið er bara að fara?

„Fyrst þarf greiningin að vera til staðar. Sumir sjúklingar sem koma til okkar eru komnir með greininguna eða þá að þetta er svona að gerast og þá þurfum við náttúrulega að staðfesta þá greiningu,“ segir Hilmar og metur svo að flestar greiningar komi í gegnum heimilislækna og eða húðlækna á einkastofum. 

„Svo náttúrulega saga einstaklinganna segir þetta svolítið. Þetta eru klínískar greiningar sem oft er hægt að greina bara með augunum þannig séð en það er hægt að greina þetta með smásjárskoðun eða með því að taka sýni og svona. Oft á tíðum er ekki talin þörf á því.“

Hilmar Pálsson, deildarlæknir á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans.
Hilmar Pálsson, deildarlæknir á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans. mbl.is/María Matthíasdóttir

Helmingur hársins þarf að tapast til að fá lyf

Að sögn Hilmars er lyfjameðferð ekki alltaf rétta svarið við blettaskalla. Oft sé hægt að halda hárlosi í skefjum með annars konar meðhöndlun líkt og sterasprautum, frystimeðferðum, steraupplausn til áburðar á skallasvæði og ýmsum öðrum leiðum. Við alvarlegri tilfellum þar sem helmingur hárs hefur tapast eða meira er gripið til lyfjameðferðar.

„Í dag er þetta þannig að ef einstaklingar koma til okkar og fá meðferð þá þurfa þeir að vera með alvarlegan blettaskalla. Það þýðir í rauninni 50% hártap eða meira til þess að geta fengið meðferðina og það þarf að vera staðfest af sérfræðingum,“ segir Hilmar.

„Lyfið er svo rætt og sjúklingar fá sérstaka fræðslu um lyfið og ef einstaklingur kýs að byrja á meðferðinni þá þarf í rauninni bara að taka svolítið af blóðprufum og passa að það séu engar undirliggjandi sýkingar eða duldar sýkingar til staðar og ef allt er í lagi þá er hægt að byrja fljótlega á lyfjameðferð.“

Smelltu á spilarann hér að neðan til að sjá eða heyra viðtalið í heild. 

mbl.is