Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að gott hafi verið að leggjast á koddann í nótt eftir að samninganefnd Eflingar undirritaði í nótt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að gott hafi verið að leggjast á koddann í nótt eftir að samninganefnd Eflingar undirritaði í nótt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að gott hafi verið að leggjast á koddann í nótt eftir að samninganefnd Eflingar undirritaði í nótt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Samningurinn tekur til á þriðja þúsund Eflingarfélaga á hjúkrunarheimilum og sambærilegum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði.
Meginkrafa samninganefndar Eflingar var sú að tekið yrði á mönnunarvanda hjúkrunarheimilanna.
Spurð hvort Efling hafi náð fram öllu því sem óskað var eftir segir Sólveig Anna:
„Við náðum árangri í næstum öllum atriðum sem voru í kröfugerðinni okkar en aðalárangurinn er þó fólginn í því að við fengum stjórnvöld til þess að viðurkenna þann alvarlega mönnunarvanda sem hefur plagað hjúkrunarheimilin og hefur haft afskaplega vond áhrif á vinnuskilyrði Eflingarfólks í umönnun,“ segir Sólveig Anna við mbl.is.
Sólveig segir að samkomulagið við stjórnvöld sem ætli að taka á mönnunarvandanum hafi skipt sköpum um að samningar hafi náðst.
„Þetta var grundvallarkrafan okkar og að fram kæmu tímasettar útfærðar tillögur til að takast á við þennan vanda. Við náðum þeim árangri að hratt og örugglega í að fara í vinnu við að leggja fram fjármagnaðar og tímasettar lausnir,“ segir hún.
Sólveig segir að þessi vinna eigi að liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl 2025.
Hún segir ástæðuna fyrir því að heilbrigðisráðuneytið treystir sér í að fara í vinnu með þessum hætti og tryggja að niðurstöður liggi fyrir á svona stuttum tíma sé sú að í það minnsta þrjár skýrslur hafi verið unnar á síðustu árum sem sýni fram á það með skýrum hætti hver vandinn er innan hjúkrunarheimilanna og hvernig það mönnunarmódel sem stuðst er við sé með öllu óviðunandi.
Samningurinn gildir frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028 og nær því yfir fjögurra ára samningstíma, þar af sex mánuði afturvirka frá undirritun.
„Það þurfti Eflingarfólk með lausa kjarasamninga til þess að fá stjórnvöld til þess að horfast í augu við vandann og lofa því að takast á við hann,“ segir Sólveig Anna en þetta er í fyrsta sinn sem Efling gerir sjálfstæðan kjarasamning fyrir hönd starfsfólks á hjúkrunarheimilum.
„Þetta er í fyrsta sinn sem Eflingarfélagar sem starfa hjá hjúkrunarheimilum, sem er risastór ómissandi hópur ómissandi starfsfólks, gerir sjálfstæðan kjarasamning. Hefðin hefur verið sú að samningar Eflingar við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa einfaldlega tekið eftir samningum sem gerðir eru við ríkið.“
Hún segir að það hafi verið ákveðið að þessu sinni að fara þessa leið og það hafi skilað þessum frábæra árangri og bendir hún á að Efling sé langstærsti viðsemjandi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Sólveig segir að nú taki við vinna við að kynna samningana. Atkvæðagreiðslan hefst á mánudaginn og lýkur 16. október.
„Fari svo að samningurinn verði samþykktur, sem ég tel næsta víst, þá koma hækkanirnar með fullri afturvirkni frá 1. apríl til greiðslu,“ segir Sólveig Anna.