„Ekkert okkar vilji afskrifa Reykjanesskagann“

Reykjavíkurflugvöllur | 5. október 2024

„Ekkert okkar vilji afskrifa Reykjanesskagann“

„Ég held nú bara að við ættum að anda í kviðinn, sko,“ sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra innt eftir viðbrögðum við ummælum fjármálaráðherra um nýja skýrslu um hentisemi Hvassahrauns sem flugvallarsvæðis.

„Ekkert okkar vilji afskrifa Reykjanesskagann“

Reykjavíkurflugvöllur | 5. október 2024

Svandís segir mikilvægt að halda möguleikanum um uppbyggingu flugvallar í …
Svandís segir mikilvægt að halda möguleikanum um uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni opnum. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Árni Sæberg

„Ég held nú bara að við ættum að anda í kviðinn, sko,“ sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra innt eftir viðbrögðum við ummælum fjármálaráðherra um nýja skýrslu um hentisemi Hvassahrauns sem flugvallarsvæðis.

„Ég held nú bara að við ættum að anda í kviðinn, sko,“ sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra innt eftir viðbrögðum við ummælum fjármálaráðherra um nýja skýrslu um hentisemi Hvassahrauns sem flugvallarsvæðis.

Niðurstöður rannsókna útiloka ekki byggingu flugvallar í Hvassahrauni en sex manna starfshópur um hugsanlega uppbyggingu þar var skipaður í júní 2020.

„Við vissum að þetta yrði tæknileg skýrsla og að þetta yrði ekki endanleg niðurstaða um hvað ætti að gera, heldur myndum við á þessum tímapunkti getað vegið það og metið hvort það væri hægt að halda möguleikanum opnum og það var niðurstaðan – að við eigum að halda þessum möguleika opnum,“ segir Svandís.

Þarf að hugsa lengra en kjörtímabilið

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kvaðst í gær ekki vera reiðubúinn að fjármagna uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur einnig tjáð sig um skýrsluna og sagði það vonbrigði að hún hefði ekki skilað neinum óyggjandi niðurstöðum. Það segði honum að það hefðu verið mistök að byggja ekki upp aðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli.

Segir Svandís það skipta miklu máli að hugsa ekki einungis út frá núverandi kjörtímabili heldur að þessum kosti verði haldið opnum fyrir mögulegan flutning innanlandsflugvallar í framtíðinni. Það skipti máli fyrir uppbyggingu og framtíðarsýn Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins.

Auðvitað séu álitamál sem lúti að náttúruvánni á svæðinu sem þurfi að koma fram og það hafi þau gert. Skýrslan sé engu að síður fagleg og tæknileg og því beri að taka mark á staðreyndum sem í henni komi fram.

Þarf að áhættumeta svæðið í heild

En þú hlýtur að skilja að þetta komi fólki spánskt fyrir sjónir í ljósi jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaganum?

„Algjörlega, það hefur náttúrulega verið mikil hreyfing á svæðinu og ég held að við séum líka að horfa til byggðarinnar í efri byggðum Hafnarfjarðar. Það eru alls konar umræður sem hafa verið í gangi. Innviðir á svæðinu, orkuinnviðir, Reykjanesbrautin, Grindavík.

Við erum að fjalla um það í hverri einustu viku í mjög langan tíma. Um leið eru þarna að minnsta kosti fimm virkjanakostir í nýtingarflokki rammaáætlunar og þurfum við kannski að endurmeta þá kosti. Þurfum við að fara aftur yfir að það hvort það sé ekki ráðlegt að ráðast í þá orkuöflun í ljósi þessa.

Við þurfum að horfa á og áhættumeta svæðið í heild bæði miðað við stöðuna eins og hún er núna, innviðina sem eru á staðnum og innviðina sem eru á teikniborðinu og ég held að ekkert okkar vilji afskrifa Reykjanesskagann.“

mbl.is