„Þarf að verja Reykjavíkurflugvöll fyrir stöðugum árásum“

Reykjavíkurflugvöllur | 5. október 2024

„Þarf að verja Reykjavíkurflugvöll fyrir stöðugum árásum“

„Ég er mjög ánægður með það að bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra eru komnir á sömu skoðun og ég kom fram með í byrjun vikunnar.“

„Þarf að verja Reykjavíkurflugvöll fyrir stöðugum árásum“

Reykjavíkurflugvöllur | 5. október 2024

Njáll Trausti hefur starfað sem flugumferðarstjóri í flugturninum á Akureyri.
Njáll Trausti hefur starfað sem flugumferðarstjóri í flugturninum á Akureyri. mbl..is/Þorgeir Baldursson

„Ég er mjög ánægður með það að bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra eru komnir á sömu skoðun og ég kom fram með í byrjun vikunnar.“

„Ég er mjög ánægður með það að bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra eru komnir á sömu skoðun og ég kom fram með í byrjun vikunnar.“

Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar, þegar hann er spurður út í ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Sigurður Ingi að hann sé ekki reiðubúinn að fjármagna uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni.

Niðurstaða í skýrslu um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni var kynnt í byrjun vikunnar og þar kom meðal annars fram að veðurfarslega sé ekkert því til fyrirstöðu að fara í uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni. Þá sé flugvallarsvæðið að mestu utan skilgreindra eldstöðvarkerfa og líkur á gosupptökum á svæðinu séu hverfandi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði við mbl.is í gær að skýrslan hafi ekki skilað neinum óyggjandi niðurstöðum. 

„Þetta segir mér fyrst og fremst að það hafi verið mistök að byggja ekki upp aðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli. Við höfum í rauninni verið í áratugi með bráðabirgðaaðstöðu þar,“ sagði Bjarni.

Njáll Trausti segir að það þurfi að breyta verulega kúrs. Hann segist hafa gert miklar athugasemdir við þessa vinnu og hvert stefndi hvað Hvassahraunið varðar. 

„Aðalatriðið í dag og hefur verið í mínum huga í mörg ár er það að verja Reykjavíkurflugvöll fyrir þeim árásum sem flugvöllurinn verður fyrir statt og stöðugt. Á sama tíma er verið að gera þessa skýrslu um Hvassahraunið og mylja þannig niður flugvöllinn. Fyrir mér er þetta löngu afskrifað mál,“ segir Njáll Trausti við mbl.is en þess má geta að hann hefur starfað sem flugumferðarstjóri í flugturninum á Akureyri.

Þetta er skrítið plagg

Njáll segir að skýrslan sé meingölluð.

„Þetta er skrítið plagg og mér finnst undarlegt hvernig er tekið á þessu með þetta mögulega eldgos á svæðinu. Það sem er að koma fram núna að Veðurstofan hafi skilað þessum hluta af sér í mars í fyrra en síðastliðið ár hafa verið sex eldgos á Sundhnúkagígaröðinni og þau stækka með hverju gosinu sem líður. Ég er löngu hættur að skilja hvernig það gerðist að skýrslan var gefin út án þess að það hafi verið tekið á þessu og rannsaka áhrifin.“

Hann segir að trjágróðurinn í Öskjuhlíð sé farinn að hafa áhrif á flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli gagnvart aðal brottflugunum og nýja byggðin í Skerjafirði.

„Mér skilst að það hafi borist sú skipun til Isavia innanlandsfluga frá innviðaráðherra um að færa girðinguna til að undirbúa að hægt sé að byggja þarna. Ef menn koma ekki með viðbragð við þessu núna þá veit ég ekki hvenær menn ætla að koma með viðbragð um að verja flugvöllinn fyrir þessum árásum. Nú þarf að verja hann gagnvart byggð í Skerjafirði og koma aðflugunum og brottflugunum í lag fyrir flugvöllinn út af þessum trjágróðri,“ segir Njáll.

mbl.is