„Það er ekki boðlegt að tala svona“

Dagmál | 8. október 2024

„Það er ekki boðlegt að tala svona“

Íslensk menntamálayfirvöld hafa enn ekki gefið gildar skýringar á því hvers vegna íslensk grunnskólabörn komu mun verr út úr PISA-könnuninni 2022 en önnur OECD-ríki.

„Það er ekki boðlegt að tala svona“

Dagmál | 8. október 2024

Íslensk menntamálayfirvöld hafa enn ekki gefið gildar skýringar á því hvers vegna íslensk grunnskólabörn komu mun verr út úr PISA-könnuninni 2022 en önnur OECD-ríki.

Íslensk menntamálayfirvöld hafa enn ekki gefið gildar skýringar á því hvers vegna íslensk grunnskólabörn komu mun verr út úr PISA-könnuninni 2022 en önnur OECD-ríki.

Árangur nemenda versnaði mun meira milli kannana á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.

Þetta segir Jón Pétur Zimsen, sérfræðingur í menntamálum, sem er gestur Dagmála í dag.

Samt sem áður er látið að því liggja að þrjár ástæður séu á bak við slæma þróun hér á landi, sem hann gefur lítið fyrir.

Jón Pétur gagnrýnir málflutning skólayfirvalda og segir ráðherrann Ásmund Einar …
Jón Pétur gagnrýnir málflutning skólayfirvalda og segir ráðherrann Ásmund Einar Daðason fara með rangt mál. Samsett mynd

Kennaraskortur úti um allt í Evrópu

Í fyrsta lagi sé það skortur á menntuðum kennurum.

„Kennaraskortur er úti um allt í Evrópu, þannig að við ættum ekkert að falla svona mikið miðað við hin löndin,“ segir Jón Pétur.

Í öðru lagi hafi verið bent á það að börn með veikari félags- og efnahagslegan bakgrunn hafi staðið sig verr í PISA-könnuninni.

„Það fellur líka um sjálft sig vegna þess að við erum með í raun eitt jafnasta samfélag sem fyrirfinnst og það kemur fram í PISA-skýrslunni að jöfnuður hér er meiri en víðast hvar annars staðar.“

Í þriðja lagi hafi fjölgun barna innflytjenda í grunnskólum landsins dregið meðaltalið í PISA niður.

„Og það er líka rangt vegna þess að þeir lækkuðu minna en hið hefðbundna íslenska barn,“ segir Jón Pétur.

„Þannig að þessar þrjár ástæður sem ég les í gegnum þeirra orð að séu ástæða fyrir lækkuninni, þær eru í raun ógildar og engin rök fyrir þeim.“

Jón Pétur segir að innleiða þurfi umfangsmiklar mælingar til að …
Jón Pétur segir að innleiða þurfi umfangsmiklar mælingar til að meta færni barna. mbl.is/Hari

„Föllum bara miklu, miklu meira“

Á menntaþingi skólayfirvalda í síðustu viku sagði ráðherrann Ásmundur Einar Daðason að þróunin á gengi íslenskra grunnskólabarna í PISA væri sambærileg því sem sæist í nágrannalöndum okkar.

Jón Pétur segir það ekki rétt.

„Við föllum bara miklu, miklu meira og það er ekki boðlegt að tala svona. Það er það sem maður hefur svona ofboðslega miklar áhyggjur af.“

Jón Pétur vill að snjallsímar verði gerðir útlægir úr starfi …
Jón Pétur vill að snjallsímar verði gerðir útlægir úr starfi með börnum og skjátími þeirra takmarkaður. mbl.is/Hari

Snjallsímar verði gerðir útlægir

Það sem þarf að gera, að mati Jóns Péturs, er að innleiða umfangsmiklar mælingar til að meta færni barna, sérstaklega á fyrstu árum þeirra í grunnskóla, „til að gulltryggja það að allir sem eiga að geta lesið geti það, við missum engan í gegnum netmöskvana“.

Hann telur mikilvægt að allir starfsmenn sem vinna með börnum tali mjög góða íslensku og að þau tali stanslaust íslensku við börnin.

Snjallsímar verði sömuleiðis gerðir útlægir úr starfi með börnum og skjátími takmarkaður.

mbl.is