Skólastjóri Öldutúnsskóla segir það mikla einföldun hjá Viðskiptaráði að ætla að skólakerfið hafi farið hnignandi eftir að samræmd próf við lok grunnskólagöngu voru tekin út.
Skólastjóri Öldutúnsskóla segir það mikla einföldun hjá Viðskiptaráði að ætla að skólakerfið hafi farið hnignandi eftir að samræmd próf við lok grunnskólagöngu voru tekin út.
Skólastjóri Öldutúnsskóla segir það mikla einföldun hjá Viðskiptaráði að ætla að skólakerfið hafi farið hnignandi eftir að samræmd próf við lok grunnskólagöngu voru tekin út.
Hann segir samt sem áður ljóst að eitthvert samræmt mat verði að vera til staðar og bindur miklar vonir við svokallaðan matsferil, námsmatstæki sem taka á upp að hluta á næsta skólaári.
Þó telur hann að námskráin sem innleidd var árið 2011 sé of flókin og að hana þurfi að einfalda til að auðvelda samræmt mat.
Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla, tók þátt í pallborðsumræðum á nýafstöðnu menntaþingi ásamt Birni Brynjúlfi Björnssyni, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, Magnúsi Þór Jónssyni, formanni Kennarasambands Íslands, og fleirum.
Mikillar óánægju gætti á þinginu þegar Björn Brynjúlfur færði rök fyrir innleiðingu samræmds námsmats við lok grunnskólagöngu barna. Talaði hann um „neyðarástand“ í stöðu menntakerfisins.
Björn Brynjúlfur sagði það vissulega framför að matsferillinn yrði skyldubundinn í 4., 6. og 9. bekk en það vantaði enn samræmt mat við lok grunnskólagöngunnar.
Magnús Þór sagði þá að samræmt lokamat yrði að vera byggt á námskrá og að með því yrðu allir steyptir í sama mót. Breyta þyrfti námskránni aftur í fyrra form, ef taka ætti aftur upp samræmd próf.
Valdimar komst lítið að í pallborðsumræðunum en hann telur nýju námskrána frá árinu 2011 vera of yfirgripsmikla og flókna. Þá hafi innleiðing hennar ekki gengið nógu vel.
„Ef við skoðum ýmis hæfniviðmið sem þar eru inni þá er það jafnvel þannig að foreldrar og nemendur skilja ekki almennilega hvað er verið að biðja um. Hún er sett þannig upp að það er ákveðið mat fyrir hæfniviðmið sem þarf að vera búið að ná í 4. bekk, 7. bekk og 10. bekk og allt ágætt með það, en þetta er bara svo flókið,“ segir Valdimar í samtali við mbl.is.
„Það þarf að einfalda námskrána og stíga aðeins til baka og þegar Magnús sagði á pallborðinu við mig að hann væri ekki sammála því að fara aftur til fortíðar, þá var ég einfaldlega að meina að horfa á grunninn. Hvað erum við í raun og veru að leggja áherslu á í skólakerfinu.“
Valdimar vísar til þess sem börnin sögðu í upphafi menntaþingsins, að vinir þeirra í öðrum skólum væru kannski að læra eitthvað allt annað þó þeir væru í sama árgangi, af því skólarnir hefðu svigrúm til að útfæra námskrána eftir sínu höfði.
„Sem gerir það að verkum ef þú ferð úr einum skóla í annan þá ertu kannski búinn með hluta af námsefninu eða missir af hluta, vegna þess að þetta er ekki útfært á sama hátt.“
Hann segir það einnig afar óheppilegt að framhaldsskólarnir hafi ekki verið hafðir með í ráðum þegar ný námskrá var innleidd á sínum tíma.
„Allt í einu koma krakkar úr grunnskóla með bókstafi úr námsmati en framhaldsskólinn var ekkert undir það búinn. Hann átti bara allt einu að taka við nemendum með þessum hætti án þess að vita hvað lægi þar að baki. Þarna hefði þurft að vera samráð á milli þessara tveggja skólastiga frá byrjun þegar námskráin var unnin. Þetta þarf að gerast í samfellu.“
„Við erum að horfa á að það þarf að vera einhver samræming í mati, en matið fer fram á meðan barnið er í skóla, ekki bara með einu prófi í lok grunnskólagöngu. Það er það sem er svo mikil einföldun hjá Viðskiptaráði að tala um að það sé upphafið að hnignun skólastarfsins.“
Valdimar bindur miklar vonir við matsferilinn en Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, áður Menntamálastofnun, hefur unnið að þróun námsmatsins frá árinu 2020 og er það enn í vinnslu.
Var innleiðingu þess flýtt í sumar í kjölfar umfjöllunar mbl.is.
„Ég bind vonir við að það verði mjög gott tæki fyrir grunnskólana að vinna með þegar kemur að skólagöngu barns frá yngsta stigi og upp í unglingastig.“