Hætta á stórum flóðum: Dýpkaði „ofboðslega hratt“

Fellibylurinn Milton | 9. október 2024

Hætta á stórum flóðum: Dýpkaði „ofboðslega hratt“

Halldór Björnsson, doktor í haf- og veðurfræði, segir að flóð vegna fellibylsins Miltons gæti gengið töluvert langt inn í land á Flórída miðað við spár vísindamanna sem hann hefur séð. 

Hætta á stórum flóðum: Dýpkaði „ofboðslega hratt“

Fellibylurinn Milton | 9. október 2024

Milton sést vel utan úr geimnum.
Milton sést vel utan úr geimnum. AFP

Halldór Björnsson, doktor í haf- og veðurfræði, segir að flóð vegna fellibylsins Miltons gæti gengið töluvert langt inn í land á Flórída miðað við spár vísindamanna sem hann hefur séð. 

Halldór Björnsson, doktor í haf- og veðurfræði, segir að flóð vegna fellibylsins Miltons gæti gengið töluvert langt inn í land á Flórída miðað við spár vísindamanna sem hann hefur séð. 

„Eftir því sem fellibylurinn nær yfir meira svæði þá verður óveðursbylgjan yfirleitt stærri. Miðað við það sem ég hef séð þá eru menn að vara við allt að þriggja metra háum sjávarflóðum en sjálfur hef ég ekki legið yfir þeim tölum,“ segir hann.

„Til samanburðar er það margfalt meira en stærstu sjávarflóð við Ísland. Á svæðum þar sem rýmingar hafa farið fram eru margir búsettir á stöðum þar sem gæti flætt töluvert inn í landið. En þessi staðsetning varðandi borgina Tampa er óvenjuleg,“ segir Halldór sem jafnframt er fagstjóri hjá Veðurstofunni.

Hann tekur það fram að ekki sé hægt að spá nákvæmlega fyrir um hvar fellibylur nær landi.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/10/09/islendingur_i_florida_folk_er_mjog_stressad/

Íbúi í Tampa gengur frá heimili sínu í dag og …
Íbúi í Tampa gengur frá heimili sínu í dag og býr sig undir að yfirgefa borgina. AFP/ Spencer Platt
Í Tampa í dag. Sjór mun flæða langt inn í …
Í Tampa í dag. Sjór mun flæða langt inn í land sums staðar á Flórída ef fram heldur sem horfir. AFP/Spencer Platt

Fór beint upp í fimmta stig

Spurður út í hinar miklu varúðarráðstafanir sem gerðar hafa verið á Flórída vegna Miltons bendir Halldór á að fellibylurinn hafi fljótt farið upp í fimmta stigs fellibyl. 

„Við þurfum að taka með í reikninginn að stór fellibylur er nýbúinn að fara yfir Flórída sem hét Helena. Þessi kemur beint í kjölfarið og dýpkaði miklu hraðar. Milton fór beint upp í fimmta stig en Helena fór aldrei upp í fimmta stig,“ segir Halldór.

„Milton fór upp í fimmta stig á 24 tímum og það er ofboðslega hratt. Vegna loftslagsbreytinga eiga fellibylir til að dýpka hraðar. Slíkt var óalgengt fyrir aldamót en hefur orðið algengara eftir aldamót. Milton stækkaði mikið í gær og breiddi úr sér en datt reyndar niður í fjórða stigs fellibyl. Virðist síðan hafa verið á milli fjórða og fimmta stigs,“ bætir hann við og bendir á að spáð hafi verið erfiðu sumri hvað snertir fellibyli. 

„Í vor var búist við slæmu sumri varðandi fellibyli. Fjöldi þeirra er reyndar yfir meðalfjölda en þetta hefur þó ekki verið eins slæmt og til dæmis 2017.“

Þjóðvarðliðið í Flórída við undirbúning í Tampaborg í dag.
Þjóðvarðliðið í Flórída við undirbúning í Tampaborg í dag. AFP

Nær í orku frá heitum sjó

Eins og fram hefur komið er heldur óvenjulegt að fellibylur myndist í karabíska hafinu eða Mexíkóflóa. Halldór segir að hiti þurfi að vera til staðar svo fellibylur geti orðið öflugur. 

„Þegar mjög heitt er í Atlantshafinu eru yfirleitt betri skilyrði fyrir fellibyli. Á myndunarsvæði fellibylja, sem er sunnarlega á því svæði sem við köllum Norður-Atlantshafið, er mjög heitt en einnig er ákaflega heitt í karabíska hafinu og Mexíkóflóa. Til að fellibylur myndist þarf heitan sjó en einnig rétta tegund af vindsniði. Vindur má ekki vaxa of mikið með hæð en einnig má heldur ekki verið of mikið ryk frá Sahara,“ segir Halldór.

„Nú eru fellibylir að myndast í karabíska hafinu eða í Mexíkóflóa. Það er ekki fáheyrt en er þó óvenjulegt. Milton myndaðist sem venjuleg hitabeltislægð en óx ákaflega hratt á leið til Flórída og sama má segja um Helenu. Milton dýpkar enn hraðar og nær í orku frá ákaflega heitum sjó í Mexíkóflóa. Yfirleitt ganga fellibylirnir aðeins niður áður en þeir ganga á land en Helena gerði það reyndar ekki.“

mbl.is