„Ef ég myndi deyja þá myndi ég deyja sátt“

Framakonur | 13. október 2024

„Ef ég myndi deyja þá myndi ég deyja sátt“

„Það sem hefur komið mér lengst er að stökkva stundum út í djúpu laugina þegar tækifæri býðst en líka að vinna sleitulaust þó mig langi oft að hætta. Það borgar sig yfirleitt alltaf að lokum,“ segir Ragna Sigurðardóttir, læknir, varaborgarfulltrúi og varaþingmaður Samfylkingarinnar, eftir að hafa verið forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands fyrir hönd Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, svo pólitíkin hefur sjaldnast verið langt undan hjá henni. 

„Ef ég myndi deyja þá myndi ég deyja sátt“

Framakonur | 13. október 2024

Ragna Sigurðardóttir leggur 100% metnað í bæði störf sín.
Ragna Sigurðardóttir leggur 100% metnað í bæði störf sín. Samsett mynd

„Það sem hefur komið mér lengst er að stökkva stundum út í djúpu laugina þegar tækifæri býðst en líka að vinna sleitulaust þó mig langi oft að hætta. Það borgar sig yfirleitt alltaf að lokum,“ segir Ragna Sigurðardóttir, læknir, varaborgarfulltrúi og varaþingmaður Samfylkingarinnar, eftir að hafa verið forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands fyrir hönd Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, svo pólitíkin hefur sjaldnast verið langt undan hjá henni. 

„Það sem hefur komið mér lengst er að stökkva stundum út í djúpu laugina þegar tækifæri býðst en líka að vinna sleitulaust þó mig langi oft að hætta. Það borgar sig yfirleitt alltaf að lokum,“ segir Ragna Sigurðardóttir, læknir, varaborgarfulltrúi og varaþingmaður Samfylkingarinnar, eftir að hafa verið forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands fyrir hönd Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, svo pólitíkin hefur sjaldnast verið langt undan hjá henni. 

Aðspurð segir Ragna að það hafi ekki verið æskudraumur sinn að feta í fótspor föður síns, sem er starfandi læknir, en pælingar á framhaldsskólaárunum leiddu hana inn á þessa braut. Í dag starfar hún sem sérnámslæknir á skurðsviði Landspítalans og jafnframt sem umsjónardeildarlæknir innan sérnámsins.

„Lengi vel ætlaði ég ekki að verða læknir því að pabbi minn er læknir. Þegar fór að koma að því að taka ákvörðun undir lok menntaskólaáranna man ég eftir því að hafa setið við eldhúsborðið heima í Kópavogi og hugsað að ég vildi geta eitthvað sem ég gæti orðið góð í.

Á grunn- og framhaldsskólaárum mínum var á ágæt í líffræði og hafði mikinn áhuga á líffæra- og lífeðlisfræði líkamans; en hugsaði á sama tíma að ég vildi hjálpa öðru fólki. Þannig, í bland við áhugasviðspróf sem ég tók á netinu og að hluta til eftir kynningu sem menntaskólanemendur fengu á læknisfræði þar sem læknanemar lýstu náminu, tók ég ákvörðun um að þetta væri það sem ég vildi gera. Í minningunni tók ég ákvörðun þarna við eldhúsborðið en eflaust hefur ýmislegt annað í lífi mínu leitt óbeint til þess að ég ákvað að fara þessa leið í lífinu.“

Ragna í Covid-gallanum.
Ragna í Covid-gallanum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvernig gekk þér í náminu?

„Fyrst var það að komast inn í námið. Ég þreytti inntökuprófið þrisvar, í annað sinn var ég skuggalega nálægt því að komast inn en það munaði nokkrum sætum svo ég ákvað að skrá mig í sálfræði. Það var frábær tími þar sem ég kynntist háskólaumhverfinu, eignaðist góða vini, bæði innan og utan sálfræðinnar, eyddi ófáum tímum á lesstofu Háskólatorgs og á Þjóðarbókhlöðunni og byrjaði að taka þátt í Röskvu og stúdentapólitík.

Ég hafði líka mikinn áhuga á sálfræði, naut mín í náminu og það gekk mjög vel. En einhvern tímann um veturinn áttaði ég mig á því að ég vildi ekki gefast upp á draumnum um að verða læknir alveg strax. Ég komst inn eftir þriðju tilraun og það ár gekk prófið mjög vel, en ég játa að á fyrsta ári mínu í læknisfræði þá fannst mér erfitt að fóta mig í náminu og stóð mig ekki eins vel og ég hefði viljað. Mér fannst bóklega námið á köflum erfitt og fann að mig vantaði hvata og leiðir til að tengja hreinar efnafræðijöfnur við starfið sem ég hafði einsett mér að vinna við í framtíðinni. Það breyttist hratt þegar námið varð verklegt í meira mæli, þegar við fórum sem læknanemar í verknám á spítalann og víðar og fórum að tala við alvöru fólk með alvöru vandamál sem kröfðust lausna.

Á fjórða árinu í læknisfræði, þegar námið er fyrst og fremst verklegt, og eftir árspásu þar sem ég sinnti starfi formanns Stúdentaráðs HÍ, fann ég mig algjörlega í náminu að nýju. Þá snerist námið fyrst og fremst um starfið sjálft og það hentaði mér mun betur að læra í umhverfi þar sem við fundum daglega fyrir þeim vandamálum sem við vorum að læra að leysa – og ég myndi segja að seinni þrjú árin hafi gengið mun betur heldur en fyrstu þrjú árin. Þess utan tók ég þátt í ýmsum félagsstörfum, til dæmis í stjórn Félags Læknanema, tók þátt í að stofna geðfræðslufélag sem við komum á fót með innblæstri frá verkefnum eins og Ástráði, kynfræðslufélagi læknanema og Bjargráði, skyndihjálparkennslu læknanema. Félagið hefur því miður lagt niður fræðsluhlið starfsins en ég er samt sem áður mjög stolt af því að hafa komið því af stað. Ég tók líka virkan þátt í Röskvu, var formaður félagsins og síðar formaður Stúdentaráðs og vann að því að betrumbæta háskólaumhverfið sem mér þykir svo vænt um og líka tala máli háskólanna og háskólanema á breiðari grundvelli.

Þegar ég lít til baka er ég stolt og þakklát fyrir allt það sem háskólinn hefur gefið mér, ekki bara námið sjálft heldur líka tilveran innan háskólasamfélagsins og tækifærin til að hafa áhrif á það.“

Hér sést Ragna undirrita læknaeiðinn.
Hér sést Ragna undirrita læknaeiðinn. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Langskemmtilegast þegar ég sé árangur“

Ragna útskrifaðist sem læknir vorið 2022 og starfar í dag á skurðsviði Landspítalans. Hún segir starfið skemmtilegt, krefjandi og enga tvo daga vera eins.

Hvað er skemmtilegast við að starfa sem læknir?

„Mér finnst langskemmtilegast þegar ég sé árangur af því sem við gerum, til dæmis þegar einhver er bráðveikur og nær smám saman bata sem við teymið sinnum daglega. Mér finnst líka skemmtilegt að ná að greina eitthvað hjá einhverjum sem hefði kannski ekki uppgötvast annars, og svo finnst mér gaman að sjá og hitta fólk sem hefur legið inni með alvarlegt vandamál en er komið út í samfélagið og laust að hluta eða að mestu við það vandamál. Það er mikil gjöf.“

Hvað er mest krefjandi við að starfa sem læknir?

„Ég hugsa að það séu vinnutímarnir. Við vinnum mikið á kvöldin og um helgar og oft eru mestu lærdómstækifærin þá, en þá daga sem ég vinn lengi hitti ég síður vini og fjölskyldu. Ég er að læra að mynda nýtt jafnvægi á milli einkalífs, persónulegra þarfa, eins og hreyfingar og slökunar, og skyldna og vinnu, því að það er allt annað að vera læknir í sérnámsgrunni (hinni gamli „kandídat“ fyrsta árið eftir útskrift), að vera læknanemi og að vera síðan sérnámslæknir eða deildarlæknir.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnan gefur mér tilgang. Það er gefandi og einstakt að starfa sem læknir, þó að starfsaðstæðurnar geti því miður sett sinn skugga á það – fyrst og fremst því við sem læknar og heilbrigðisstarfsfólk náum ekki alltaf að sinna þeim sem þurfa aðstoð eins vel og við vildum að við gætum. Vinnan mín snýst samt að miklu leyti um að hjálpa fólki og það gefur mér mikið þegar það tekst.“

Ragna við skrifstofu sína.
Ragna við skrifstofu sína. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ólst ekki upp í pólitísku umhverfi

Ragna fékk forsmekkinn af stjórnmálum þegar hún var nemandi við Háskóla Íslands. Hún tók öflugan þátt í stúdentapólitík og barðist ötullega fyrir hagsmunum stúdenta ásamt flokksfélögum sínum í Röskvu. Síðustu misseri hefur Ragna verið nokkuð áberandi sem flokkssystir Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, og heldur ótrauð áfram að berjast fyrir velferð og vellíðan fólks.

Hefur þú alltaf haft áhuga á stjórnmálum?

„Ég held að ég hafi aldrei hugsað það þannig – að ég hefði áhuga á stjórnmálum. Fjölskyldan mín er ekki flokkspólitísk og mér fannst ég ekki beinlínis alast upp í pólitísku umhverfi en eftir á að hyggja var ég umvafin pólitík sem barn og unglingur.

Ég flutti sex ára gömul til Bandaríkjanna og ólst upp í Madison í Wisconsin-fylki. Þar fór ég í opinberan grunnskóla, gagnfræðiskóla og menntaskóla í frekar fjölþjóðlegu umhverfi. Opinberir skólar voru mjög sterkir þar sem ég ólst upp en tækifærin voru samt misjöfn eftir því í hvaða hverfi maður bjó og hvaðan maður kom. Ég varð svolítið upptekin af misskiptingu og áhrifum menntakerfisins á hana og hvernig misskipting birtist í menntakerfinu.

Síðan flutti ég heim til Íslands 15 ára gömul. Þar sem pabbi minn er læknir var mikið rætt um heilbrigðiskerfið á Íslandi við matarborðið heima, og á þessum tíma, árið 2007, fluttum við heim og eftir efnahagshrunið var mikið rætt um heilbrigðismál í samfélaginu. Ég ákvað síðan að fara í læknisfræði og í raun byrjaði ég í stúdentapólitík vegna þess að ég hafði áhuga á heilbrigðismálum – sem leiddi til þess að ég tek þátt í stjórnmálum í dag. Þannig í raun og veru já, ég hef alltaf haft áhuga á stjórnmálum, alveg frá því að ég var barn, en hugsaði ekki um það sem pólitík þar til ég varð fullorðin og byrjuð í háskóla.“

Ragna undirritar drengskapa.
Ragna undirritar drengskapa. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvenær og hvernig byrjaði stjórnmálaferill þinn?

„Í raun og veru byrjaði hann í háskólanum. Ég var að læra fyrir inntökuprófið í læknisfræði og varði löngum dögum á Þjóðarbókhlöðunni með vinkonum mínum sem voru að nema lögfræði, og ein þeirra hafði verið formaður Röskvu árið á undan. Svo voru tvær góðar vinkonur mínar, ein í læknisfræði og önnur í verkfræði, á framboðslista það ár. Á þeim tíma hafði Stúdentaráð líka beitt sér í umræðu um heilbrigðismál og fulltrúar læknanema og annarra nemenda í heilbrigðisgreinum í ráðinu komið fram í fjölmiðlum og vakið athygli á stöðu verknáms við háskólann og Landspítalann og heilbrigðiskerfisins í heild. Þannig að áhuginn kviknaði út frá því. Síðan sogaðist ég inn í Röskvu og í kjölfarið Stúdentaráð. Síðan fékk ég boð um að vera bæði á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, en hafði í raun ekki verið neitt flokkspólitísk þangað til, þáði það og varð einnig kosningastýra Samfylkingarinnar í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum 2018. Svo varð ég borgarfulltrúi, forseti Ungra jafnaðarmanna og tók þátt í Alþingiskosningum 2021 og varð varaþingmaður.“

Fer það vel saman að vera læknir og stjórnmálamaður?

„Það gefur auga leið að það að stunda læknisfræði og pólitík eru tvær 100% vinnur, að minnsta kosti í mínu tilfelli. Stundum vildi ég óska þess að ég hefði miklu fleiri klukkustundir í deginum til að sinna hvoru tveggja. Ég held samt að starf mitt og reynsla sem læknir nýtist mér í stjórnmálum og gefi mér ákveðna sýn um það með hvaða hætti ég vil beita mér til að bæta samfélagið. Og að mínu mati eru stjórnmál ein leið til þess.“

Finnst þér skipta máli að áhugi og starf fari saman? Ef svo, hvers vegna?

„Já, mér finnst það. Ég held að til að vera góð í því sem maður gerir verði að fylgja því áhugi.“

Hverjar hafa verið helstu áskoranir þínar?

„Það er erfittt að vinna mjög hart að einhverju en mistakast það samt – þó maður hafi lagt allt í það. Að komast ekki í gegnum inntökuprófið og tapa kosningum aftur og aftur eru kannski dæmi um það.

Síðan eru auðvitað alls konar áföll í lífinu og erfiðar aðstæður til dæmis í vinnunni sem láta mann vilja hætta. En stundum þarf maður bara að hafa vindinn í fangið í smá stund, leita eftir aðstoð ef maður þarf hana, og klára dæmið.“

Ég sæki innblástur að miklu leyti til kvenfyrirmynda

Þegar Ragna er ekki á Landspítalanum eða að sinna pólitískum erindagjörðum er líklegast að finna hana á tennisvellinum.

Hvenær nýtur þú þín best?

„Ég nýt mín best í vinnunni og í pólitík þegar ég næ einhverjum árangri, finn lausnir á vandamálum. Utan vinnu er það kannski helst tennis þar sem ég nýt mín og auðvitað með fjölskyldu og vinum.“

Hver eru áhugamál þín? Hvernig sinnir þú þeim?

„Mitt helst áhugamál er tennis – ég reyni að spila að minnsta kosti þrisvar til fjórum sinnum í viku. Ég hleyp líka af og til og finn að það er nauðsynlegt fyrir mig að hreyfa mig og hleypa út uppsöfnuðu stressi eða spennu eftir langa vinnudaga.“

Ragna nýtur þess að spila tennis. Hér er hún ásamt …
Ragna nýtur þess að spila tennis. Hér er hún ásamt Höllu Berglindi vinkonu sinni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Les Simone de Beauvoir

Hvaðan sækir þú innblástur?

„Ég sæki innblástur að miklu leyti til kvenfyrirmynda, bæði í læknisfræði og í pólitík. Ég held að ég væri ekki á þeim stað sem ég er í dag nema ég hefði haft fyrirmyndir bæði í starfi, félagsstörfum og stjórnmálum sem ruddu brautina. Síðan hef ég gaman af því að lesa, þó lestur mætti vera meiri samhliða sérnáminu, en ég sæki innblástur mikið í ljóðabækur og ef ég er alveg að gefast upp á öllu þá opna ég bækur um eða eftir Simone de Beauvoir.“

Hvað er það er sem veitir þér ánægju?

„Tennis og sólsetur. Svo að sjálfsögðu fjölskylda. Ég elska fjölskylduna mína, vini og auðvitað hundana tvo og köttinn sem tilheyra fjölskyldunni minni líka.“

Ragna ásamt systkinum sínum.
Ragna ásamt systkinum sínum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú væri búin að ná markmiðum þínum?

„Í sannleika sagt var ég mjög upptekin af því í kringum þann tíma sem ég var að klára menntaskóla að ef ég myndi deyja þá myndi ég deyja sátt. Einhvern tímann þegar ég hafði verið í basli lengi í stúdentapólitík, stofnað geðfræðslufélag, verið í borgarstjórn og kosningastýra, og klárað læknanámið, þá hugsaði ég með mér að ég gæti dáið sátt. En svo taka auðvitað við ný og metnaðarfyllri markmið.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Dagarnir mínir byrja yfirleitt á morgunrútínu sem, kærastanum mínum til mikils ama, tekur um það bil klukkutíma. Ég fæ mér kaffi og morgunverð í rólegheitum og plotta síðan áform dagsins og vikunnar við sama borð, set helst allt í dagatal í símanum, sendi skilaboð yfirleitt eldsnemma á vini ef við ætlum að hittast og svara nokkrum tölvupóstum ef ég hef tíma til þess. Oftast vakna ég með nokkur atriði í hausnum um það sem þarf að gera þann dag og reyni að koma þeim í framkvæmd áður en ég fer í vinnuna.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég vakna yfirleitt um klukkan 06:30, eða réttara sagt „snooze“-a vekjaraklukkuna þar til hún er orðin 06:35, helli síðan upp á kaffi í lítilli espresso-vél, hita haframjólk og set gríska jógúrt í skál með múslí, hnetum, ferskum berjum og þurrkuðum ávöxtum. Svona eru 95% af öllum morgnum hjá mér, eftir því hvað er til í ísskápnum. Svo stússast ég í símanum, mála mig, ef ég næ því, og legg af stað í vinnuna á milli 07:30 til 07:40 til að vera mætt í skurðgallann á morgunfund kl. 08:00.“

mbl.is