Innherji: Fiðluleikur Nerós, óvissan og stjórnmálin

Innherji | 16. október 2024

Innherji: Fiðluleikur Nerós, óvissan og stjórnmálin

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans

Innherji: Fiðluleikur Nerós, óvissan og stjórnmálin

Innherji | 16. október 2024

Tékkneskir námumenn leggja á ráðin áður en ráðist er í …
Tékkneskir námumenn leggja á ráðin áður en ráðist er í næsta verk. AFP/Michal Cizek

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans

Forsætisráðherra hefur nú boðað til kosninga. Margir gleðjast og nefna samhliða að það sé ákveðin ró fundin í því að það sé kosið áður en styrkir næsta árs til stjórnmálaflokkanna séu greiddir út. Styrkir sem byggjast á atkvæðavægi síðustu kosninga og nema á hverju ári um 700 milljónum til allra flokka. Gallinn fyrir almenning er sá að þessi kostnaður mun ekkert minnka þó dreifing milli einstaka flokka riðlist. Þetta er fyrirkomulag sem ætti að endurskoða og nýta fjármuni ríkisins betur. Það eru hins vegar önnur atriði en einstaka stólar stjórnmálamanna sem skipta meira máli, hagkerfið og atvinnulífið.

Það virtist koma formanni VG mjög á óvart að forsætisráðherra hefði farið þessa leið en Framsókn er auðvitað á því að þetta sé allt að koma. Halda eflaust fast í það slagorð, í öllu falli fram að kosningum. Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekki hægt að segja og gera allt sem manni kemur til hugar án þess að það hafi afleiðingar. Svandís Svavarsdóttir veit það sjálf, í öllu falli er hún farin að átta sig á því núna. Hennar fiðla er önnur en hjá keisara Neró.

Það er hins vegar meira áhyggjuefni hvort þessi óvissa muni riðla vaxtalækkunarferli Seðlabankans. Það er þægilegt að segja að svo verði ekki enda þurfi meira að koma til og hagfræðingar eru ósammála um áhrifin eins og kemur fram í forsíðugrein ViðskiptaMoggans. Staðreyndin er sú að óvissa er slæm þó ólíklegt sé að Seðlabankinn breyti um takt, enda er stöðug óvissa og mögulega mætti færa rök fyrir því að óvissan sé minni nú en áður. Það skiptir hins vegar máli hvaða áherslur nýir ríkisflokkar munu hafa eftir kosningar. Mun Alþingi klára fjárlögin? Það er óvíst. Verðum við með stjórnvöld sem halda í nauðsynlegt aðhald í ríkisfjármálum sem Seðlabankinn hefur kallað eftir? Vitum við í raun eitthvað hvað flokkarnir standa fyrir í efnahagsmálum? Ætlum við að auka nýtingu á auðlindum náttúrunnar eða viljum við tapa enn frekar samkeppnishæfni og velmegun þjóðarinnar því við náum ekki saman um nýtinguna?

Salan á Íslandsbanka átti að loka stóru gati í fjárlögunum. Stefnt var að sölu að hluta á haustmánuðum þessa árs og þess næsta. Ef þessi sala frestast þarf ríkið að reiða sig enn frekar á lánsfjármagn. Það er okkur öllum dýrt og auðvitað skýrt að þetta klárast ekki fyrir áramót miðað við nýja dagsetningu kosninga. Einnig skiptir máli hvernig farið verður með tillögur ríkisstjórnarinnar á kílómetragjaldi fyrir bifreiðar. Boðaðar breytingar á nýju ári, samhliða breytingum á olíu- og bensíngjöldum, hafa áhrif á útreikning á verðbólgu. Hvað verður jafnframt um þennan samgöngusáttmála sem er ófjármagnaður og engin sátt er um?

Þetta eru allt atriði sem þarf að átta sig á til að meta framtíðina. Lítil atriði geta skipt fyrirtæki og heimili landsins miklu máli þegar útreikningar á lykilstærðum hagkerfisins byggjast á þeim.

Vonandi fá kjósendur tækifæri til að kynna sér vel stefnu hinna mismunandi flokka í efnahagsmálum og hve alvarleg áhrif hún getur haft á afkomu þeirra sem og atvinnulífsins sjálfs. Við þurfum skýra sýn fyrir efnahagslífið, minnka óvissuna og ábyrgt fólk í þessa 63 stóla Alþingis.

mbl.is