Möguleiki á kosningagosi

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 16. október 2024

Möguleiki á kosningagosi

„Það væri nú eitthvað ef við fengjum kosningagos en það er alveg möguleiki,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, spurður út í stöðu mála á Sundhnúkagígaröðinni.

Möguleiki á kosningagosi

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 16. október 2024

Eldgosið við Sundhnúkagíga sem lauk í byrjun september.
Eldgosið við Sundhnúkagíga sem lauk í byrjun september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það væri nú eitthvað ef við fengjum kosningagos en það er alveg möguleiki,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, spurður út í stöðu mála á Sundhnúkagígaröðinni.

„Það væri nú eitthvað ef við fengjum kosningagos en það er alveg möguleiki,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, spurður út í stöðu mála á Sundhnúkagígaröðinni.

Benedikt hefur sagt að mögulega geti farið að draga til tíðinda á Reykjanesinu á nýjan leik um miðjan nóvember en þingkosningar eiga að fara fram laugardaginn 30. nóvember.

Hægt á landrisi og dregið úr kvikuinnflæði

„Við sjáum alveg að skýrt landris heldur áfram í Svartsengi þó svo að vísbendingar séu um að það hafi hægt örlítið á hraða þess og dregið úr kvikuinnflæði.“

Nákvæmlega hvað þetta þýðir segir Benedikt erfitt að segja til um og of snemmt sé að túlka hvað þetta geti þýtt upp á framhaldið.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni. mbl.is/Eyþór Árnason

Síðasta eldgosi lauk 5. september og stóð það yfir í tvær vikur. Það var það þriðja lengsta af þeim gosum sem hafa orðið á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023 en var um leið það kraftmesta.

Benedikt sagði í samtali við mbl.is upp úr miðjum september að við gætum verið róleg alveg fram í miðjan nóvember. Núna segist hann meta stöðuna á svipaðan hátt.

„Það er ólíklegt að það gerist eitthvað mikið fyrr en um miðjan nóvember. Væntanlega förum við að koma út með fréttatilkynningar í byrjun nóvember um að kerfið sé farið að nálgast þau rúmmálsmörk sem það náði fyrir síðasta gos og munum þá benda á að það fari að styttast í einhverja atburðarás,“ segir Benedikt.

Tíminn að lengjast á milli gosa

Benedikt segir að það þurfi alveg að gera ráð fyrir því að bíða lengi, jafnvel fram í desember eða fram á næsta ár að eitthvað gerist. Hann segir þróunina hafa verið þannig að tíminn sé alltaf að lengjast á milli gosa.

„Það virðist erfiðara og erfiðara fyrir kvikuna að komast upp á yfirborðið og vonandi er það vísbending um að það fari að styttast eitthvað í annan endann á þessu. Við þurfum að búa okkur undir það að vera tilbúin um miðjan nóvember en það getur samt þýtt að við þurfum að bíða í tvo mánuði,“ segir Benedikt.

Hættumat Veðurstofunnar fyrir svæðið gildir til morgundagsins og segir Benedikt að nýtt hættumat verði gefið út á morgun.

„Það verður metið á fundi á morgun hvort það verði óbreytt eða hvort við förum að gíra okkur aðeins upp en það verða engar stórkostlegar breytingar á því.“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðiprófessor sagði í samtali við Morgunblaðið ekki alls fyrir löngu að líkurnar á því að dyngjugos verði á Sundhnúkagígaröðinni aukist með tímanum.

„Ég held að það sé afskaplega ólíklegt. Flestallar dyngjurnar mynduðust í kjölfar þess að ísaldarjökullinn hopaði og þegar hann var að þynnast komu stóru dyngjugosin. Við höfum ekki séð nein dyngjugos á Reykjanesinu árþúsundum saman og ég held að það séu engar vísbendingar um að það sé svo mikil kvika í boði að geta viðhaldið stóru dyngjugosi,“ segir Benedikt.

 

mbl.is