Metupphæð í bætur til afbrotamanna

Óöld í Svíþjóð | 17. október 2024

Metupphæð í bætur til afbrotamanna

Grunaðir afbrotamenn í bænum Södertälje, suðvestur af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, sem sætt hafa gæsluvarðhaldi eða annarri frelsissviptingu af hálfu lögreglu að ósekju, fengu í fyrra um hundrað milljónir sænskra króna í bætur fyrir frelsissviptinguna.

Metupphæð í bætur til afbrotamanna

Óöld í Svíþjóð | 17. október 2024

Handteknir og gæsluvarðhaldsvistaðir sem lágu undir grun um afbrot en …
Handteknir og gæsluvarðhaldsvistaðir sem lágu undir grun um afbrot en hlutu ekki dóm fengu metupphæð í bætur frá sænska ríkinu í fyrra. Fjöldi þeirra hafði hlotið dóma áður og hlaut aðra dóma í kjölfar bótagreiðslna. mbl.is/Gunnlaugur

Grunaðir afbrotamenn í bænum Södertälje, suðvestur af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, sem sætt hafa gæsluvarðhaldi eða annarri frelsissviptingu af hálfu lögreglu að ósekju, fengu í fyrra um hundrað milljónir sænskra króna í bætur fyrir frelsissviptinguna.

Grunaðir afbrotamenn í bænum Södertälje, suðvestur af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, sem sætt hafa gæsluvarðhaldi eða annarri frelsissviptingu af hálfu lögreglu að ósekju, fengu í fyrra um hundrað milljónir sænskra króna í bætur fyrir frelsissviptinguna.

Er upphæðin jafnvirði um 1,3 milljarða íslenskra króna og er metupphæð að þessu leyti fram til þessa, enda hefur ekki ríkt nein lognmolla í undirheimum Södertälje undanfarin misseri – ekki frekar en í höfuðborginni sjálfri og fleiri sveitarfélögum þar í kring.

Það er sænska dómsmálaráðuneytið sem greiðir bæturnar og hefur sænska ríkisútvarpið SVT framkvæmt eigin rannsókn á átta völdum einstaklingum sem hlotið hafa háar upphæðir fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi, en síðar verið annaðhvort sýknaðir eða ekki talin ástæða til ákæru. Allir hafa mennirnir hlotið dóma áður og verið virkir í starfsemi glæpagengja á svæðinu.

Dæmdur mánuði eftir bótagreiðslu

Hafa sjö af mönnunum átta, eftir að þeir fengu bæturnar greiddar út, verið handteknir og legið undir grun í öðrum málum – sem öll snúast um annaðhvort skot- eða sprengjuárásir sem tíðar hafa verið í langvarandi átökum glæpagengja á borð við Foxtrot, Shottaz og fleiri er troðið hafa illsakir um árabil.

Nefnir SVT dæmi um mann sem hlaut 97.000 sænskar krónur í bætur í ágúst fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði án þess að rannsókn á máli hans hafi leitt til ákæru. Nemur sú upphæð tæplega 1,3 milljónum íslenskra króna, en rúmlega mánuði eftir að hann hlaut bæturnar var hann dæmdur fyrir stórfelldar hótanir.

„Hér er ekki litið til þess hvers konar tengsl menn hafa við glæpagengi, heldur til þess hve lengi þeir hafa sætt frelsissviptingu og hvað þeir hafa mátt þola,“ útskýrir Carl Mellberg saksóknari fyrir SVT.

Hafa saksóknarar gert athugasemdir við bótagreiðslur til glæpamanna sem hvort tveggja fyrir og eftir að þeim eru greiddar út bætur hljóta dóma fyrir önnur afbrot og hafa sænsk stjórnvöld nú skipað nefnd til að fara ofan í saumana á bótareglunum og er henni ætlað að skila skýrslu í febrúar.

SVT

SVT-II (rætt við dómsmálaráðherra og saksóknara)

Tilkynning ríkisstjórnarinnar um nefndina

mbl.is