Nauðsynlegt er að gera snjallsíma útlæga úr skólum borgarinnar. Þetta segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Nauðsynlegt er að gera snjallsíma útlæga úr skólum borgarinnar. Þetta segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Nauðsynlegt er að gera snjallsíma útlæga úr skólum borgarinnar. Þetta segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Hún vill miðlægari stýringu á þáttum sem varða börn og ungmenni í skólum, á borð við snjallsímabann.
„Eins mikið og ég vil að skólar hafi sjálfstæði þá finnst mér stundum nauðsynlegt að skóla- og frístundasvið, og borgarstjórn, sendi út mjög skýr tilmæli í málum eins og þessum þar sem við vitum að þetta er bara spurning um tíma,“ segir Kolbrún og heldur áfram:
„Mér finnst vanta þor og kjark til að stíga fram og segja: „Svona á þetta að vera í reykvískum grunnskólum.““
Hún segir símabann ekki síður viðeigandi í frímínútum þar sem félagsþroski barna á sér stað.
„Við byrjuðum á að leggja fram tillögu um símabann árið 2022. Við vorum snemma, ákváðum bara að taka af skarið. Þá orðuðum við það þannig að skóla- og frístundasvið myndi beita sér með miðlægum tilmælum til skólanna. Það myndi hjálpa þeim að taka af skarið. Þá myndu skólar ekki þurfa að standa frammi fyrir foreldrum.“
Hún segir margar góðar rannsóknir styðja við það að snjallsímar séu truflandi og að börn eigi erfiðara með að einbeita sér að náminu þegar snjallsíminn er nálægur. „Bæði að vita af honum og löngun til að kíkja á hann.“
Mikilvægt sé að vinna með foreldrum þegar taka á svona ákvarðanir og að rætt hafi verið við þá.
„En síðan var þessari tillögu hafnað með því svari að það væri verið að ræða þetta og skoða þetta. Sumir skólar væru komnir með vísi að reglum.“
Nú, tveimur árum síðar, segir Kolbrún stöðuna þannig að þetta sé enn frekar „hipsumhaps“ eftir skólum.
Á sama tíma hefur Akureyri innleitt snjallsímabann í grunnskólum bæjarfélagsins og í Öldutúnsskóla hefur slíkt bann verið við lýði frá árinu 2019, með góðum árangri.
„Það er auðvitað búið að ræða þetta og ræða þetta endalaust og endalaust af rannsóknum hefur verið að birtast.“
Samhliða þessu hefur hver skýrslan komið út á fætur annarri, um aukna vanlíðan barna.
„Og svo auðvitað um lesturinn og lestraráhuga. Ef við horfum á þetta allt saman – símann, skjánotkun, líðan og lesturinn – þá auðvitað tengist þetta allt með einum eða öðrum hætti.“
Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega undanfarna mánuði um slæma stöðu grunnskólakerfisins.
Vísar Kolbrún í umfjöllun Morgunblaðsins í síðustu viku, þar sem greint var frá því að áhugi íslenskra grunnskólabarna á lestri hefði hrunið frá aldamótum. Sýna rannsóknir fram á að áhugi minnki samhliða aukinni snjallsímanotkun.
„Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um hvað skjánotkun er mikil og, ef hún er svona mikil, hvað hún hefur slæm áhrif. Það styður enn þá frekar að börn eigi að fá frið frá símum í skólum og á meðan þau eru í námi.“
Þið lögðuð þessa tillögu fram árið 2022, ætlið þið að gera það aftur?
„Við höfum ítrekað þetta,“ segir Kolbrún. „Í hvert sinn sem það kemur upp umræða sem tengist þessu hef ég bókað um það og minnt á þessa tillögu en ég sé ekki fyrir mér héðan í frá að það komi eitthvað frá skóla- og frístundasviði um þetta.“
Hún segist hafa óskað eftir gögnum um hve margir skólar í Reykjavík hafi innleitt einhvers konar símabann en ekki enn fengið svör.
„Síðasta tillagan mín núna var að kannað yrði hvernig líðan og námsárangur barna er – hvort börn séu að koma betur út í skólum þar sem símabann er. Það er alltaf verið að mæla núna líðan barna og hún fer versnandi. Það er mikil streita og mikill kvíði. Svo er hnífa- og vopnaburður vaxandi. Þetta hangir allt saman.“