Víðir verði oddviti Samfylkingar í Suðurkjördæmi

Alþingiskosningar 2024 | 19. október 2024

Víðir verði oddviti Samfylkingar í Suðurkjördæmi

Til stendur að Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, muni leiða Samfylkinguna í Suðurkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

Víðir verði oddviti Samfylkingar í Suðurkjördæmi

Alþingiskosningar 2024 | 19. október 2024

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til stendur að Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, muni leiða Samfylkinguna í Suðurkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

Til stendur að Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, muni leiða Samfylkinguna í Suðurkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

Frá þessu greinir Vísir eftir upplýsingum frá heimildarmönnum sínum, en Víðir staðfesti þetta í samtali við mbl.is.

„Já, ég get staðfest það. Félagar hjá Samfylkingunni á Suðurlandi sendu tilnefningu á [uppstillingarnefndina] og það var haft samband við mig. Ég var nokkuð fljótur að taka ákvörðun og ræddi við fjölskylduna og síðan minn yfirmann og fékk heimild fyrir því að fá að taka leyfi frá störfum á meðan að þetta væri,“ segir Víðir.

Segir hann að uppstillingarnefnd klári sína vinnu í dag og í kjölfarið þurfi kjördæmisráð að staðfesta uppstillinguna á næstu dögum.

„Svo er bara kosningabarátta fram undan.“

Alla tíð verið jafnaðarmaður

Hvernig líst þér á þetta nýja hlutverk?

„Mér líst bara vel á það. Þetta eru mjög spennandi tímar. Mér líst mjög vel á Kristrúnu sem formann. Það hefur verið mjög góð vinna undanfarin ár í málefnastarfi um landið allt saman,“ segir Víðir.

Hann segist alla tíð hafa verið jafnaðarmaður. Horfi hann á það sem tækifæri til að þjóna landi og þjóð ef hann fái traust til þess frá fólkinu.

Einnig boðið að bjóða sig fram í síðustu kosningum

Segir Víðir að aðdragandinn hafi verið stuttur og hafi verið stungið upp á framboði hans á síðustu dögum.

Fyrir síðustu Alþingiskosningar hafi einnig verið stungið upp á honum í framboð en segir Víðir að þá hafi honum ekki fundist vera rétti tíminn. 

„Núna er ég tilbúinn og til í að fara í þetta verkefni ef ég fæ traustið frá fólkinu.“

Ekkert að hugsa um ráðuneyti

Bætir Víðir við í lokin að það skyldi ekki koma neinum á óvart að hans hjartans mál séu velferðarmálin, og löggæslu- og öryggismálin.

Myndir þú vilja komast í eitthvað ákveðið ráðuneyti?

„Ég er ekkert að hugsa um það. Nú er bara að vinna með þessu frábæra fólki í Suðurkjördæmi að vinna góðan kosningasigur,“ segir Víðir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is