Skólayfirvöld hafa almennt ekki tekið mark á slæmum niðurstöðum Íslands í PISA-könnunum. Þess vegna hafa nauðsynlegar úrbætur og breytingar ekki verið gerðar á grunnskólakerfinu.
Skólayfirvöld hafa almennt ekki tekið mark á slæmum niðurstöðum Íslands í PISA-könnunum. Þess vegna hafa nauðsynlegar úrbætur og breytingar ekki verið gerðar á grunnskólakerfinu.
Skólayfirvöld hafa almennt ekki tekið mark á slæmum niðurstöðum Íslands í PISA-könnunum. Þess vegna hafa nauðsynlegar úrbætur og breytingar ekki verið gerðar á grunnskólakerfinu.
Þetta skrifa þeir Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrverandi skólastjóri Fjölbrautaskólans í Garðabæ til 26 ára, og Gunnlaugur Sigurðsson, sem stýrði Garðaskóla sömuleiðis í áratugi, í grein sem þeir rita í Morgunblaðið í dag.
Þar benda þeir á að fyrir nokkrum árum hafi þeir komið því til leiðar að til landsins kom þekktur breskur sérfræðingur í menntamálum og jafnframt mjög virtur prófessor á Englandi.
Hélt hann hér fundi með mörgum skólamönnum og ráðamönnum íslenskra menntamála.
Rifja þeir svo upp heimsókn Bretans:
„Á einum fundinum sagði borubrattur skólastjóri grunnskóla að hann væri með mjög góðan skóla. „Hvernig veistu það? Hvað ertu með í höndunum til að sannprófa það?“ kom samstundis frá hinum breska. „Ég bara veit það,“ var svar skólastjórans og við sáum að sá breski ranghvolfdi augunum.
Hann hélt áfram: „Góður skipstjóri veit nákvæmlega hvenær veiðitúrinn er góður, hann veit hvaða árangri hann hefur náð og getur sannprófað auðveldlega hver aflinn er á hverjum tíma. Þetta gildir um alla góða stjórnendur í öllum góðum stofnunum, fyrirtækjum og félögum. Æðstu embættismenn og ráðamenn þjóðar ættu að tileinka sér þessa hugsun og vinnubrögð.“
Þessi orð hins breska sérfræðings koma oft upp í hugann þegar ráðamenn fullyrða eitthvað sem svo stenst enga skoðun. Hvað ætli menntamálaráðherra hafi í höndunum þegar hann fullyrðir að samræmd próf séu gagnslítil?“
Segja skólastjórarnir fyrrverandi að í skólastarfi sé afar mikilvægt að setja sér raunhæf markmið og ákveða um leið aðferðir til að mæla árangur.
„Samræmd próf voru aðferð sem veitti mjög gagnlegar upplýsingar um stöðu nemenda og árangur í skólum,“ skrifa skólastjórarnir fyrrverandi.
„Fram hjá því verður ekki horft.“
Sú ákvörðun Ásmundar Einars Daðasonar að afnema samræmdu könnunarprófin, án þess að setja nokkuð á fót í staðinn, hefur verið ítrekað gagnrýnd undanfarna mánuði, í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins.
Og sú gagnrýni hefur ekki einvörðungu runnið úr ranni Viðskiptaráðs, eins og ætla mætti miðað við viðbrögð margra innan menntakerfisins.
Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa þessa ákvörðun eru umboðsmaður barna, fyrrverandi menntamálaráðherra, fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar, fyrrverandi aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, fyrrverandi skólastjóri Melaskóla, formaður Kennarasambands Íslands, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, fræðafólk við menntavísindasvið Háskóla Íslands og aðrir sérfræðingar í menntamálum.
Þá er ótalin stjórnarandstaðan. Þar hafa Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar og Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins farið fremst í flokki.
Skólastjórarnir vísa svo til þess sem fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins í september, þegar rætt var við Auði Björgvinsdóttur, læsisfræðing og aðjúnkt við menntavísindasvið HÍ.
Greint var frá því að stór hluti nemenda á yngsta stigi íslenskra grunnskóla næði ekki settum viðmiðum í lestrarfærni.
Að loknum 1. bekk viti sumir nemendur ekki einu sinni hvernig allir bókstafir stafrófsins hljóma.
Sagði Auður þörf á heildstæðu samræmdu námsmati í grunnskólum landsins. Skólayfirvöld hefðu gert „stórkostleg mistök“ með því að haga málum þannig að ekkert slíkt mat sé við lýði í dag.
„Það var afar dapurlegt að heyra og sjá upplýsingar um að mörg börn þekki ekki stafina í lok 1. bekkjar grunnskólans,“ skrifa skólastjórarnir í dag og benda á mikilvægi þess að foreldrar og skólar taki saman höndum til að tryggja að börnum okkar gangi sem best í skólanum.
„Gott er að foreldrar búi börn sín vel undir fyrstu skrefin í skólagöngunni. Hlutverk foreldra er að lesa reglulega fyrir börn sín. Ekki síðar en við þriggja ára aldur þarf að byrja að kenna þeim á stafina og prófa að kenna þeim að lesa,“ segja Þorsteinn og Gunnlaugur.
„Margar góðar bækur eru til fyrir ung börn. Gott er að nota fyrst bækur með litskrúðugum myndum og skýrum stöfum. Með þessu öllu er börnum sýnt að mikill undraheimur leynist í bókunum. Bóklestur af ýmsu tagi á að vera hátíðar- og gæðastund á hverju heimili.“
Segja þeir mikilvægt að koma á þéttu sambandi og samvinnu foreldra og skóla strax við byrjun skólagöngunnar.
„Ýmsar lestraraðferðir eru til. Foreldrar ættu að geta leitað til skólanna ef erfiðlega gengur í byrjun,“ segja þeir.
„Þá kemur vel til greina að grunnskólar bjóði foreldrum upp á fræðslu, t.d. með stuttum námskeiðum um kennslu í fyrsta lestri og jafnvel einföldum atriðum barnauppeldis.“
Loks benda þeir á, eins og ítrekað hefur verið fjallað um, að Ísland er undir OECD-viðmiðum í mörgum greinum.
„Fjölmargir ráðamenn í skóla- og menntamálum þjóðarinnar hafa ekki tekið mark á PISA-niðurstöðum síðustu ára eða jafnvel áratuga og þess vegna hafa nauðsynlegar úrbætur og breytingar ekki verið gerðar í grunnskólanum,“ segja skólastjórarnir fyrrverandi.
„Á síðustu árum og áratugum hafa mætir menn ítrekað bent á hvert stefndi og komið fram með góðar ábendingar og breytingar til úrbóta. En því miður hefur ekki enn verið á það hlustað.“
Þess ber að geta að þeir sérfræðingar innan menntakerfisins sem mbl.is hefur rætt við telja að niðurstöður næstu PISA-könnunar verði enn verri fyrir Ísland. Enda hafi enn ekkert verið aðhafst.
„Staða íslenskra grunnskólanemenda er þess vegna enn afar slök og fer jafnvel enn versnandi ef miðað er við PISA-prófin á síðustu tveimur áratugum. Þá fara depurð og kvíði meðal unglinga vaxandi, sem er án efa afleiðing alls þessa. Nýbirtar rannsóknir á þessu efni eru mjög alvarlegar. Á þessum vanda þarf að taka þegar í stað ef ekki á að fara enn verr,“ skrifa Þorsteinn og Gunnlaugur.
„Stjórnmálamenn, ráðamenn skólamála, skólastjórar, forystumenn kennara, kennarar og ýmsir fleiri: Tökum höndum saman og gerum skóla- og fræðslumál að öndvegisvelferðarmálum þjóðarinnar, börnum og framtíð þjóðar til heilla!“