„Við þurfum að vera raunsæ og skynsöm“

Raddir Grindvíkinga | 21. október 2024

„Við þurfum að vera raunsæ og skynsöm“

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, er ánægð með að búið sé að opna Grindavík á ný. Hún vonast til þess að meira líf færist nú í atvinnulífið.

„Við þurfum að vera raunsæ og skynsöm“

Raddir Grindvíkinga | 21. október 2024

Ásrún ræddi við blaðamann mbl.is í Grindavík í morgun.
Ásrún ræddi við blaðamann mbl.is í Grindavík í morgun. mbl.is/Eyþór Árnason

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, er ánægð með að búið sé að opna Grindavík á ný. Hún vonast til þess að meira líf færist nú í atvinnulífið.

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, er ánægð með að búið sé að opna Grindavík á ný. Hún vonast til þess að meira líf færist nú í atvinnulífið.

„Þetta leggst bara ljómandi vel í okkur, þetta er góður tímapunktur. Við höfum talað um það að við þurfum að nýta þessa tímaramma á milli atburði vel og það er búin að fara fram mikil vinna í bænum, gera bæinn öruggan að nýju og já við erum bara brött og ánægð með þessa ákvörðun.“

Ásrún segir bæjarbúa almennt ánægða með opnunina. „Fólk hefur talað um súrefni til atvinnulífsins og við viljum líka kannski aukið frelsi.“

Ekki sjálfgefið að fyrirtæki opni

Opnað var fyr­ir aðgengi að Grinda­vík­ur­bæ á nýj­an leik klukk­an 6 í morg­un og fólk getur nú ekið í bæinn hindrunarlaust.

Lítil þjónusta er í boði í sveitarfélaginu að svo stöddu en Ásrún vonast til þess að meira líf færist í atvinnulífið nú þegar fólk kemur aftur í sveitarfélagið.

„En við höfum jafnframt sagt það að það er ekkert sjálfgefið að fyrirtæki sem hafa verið lokuð hér í tæpt ár opni bara sí svona. En það eru einhverjir aðilar að skoða það og það er mikilvægt,“ segir Ásrún.

Nettó var eina matvöruverslunin í Grindavík en er núna lokuð. Ásrún segir að fyrirtæki á borð við Nettó þurfi nú að meta hvort að það sé rekstrargrundvöllur í Grindavík að svo stöddu.

Það var mikið líf í höfninni í morgun.
Það var mikið líf í höfninni í morgun. mbl.is/Eyþór Árnason

Boðið upp á kaffi og kræsingar á miðvikudögum

Hún segir miklu máli skipta að fólk sem komi í sveitarfélagið, hvort sem um ræðir Íslendinga eða ferðamenn, fái jákvæða upplifun af heimsókninni.

Blaðamaður mbl.is ræddi við Ásrúnu í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga, en undanfarnar vikur hefur þar verið boðið upp á kaffi og kræsingar á miðvikudögum fyrir Grindvíkinga.

Á þeim viðburðum hafa menn verið með áhugaverð erindi um hina ýmsu hluti sem Grindvíkingar hafa tekið vel í. Áfram er stefnt að því að halda viðburðunum gangandi alla miðvikudaga.

„Þessu er ekki lokið“

Nú eru margir búnir að selja sínar eignir og svo framvegis. Hvernig sjáið þið fyrir ykkur framhaldið, íbúafjöldi mun minnka ekki satt?

„Jú, íbúafjöldi minnkar og við höldum að hann standi núna í rúmum 1.600. En það var liður í uppbyggingu fólksins að setjast niður einhvers staðar og hefja eðlilegt líf. En þetta tekur tíma og þetta er langhlaup. Við erum enn í miðjum atburði, þessu er ekki lokið þannig ég held að við þurfum að vera þolinmóð og raunsæ,“ segir hún.

Börn ekki eftirlitslaus í bænum

Í tilkynningu Grindavíkurnefndarinnar við opnun bæjarins segir að Grindavík sé ekki bær fyrir börn. Ásrún segir að engin börn séu eftirlitslaus í bænum og minnir á að skólar séu ekki opnir í bænum.

„Ég heyri líka til dæmis af íbúum sem segja „við erum með svo mikla heimþrá að við ætlum að fara og vera í Grindavík um helgina og leyfa krökkunum aðeins að drekka í sig grindvíska loftið“. En þetta kemur bara smátt og smátt og við þurfum að vera raunsæ og skynsöm,“ segir Ásrún að lokum.

mbl.is