Hagar kaupa færeyskt verslunarfélag

ViðskiptaMogginn - Kjarnagreinar | 22. október 2024

Hagar kaupa færeyskt verslunarfélag

Hagar hf. og eigendur færeyska verslunarfélagsins P/F SMS undirrituðu í dag skilyrt samkomulag (e. Heads of terms) um kaup og sölu á öllu hlutafé í SMS. Þetta kemur fram í tilkynningu í kauphöll.

Hagar kaupa færeyskt verslunarfélag

ViðskiptaMogginn - Kjarnagreinar | 22. október 2024

Finnur Oddsson forstjóra Haga.
Finnur Oddsson forstjóra Haga. Ljósmynd/Aðsend

Hagar hf. og eigendur færeyska verslunarfélagsins P/F SMS undirrituðu í dag skilyrt samkomulag (e. Heads of terms) um kaup og sölu á öllu hlutafé í SMS. Þetta kemur fram í tilkynningu í kauphöll.

Hagar hf. og eigendur færeyska verslunarfélagsins P/F SMS undirrituðu í dag skilyrt samkomulag (e. Heads of terms) um kaup og sölu á öllu hlutafé í SMS. Þetta kemur fram í tilkynningu í kauphöll.


Fram kemur að samkomulagið sé gert með fyrirvörum, m.a. um endanlega skjalagerð, niðurstöðu áreiðanleikakannana og samþykki eftirlitsaðila. Markmið með kaupunum er að renna frekari stoðum undir og styrkja rekstur Haga á sviði dagvöruverslunar og auka skilvirkni rekstrar og vöruúrval SMS.

Fjármögnun viðskiptanna er tryggð, en gert er ráð fyrir að Hagar greiði um 50 mDKK af kaupverðinu með hlutabréfum í Högum og yfirtaki jafnframt skuldir SMS sem er áætlað að verði 150-160 mDKK við frágang viðskiptanna.

Gert er ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum fyrir lok árs 2024. Ráðgjafar Haga í viðskiptunum eru Hamrar Capital Partners, BBA//Fjeldco og KPMG.

Kaupverð yfir 9 milljarðar króna

Heildartekjur SMS fyrir árið 2023 námu tæplega 700 milljónum danskra króna, eða sem nemur um 14 milljörðum íslenskra króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam um 56 milljónum danskra króna, eða sem nemur ríflega einum milljarði íslenskra króna.

Kaupverð í fyrirhuguðum viðskiptum er áætlað ríflega 9 milljarðar íslenskra króna, en það byggir meðal annars á rekstraráætlun ársins 2024 og fasteignasafni félagsins.

SMS er leiðandi verslunarfélag í Færeyjum og rekur m.a. átta Bónus lágvöruverðsverslanir víða í Færeyjum, fjórar smærri klukkubúðir í Þórshöfn undir nafninu Mylnan, og stórverslunina Miklagarður í Þórshöfn.

Þá er SMS umsvifamikið í annarri starfsemi, m.a. rekstri stærstu verslunarmiðstöðvar Færeyja, fjölda veitingastaða, smávöruverslana, brauð- og kökugerðar, kjötvinnslu og líkamsræktarstöðva.

Loks á félagið stórt fasteignasafn sem telur um 11.000 m2 þar sem eignir eru að mestu nýttar undir eigin starfsemi, en einnig leigðar til þriðja aðila.

Ríflega 700 manns starfa hjá SMS og dótturfélögum, en forstjóri félagsins er Niels Mortensen. Niels er jafnframt eigandi N.M. Holding sem á 50% hlut í SMS, en hin 50% eru í eigu félagsins P/F Farcod. Niels mun áfram leiða starfsemi SMS í Færeyjum, en það hefur hann gert frá árinu 2006.

Auka umsvif í dagvöruverslun

Í tilkynningunni segir að fyrirhuguð kaup Haga á SMS séu í samræmi við markmið Haga og stefnu sem kynnt var fyrr á árinu um að horfa til nýrra tækifæra til að efla starfsemi félagsins enn frekar, bæði tengt kjarnastarfsemi og nýjum tekjustraumum eða stoðum í rekstri.

Með kaupum á SMS munu Hagar auka umsvif í dagvöruverslun en um leið myndast tækifæri til að efla þjónustu beggja félaga og ná fram auknu hagræði í rekstri. Þar er m.a. horft til tækifæra í vöruframboði dagvöruverslana, kostnaðarsamlegð, hagræðingu og fjármögnun.

Núverandi hluthafar áfram í eigendahóp

Eins og fyrr segir gerir samkomulagið ráð fyrir að hluti kaupverðs verði greiddur með bréfum í Högum, en þannig er tryggt að núverandi hluthafar SMS verða áfram eigendur í félaginu.
Hagar og SMS þekkja vel til hvers annars og eiga félögin sameiginlegar rætur í rekstri Bónus verslana í báðum löndum, en fram til ársins 2010 áttu Hagar hlut í SMS.

Stefnumótandi áherslur félaganna eru svipaðar þar sem sérstök áhersla er lögð á að bjóða viðskiptavinum ávallt upp á hagkvæma matvörukosti, en um leið að standa fyrir stöðugri framþróun í verslun til að tryggja góða upplifun viðskiptavina.

Fá öflugan eiganda

„SMS er öflugt og vel rekið félag sem á djúpar rætur í færeysku samfélagi. Verslanir SMS hafa í gegnum árin bætt lífskjör Færeyinga með því að bjóða upp á hagkvæmustu matvörukörfu landsins og skemmtilega upplifun í verslunarferðum. Við hjá Högum deilum þessum áherslum og sjáum tækifæri til að gera enn betur, því með kaupum Haga á SMS skapast möguleikar á að auka hagkvæmni í rekstri beggja félaga, bæta vöruúrval og þjónustu. Það er okkur hjá Högum heiður að vera treyst fyrir eignarhaldi á SMS og munum við leggja okkur fram um að styðja við þróun og vöxt félagsins til framtíðar, Færeyingum til hagsbóta. Við hlökkum til samstarfs með Niels Mortensen, forstjóra SMS, og frábæru teymi starfsfólks í Færeyjum og gerum ráð fyrir að eignarhald Haga muni treysta áfram þá sterku og góðu þræði sem liggja á milli Færeyja og Íslands,“ er haft eftir Finni Oddssyni forstjóra Haga í tilkynningunni.

„Á undanförnum áratugum höfum við ásamt framúrskarandi starfsfólki okkar hjá SMS byggt upp verslunarfyrirtæki í fremstu röð í Færeyjum. Til að taka næstu skref í þróun SMS þá er virkilega ánægjulegt að fá Haga til samstarfs um rekstur félagsins. Með aðkomu Haga fáum við öflugan eiganda og samstarfsaðila, sem mun gera okkur kleift að bjóða Færeyingum upp á enn hagkvæmari matvörukörfu, aukið vöruúrval og þjónustu til framtíðar. Sem eigendum að SMS er það okkur mikilvægt að við munum áfram koma að rekstri og eignarhaldi á félaginu, en með viðskiptunum verðum við meðal 15 stærstu hluthafa í Högum. Það er okkur jafnframt mikils virði að nú verður Færeyingum, almenningi og fagfjárfestum, gert kleift að fjárfesta í verslun í Færeyjum, með kaupum á hlutabréfum í Högum. Ég hlakka til að leiða SMS áfram sem forstjóri félagsins og starfa aftur með stjórnendum Haga og Íslendingum almennt,“ er haft eftir Niels Mortensen forstjóra SMS.

mbl.is