Ef samningar nást ekki í kjaradeilu lækna og ríkisins á allra næstu dögum má gera ráð fyrir að það fari af stað undirbúningur verkfalla, sem gætu hafist um miðjan nóvember.
Ef samningar nást ekki í kjaradeilu lækna og ríkisins á allra næstu dögum má gera ráð fyrir að það fari af stað undirbúningur verkfalla, sem gætu hafist um miðjan nóvember.
Ef samningar nást ekki í kjaradeilu lækna og ríkisins á allra næstu dögum má gera ráð fyrir að það fari af stað undirbúningur verkfalla, sem gætu hafist um miðjan nóvember.
Verkföllin myndu hafa áhrif á læknisþjónustu á sjúkrahúsum landsins, sem og ríkisreknum heilsugæslustöðvum.
Það var skýr vilji félagsmanna á fundi Læknafélagsins í gær, að farið yrði í að undirbúa verkfallsboðun strax, bregðist ríkið ekki við tillögum lækna á næstu dögum. Ein helsta krafa lækna er stytting vinnuvikunnar, en beðið er svara eða tilboða frá ríkinu.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, segir kjaraviðræðurnar hafa dregist töluvert á langinn og að fólk sé orðið mjög óþreyjufullt eftir fréttum, því hafi verið ákveðið að boða til félagsfundar í gær. Þar fóru umræðurnar fljótt að snúast um verkfallsboðun.
„Það var mjög þungt hljóðið í fundarmönnum og lítil þolinmæði eftir hjá hópnum greinilega. Það var lagt hart að okkur að fara að skoða þessa leið ekki seinna en strax,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.
Það hafi verið mjög mikilvægt fyrir samninganefndina að fá skýr skilaboð frá sínu fólki.
Fundað hefur verið reglulega í deilunni frá því í apríl og mikil vinna hefur átt sér stað að sögn Steinunnar.
„Þetta hefur verið mjög umfangsmikil vinna sem hefur farið fram eftir við vísuðum deilunni til sáttasemjara í mars. Vinnan hefur að miklu leyti snúist um betri vinnutíma, styttingu vinnuvikunnar en við og lyfjafræðingar erum einu stéttirnar í heilbrigðisgeiranum sem eru ekki komnar með styttingu.“
Sáttasemjari hafi leitt vinnuna sem hafi verið mjög virk allan þennan tíma.
„Henni er að mestu lokið núna og við erum orðin svolítið þyrst eftir því hvað ríkið er tilbúið að gera af því sem liggur á borðinu. Hvaða tillögum þau eru tilbúin að veita brautargengi. Hvaða tilboð við getum fengið þaðan. Við erum því að bíða eftir svörum frá ríkinu.“
Steinunn segir erfitt að segja nákvæmlega til um það á þessari stundu hvernig skipulagi verkfallsaðgerða yrði háttað og hvaða þjónusta kæmi til með að skerðast, þar sem ekki sé enn búið að sækjast eftir verkfallsheimild félagsmanna Læknafélagsins.
„Þetta myndi hafa áhrif á opinberum stofnunum, þar sem læknar starfa, á sjúkrahúsum landsins og heilsugæslustöðvum aðallega. Við erum auðvitað mjög meðvituð um okkar ábyrgð í samfélaginu og við vitum hvernig staðan er í kerfinu, hún er afleit. Aðgengi er lélegt og biðlistar langir og við áttum okkur á því að það er ábyrgðarhluti að fara í aðgerðir á þessum tímapunkti. En við upplifum að við séum komin upp við vegg.“
Hún bendir á það sé þeirra markmið að standa vörð um læknisþjónustu í landinu. „Það að læknar búi við mannsæmandi kjör eru auðvitað hluti af því. Það er líka ábyrgðarhluti af okkar hálfu að það sé eftirsóknarvert að starfa hérna og að við fáum fólk heim.“
Hún segir að það hafi sést með skýrum hætti í gegnum tíðina að kjarasamningar hafi áhrif á mönnun. Náist góður samningur verði að öllum líkindum hægt að laða lækna sem starfa erlendis heim, sem höfðu ekki getað hugsað sér það áður.
„Við búum við gríðarlega manneklu. Til dæmis myndum við þurfa helmingi fleiri heimilislækna til starfa ef vel ætti að vera, svo eitthvað sé nefnt. Þá eru margar sérgreinar sem búa við mjög mikinn skort, sem þýðir mjög mikið álag á þá aðila sem veita þá þjónustu.“
Gott aðgengi að heimilislæknum dragi meðal annars úr notkun á bráðaþjónustu. Takist ekki að grípa vandamál fólks snemma geti þau orðið bráð.
„Við upplifum að það sé algjört lykilatriði til að við getum farið að komast upp úr þessari gryfju sem við erum í og að kjör lækna styðji við nýliðun hérna heima.“
Grunnlaun nýútskrifaðra lækna eru rúmar 680 þúsund krónur fyrir fulla vinnu, en Steinunn segir mikilvægt skoða hvaða vinnuframlag býr að baki þegar heildarlaun lækna eru skoðuð.
„Læknar sem eru með há laun eru yfirleitt læknar sem eru á mjög miklum vöktum ofan á fulla dagvinnu. Grunnlaun almenns nýútskrifaðs læknis eru rúm 680 þúsund fyrir fulla vinnu. Við viljum meina að það sé ekki í takt við ábyrgð og menntun,“ segir Steinunn.
„Þegar maður horfir á samanburðarstéttir háskólamenntaðra í öðrum fögum þá eru þær yfirleitt á talsvert hærri launum. Okkur finnst undarlegt að læknar séu þarna eftirbátur verandi með lengsta námið, mikla ábyrgð og mjög krefjandi starfsaðstæður.“