„Vonandi verðum við ekki ástfangnar af kúnnunum okkar“

Brúðkaup | 23. október 2024

„Vonandi verðum við ekki ástfangnar af kúnnunum okkar“

Vinkonurnar Denise Margrét Yaghi og Karitas Ósk Harðardóttir eiga það sameiginlegt að elska brúðkaup og allt umstangið sem því fylgir. Þær ákváðu því að dýfa tánum í djúpu laugina og stofnuðu brúðkaupsþjónustu sem ber heitið Stikkfrí í sumar. Reksturinn hefur farið vel af stað og eru stöllurnar stoltar, spenntar og fullar tilhlökkunar yfir komandi verkefnum og vonast að sjálfsögðu að sem flestir beri upp bónorðið á næstu vikum og mánuðum.

„Vonandi verðum við ekki ástfangnar af kúnnunum okkar“

Brúðkaup | 23. október 2024

Denise og Karitas eru tilbúnar að tækla öll verkefni.
Denise og Karitas eru tilbúnar að tækla öll verkefni. Ljósmynd/Ágústa Ýr Guðmundsdóttir

Vinkonurnar Denise Margrét Yaghi og Karitas Ósk Harðardóttir eiga það sameiginlegt að elska brúðkaup og allt umstangið sem því fylgir. Þær ákváðu því að dýfa tánum í djúpu laugina og stofnuðu brúðkaupsþjónustu sem ber heitið Stikkfrí í sumar. Reksturinn hefur farið vel af stað og eru stöllurnar stoltar, spenntar og fullar tilhlökkunar yfir komandi verkefnum og vonast að sjálfsögðu að sem flestir beri upp bónorðið á næstu vikum og mánuðum.

Vinkonurnar Denise Margrét Yaghi og Karitas Ósk Harðardóttir eiga það sameiginlegt að elska brúðkaup og allt umstangið sem því fylgir. Þær ákváðu því að dýfa tánum í djúpu laugina og stofnuðu brúðkaupsþjónustu sem ber heitið Stikkfrí í sumar. Reksturinn hefur farið vel af stað og eru stöllurnar stoltar, spenntar og fullar tilhlökkunar yfir komandi verkefnum og vonast að sjálfsögðu að sem flestir beri upp bónorðið á næstu vikum og mánuðum.

Denise, dansari, danskennari og yfirflugfreyja hjá Play, og Karitas, viðskiptafræðingur og viðburðastjóri Iceland Innovation Week, kynntust þegar þær voru báðar búsettar í kínversku borginni Hong Kong árið 2018.

„Þetta varð allt fyrir hálfgerða tilviljun,“ segja þær einum rómi. „Sko, þetta er nú svolítið skondið. Karitas hafð verið búsett og starfandi í Kína í um það bil eitt ár þegar hún ákvað að flytja til Hong Kong árið 2018, en þáverandi vinnustaður hennr var með starfsstöð þar,“ útskýrir Denise sem var akkúrat í leit að nýjum herbergisfélaga á þessum tíma. „Hún flutti inn. Við urðum fljótt nánar og góðar vinkonur, eða réttara sagt bestu vinkonur. Við höfum brallað ýmislegt saman í gegnum árin, eyddum yndislegum stundum í Hong Kong og erum nú orðnar viðskiptafélagar.“

Stöllurnar í Hong Kong.
Stöllurnar í Hong Kong. Ljósmynd/Aðsend

Þessi sex ár eru eins og heil mannsævi

Hefur ykkur alltaf langað að starfa saman?

„Við höfum mjög oft talað um það í gegnum árin. Þó svo að við höfum aðeins þekkst í sex ár líður okkur alltaf eins og við höfum þekkst alla tíð. Við erum alveg handvissar um að okkur hafi verið ætlað að vera vinkonur. Ætli það hafi því ekki bara verið tímaspursmál hvenær við færum að vinna saman. Við höfum það að minnsta kosti á tilfinningunni að við séum á réttri vegferð með þetta skemmtilega fyrirtæki okkar.“

Hvaðan spratt hugmyndin að fyrirtækinu?

„Hugmyndin að Stikkfrí kom fyrst upp á yfirborðið þegar Denise fór að kenna dans hér á landi eftir að hafa flust heim frá Hong Kong. Hún tók að sér alls kyns skemmtileg verkefni í dansskóla og eitt þeirra var að kenna tilvonandi brúðhjónum hinn svokallaða brúðkaupsdans eða brúðarvalsinn,“ útskýrir Karitas. 

„Já, þannig byrjaði boltinn að rúlla. Flest pörin sem ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kenna voru byrjendur í samkvæmisdansi en það var auðvitað allur gangur á því. Allir hafa taktinn í sér en sumir hafa hann innbyggðan,“ segir Denise og hlær. 

„Öll komu þau til mín í þeim tilgangi að fá hjálp við að undirbúa fyrsta dansinn sinn sem hjón. Þetta voru skemmtileg verkefni en ég tók áberandi eftir því að öll verðandi brúðhjónin áttu það sameiginlegt, konurnar í flestum tilfellum, að vera stressuð yfir undirbúningnum. Ég sá fólk vera að sligast undan álagi og þreytu, enda ótal margt sem þarf að huga að fyrir stóra daginn. Eftir að hafa fylgst með þó nokkrum verðandi brúðhjónum ganga í gegnum þetta heljarinnar mikla undirbúningsferli fór ég að velta fyrir mér hvað ég gæti gert til að létta undir og auðvelda fólki fyrir. Upp úr því spratt síðan hugmyndin. Ég bar hana undir Karitas, sem leist alveg ótrúlega vel á, enda hafði sama hugmynd blundað í henni lengi.“

Denise er atvinnudansari.
Denise er atvinnudansari. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er Stikkfrí?

„Stikkfrí er íslensk brúðkaupsþjónusta sem sérhæfir sig í að aðstoða pör við að skipuleggja og framkvæma draumabrúðkaup þeirra. Við bjóðum upp á þjónustu sem nær yfir allt frá aðstoð við val á staðsetningu, skreytingum og veitingum og bara öllu öðru sem viðkemur stóra deginum. Markmið Stikkfrí er að gera brúðkaupsferlið auðveldara og ánægjulegra fyrir brúðhjónin svo að þau geti einbeitt sér alfarið að því að njóta dagsins.“

Hvaðan kemur nafnið?

„Við vorum búnar að fara svo marga hringi með nafnið og í allt aðrar áttir. Við vorum sammála um að vilja ekki hafa heiti fyrirtækisins of flókið en vildum samt passa að það væri grípandi. Allt í einu einn daginn þá kom það til okkur, að sjálfsögðu í miðjum undirbúningi fyrir brúðkaup. Okkur leist vel á orðið þar sem það lýsir því hvernig okkur langar að brúðhjónum líði í undirbúningsferlinu, stikkfrí.“

Gísli Ragnar og Karitas á brúðkaupsdaginn.
Gísli Ragnar og Karitas á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Anna Pálma og Guy Aroch

Ein gift, hin trúlofuð

Karitas giftist sínum heittelskaða, Gísla Ragnari Guðmundssyni iðnaðarverkfræðingi, í júlí 2021. Denise er hins vegar trúlofuð Róberti Ketilssyni flugmanni og bíður spennt eftir að játast unnusta sínum.

Blaðamaður varð því að forvitnast um brúðkaupsdag Karitasar og Gísla Ragnars sem og draumabrúðkaup Denise og Róberts.

„Brúðkaupsdagurinn var gjörsamlega geggjaður og ég myndi í sannleika sagt ekki breyta neinu við hann, þó svo að ég hafi fengið blett í brúðarfötin mín aðeins fimm mínútum fyrir athöfnina. Það gaf deginum bara aðeins meiri sjarma.

Við Gísli Ragnar trúlofuðum okkur á Balí árið 2018 og ætluðum að gifta okkur 2020. Flest allur undirbúningur var langt kominn þar sem ég er mjög skipulögð og þrælvön þegar kemur að viðburðahaldi. En allt kom fyrir ekki, kórónuveirufaraldurinn skall á og kom í veg fyrir brúðkaupsfögnuðinn það sumarið en við vorum alveg pollróleg. Taka tvö var gerð sumarið 2021, en þá ætluðum við að gifta okkur í júní en enduðum á að gifta okkur þann 10. júlí, í tveggja vikna Covid-glugga.

Það alltaf gaman hjá vinkonunum.
Það alltaf gaman hjá vinkonunum. Ljósmynd/Anna Pálma og Guy Aroch

Þegar ég horfi til baka og skoða myndir í símanum mínum þá sé ég að við sendum út boðskort í brúðkaupið aðeins örfáum vikum áðum, með mjög stuttum fyrirvara, en það gekk upp. Mig minnir að það hafi verið 99% mæting og allir voru meira en til í skemmtilegt partí á þessum tímapunkti. Úr varð uppáhaldsdagur okkar þar sem við giftum okkur úti við Ægissíðuna, þar sem við búum í dag, þremur árum síðar ásamt tveggja ára gamalli dóttur okkar.“

Karitas og Gísli Ragnar héldu veisluna í Perlunni og buðu gestum upp á framandi matseðil og gott partí.

„Þegar ég var að skipuleggja brúðkaupið mitt þá vissi ég að mig langaði til að gera eitthvað aðeins öðruvísi. Við hjónin ákváðum því að bjóða upp á skemmtilegan og öðruvísi matseðil sem lýsti sambandssögu okkar. Við höfum búið saman á sex stöðum í heiminum og útbjuggum matseðilinn þannig að það voru sex réttir og hver og einn einkenndi ákveðið land eða borg. Það var rífandi steming allt kvöldið en Páll Óskar, Inspector Spacetime og DJ Dóra Júlía héldu stuðinu gangandi langt frameftir nóttu,“ segir Karitas.

Denise er aðeins byrjuð að púsla saman hugmyndum að stóra deginum. 

„Draumurinn er að halda brúðkaupið okkar úti á landi, á einhverjum fallegum stað. Mér finnst svo heillandi tilhugsun að gera svolítið mikið úr þessu, gefa fólki tækifæri á að fagna með okkur yfir heila helgi.

Ég sé fyrir mér sumarbrúðkaup en er samt alveg opin fyrir fleiru. Falleg athöfn með persónulegum tónlistaratriðum, góðum mat og bara dúndurgott partí með geggjaðri tónlist er stærsti draumurinn. Svo væri algjör bónus ef að sólin læti sjá sig á brúðkaupsdaginn,“ útskýrir verðandi brúðurin.

Denise og Karitas sjá um allt frá A-Ö.
Denise og Karitas sjá um allt frá A-Ö. Ljósmynd/Blik Studios

Vaxandi iðnaður

Brúðkaupsiðnaðurinn á Íslandi hefur vaxið mikið undanfarin ár að sögn eigenda Stikkfrí.

„Hann er kannski ekki jafnstór og í öðrum löndum en á síðustu árum hefur Ísland orðið vinsæll áfangastaður fyrir brúðkaup. Mörg erlend pör fljúga hingað til þess að gifta sig í óspilltri íslenskri náttúru eða undir dansi norðurljósanna.“

Er mikil samkeppni?

„Það er einhver samkeppni á markaðnum en samt sem áður hefur þessi þjónusta, eins og sú sem við bjóðum upp á hjá Stikkfrí, greinilega verið eitthvað sem hefur lengi vantað hér á landi. Við bæði finnum það og heyrum á fólkinu sem við höfum spjallað við síðustu mánuði. Það eru kannski ekki beinir samkeppnisaðilar akkúrat þar sem við staðsetjum okkur á markaðnum en okkur finnst samkeppni bara heilbrigð og góð, þar sem eftirspurn er umfram framboð að okkar mati. Það er pláss fyrir alla.“

Hvað er það skemmtilegasta við að skipuleggja brúðkaup?

„Það skemmtilegasta við að skipuleggja brúðkaup að okkar mati er að fá að taka þátt í því að gera brúðkaupsdaginn einstakan og uppfylla allar óskir brúðhjónanna. Það er eitthvað einstakt við að fá að sinna þeim verkefnum sem brúðhjón eiga ekki að þurfa að sinna sjálf og þora gjarnan ekki að biðja vini og vandamenn um að sinna. Verkefnin geta verið allt milli himins og jarðar, allt frá því að stilla hljóðkerfið í veislusalnum yfir í það að passa að brúðurin muni eftir að taka brúðarvöndinn með sér í athöfnina.“

Stikkfrí hefur skipulagt þó nokkur brúðkaup og þar á meðal …
Stikkfrí hefur skipulagt þó nokkur brúðkaup og þar á meðal brúðkaup Snorra Mássonar og Nadine Guðrúnar Yaghi. Ljósmynd/Blik Studio

Hvað er mest stressandi?

„Auðvitað langar manni bara að gera sitt allra besta til þess að gera stóra daginn fullkominn en það sem getur oft valdið miklu stressi er það sem er erfitt eða ómögulegt að stjórna, t.d. veðrið, hvað þá hérna á Íslandi. Draumur margra brúðhjóna er gjarnan að hafa annað hvort athöfn eða hluta brúðkaupsins úti og þá getur fólk farið á hliðina af stressi. Það besta er eiginlega að vera svartsýnn í þessum aðstæðum og hugsa daginn út frá versta mögulega veðrinu, búa sig undir það og þá er allt annað bara bónus.

Annað sem getur verið stór stressvaldur fyrir skipuleggjendur brúðkaupa eru óvæntar uppákomur, eins og ef að stærsta tónlistaratriði dagsins hættir við með stuttum fyrirvara. Við erum samt nokkuð vissar að við séum búnar að næla okkur í svarta beltið þegar kemur að óvæntum uppákomum og höfum komist að því að það hjálpar lítið að hafa áhyggjur af einhverju sem maður getur vart stjórnað. Ef eitthvað kemur upp á þá bara reddar maður því.“

„Vonandi verðum við farsælar brúðkaupsgellur“

Ein frægasta brúðkaupskvikmynd tíunda áratugarins, ef ekki allra tíma, er án efa The Wedding Planner með Jennifer Lopez í aðalhlutverki. Leikkonan fer með hlutverk Mary Fiore sem sérhæfir sig í að skipuleggja brúðkaup.

Varð blaðamaður því að heyra hvort að kvikmyndin eða hlutverk Lopez hafi vakið brúðkaupsáhugann hjá stöllunum og hvort þær sjái líkindi með sér og Fiore.

„Haha, kannski að vissu leyti. Vonandi verðum við farsælar brúðkaupsgellur eins og Mary Fiore en vonandi verðum við ekki ástfangnar af kúnnunum okkar. Það hefur að minnsta kosti ekki gerst ennþá, enda báðar vel ráðsettar.“

Er einhver brúðkaupsbíómynd í sérstöku uppáhaldi hjá ykkur?

„Það er mjög erfitt að velja eina en ég held að við verðum að segja My Best Friend‘s Wedding. Rómantík með vott af dramatík.”

mbl.is