Boðið til veislu!

Uppskriftir | 27. október 2024

Boðið til veislu!

Gabríel Kristinn Bjarnason keppir víða um heim með kokkalandsliðinu. Í hjáverkum skrifaði hann bókina Þetta verður veisla!

Boðið til veislu!

Uppskriftir | 27. október 2024

Gabríel Kristinn er metnaðarfullur ungur kokkur. Hann keppir með kokkalandsliðinu …
Gabríel Kristinn er metnaðarfullur ungur kokkur. Hann keppir með kokkalandsliðinu og hefur nú gefið út sína fyrstu kokkabók. Ljósmynd/Aðsend

Gabrí­el Krist­inn Bjarna­son kepp­ir víða um heim með kokka­landsliðinu. Í hjá­verk­um skrifaði hann bók­ina Þetta verður veisla!

Gabrí­el Krist­inn Bjarna­son kepp­ir víða um heim með kokka­landsliðinu. Í hjá­verk­um skrifaði hann bók­ina Þetta verður veisla!

Mat­reiðslumaður­inn Gabrí­el Krist­inn mæt­ir í viðtal með brak­andi ferska nýja kokka­bók und­ir hend­inni; bók­ina Þetta verður veisla! Bók­in er stút­full af ein­föld­um eðal­rétt­um sem munu áreiðan­lega slá í gegn í veisl­um lands­manna. Gabrí­el er reynd­ur kokk­ur þrátt fyr­ir ung­an ald­ur, en hann hef­ur verið í kokka­landsliðinu í fimm ár eða síðan hann var aðeins tví­tug­ur að aldri.

Fjöl­skyld­an á Grill­inu

Gabrí­el á ekki langt að sækja áhug­ann á kokka­mennsku en faðir hans, Bjarni Gunn­ar Krist­ins­son, var kokk­ur á Hót­el Sögu, á Skrúði og Grill­inu, og móðir hans, Soffía Guðbjörg Þórðardótt­ir, þjónn.

„Þau kynnt­ust á Grill­inu og ég var þar mikið að skott­ast um þegar ég var barn. Mamma sagði að bux­urn­ar mín­ar hefðu alltaf verið rauðar því ég skreið um öll gólf þar á rauða gólf­tepp­inu,“ seg­ir hann og bros­ir.

„Ég hafði ekki áhuga á mat­reiðslu sem barn en byrjaði að vinna hjá pabba þegar ég var fjór­tán ára en hann var þá kokk­ur í Hörpu. Ég slapp þá við ung­linga­vinn­una og þar voru aðeins betri laun. Ég var þar í of stór­um kokka­göll­um að hræra í of stór­um pott­um. Svo þegar við vin­irn­ir vor­um að ákveða í hvaða mennta­skóla við fær­um þá valdi ég kokk­inn. Ég ætlaði aldrei að gera það en ég hafði verið mikið í kring­um pabba, hann var með sjón­varpsþætti og var í kokka­landsliðinu. Í dag er hann dóm­ari í landsliðinu,“ seg­ir Gabrí­el.

„Ég fór því í MK og lærði kokk­inn, en helm­ing­ur­inn af nám­inu er að vinna á veit­ingastað og fór ég á Geira Smart, sem var reynd­ar ekki sami staður og hann er í dag. Þá unnu þar tveir kokk­ar sem voru í landsliðinu og þar átti ég geggjuð tvö ár. Eft­ir það kláraði ég samn­ing­inn á Hót­el Sögu, uppi á Grilli, sem hafði alltaf verið draum­ur­inn. Ég var síðasti nem­inn til að út­skrif­ast þaðan áður en þar var lokað 2019,“ seg­ir Gabrí­el sem fetaði þar með í fót­spor föður síns.

„Það var alltaf mark­mið að ná að gera allt sem hann gerði. Eina sem er eft­ir er að vinna kokk árs­ins til að gera meira en hann,“ seg­ir Gabrí­el og bros­ir.

Frá­bært að vinna brons

Gabrí­el vann á veit­ingastaðnum Héðni og síðar á Michel­in-staðnum Dill sem hann seg­ir hafa verið frá­bært.

„Ég var ráðinn inn til að búa til mat­seðla fyr­ir Gunna Kalla, sem er drauma­djobb,“ seg­ir Gabrí­el sem tók þá ákvörðun um síðustu jól að hætta á Dill og vinn­ur hann nú í Fast­us Expert þar sem hann sel­ur öðrum kokk­um ofna og aðrar græj­ur. Hann er þó síður en svo hætt­ur að elda mat.

„Ég vil ein­beita mér meira að kokka­landsliðinu því það var rosa­lega erfitt að vinna fimmtán tíma á dag á Dill fjóra daga í röð og taka svo fjóra daga í landsliðsæfing­ar. Þetta var of mikið,“ seg­ir Gabrí­el og seg­ir kokka­landsliðið æfa miklu meira en fólk geri sér grein fyr­ir.

„Við erum nú að æfa aðra hverja helgi í heilt ár og árið á eft­ir verðum við að æfa fjóra daga í viku allt árið,“ seg­ir Gabrí­el og út­skýr­ir að keppt sé í raun á tveggja ára fresti, ann­ars veg­ar á heims­meist­ara­móti og hins veg­ar á Ólymp­íu­leik­un­um.

„Núna í ár lent­um við í þriðja sæti á Ólymp­íu­leik­un­um, sem er betri ár­ang­ur en nokk­urt ís­lenskt lið hef­ur náð þótt lítið sé talað um það,“ seg­ir Gabrí­el, sem hef­ur margoft farið utan í keppn­ir.

Gabríel var sáttur með bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í ár.
Gabrí­el var sátt­ur með bronsverðlaun á Ólymp­íu­leik­un­um í ár. Ljós­mynd/​Aðsend

„Þetta er mik­il vinna, sér­stak­lega þegar maður not­ar alla frí­dag­ana sína í þetta. Ég byrjaði sem nemi hjá öll­um flottu kokk­un­um. Mér finnst gam­an að keppa í þessu; ég sé svo­lítið sportið í þessu. Ég náði ekki langt í fót­bolta en næ að vera í þessu landsliði,“ seg­ir Gabrí­el og bros­ir.

„Ég vann „besti ung­kokk­ur­inn á Norður­lönd­un­um“ árið 2020,“ seg­ir Gabrí­el, en hann hef­ur keppt í ýms­um kokka­keppn­um, meðal ann­ars í hinni virtu Bocu­se d'Or-keppni, en Gabrí­el var heil tvö ár að æfa sig fyr­ir þá keppni.

Djúp­steikt vaffla og krap

Hvernig mat eld­ar þú?

„Ég er mjög djarf­ur og finnst gam­an að nota jap­ansk­ar bragðteg­und­ir; uma­mi. Siggi á OTO hef­ur kannski smitað mig, en hann var yfir­kokk­ur á Grill­inu þegar ég var þar. Ég eyddi í raun fjór­um árum með Sigga þannig að margt frá hon­um hef­ur límst við mig,“ seg­ir hann.

Nú hef­ur Gabrí­el gefið út sína fyrstu kokka­bók sem ber nafnið Þetta verður veisla!

„Ég hef gert mikið af því að elda í prívat­veisl­um og finnst gam­an að búa til veislu­rétti. Í bók­inni eru marg­ir rétt­ir sem ég hef eldað í þess­um veisl­um. Rétt­irn­ir eru í raun ein­fald­ir þótt þeir líti ekki út fyr­ir að vera það. Mig langaði að gefa út bók með ein­föld­um en flott­um upp­skrift­um. Fólk get­ur þá fengið nýj­ar hug­mynd­ir.“

Áttu þér upp­á­halds­rétt?

„Það er erfitt að velja en djúp­steikta vaffl­an með lambat­art­ar slær alltaf í gegn. Svo finnst mér rósa­vínskrapið með hvítsúkklaðimús skemmti­leg­ur rétt­ur.“

Gabrí­el deil­ir hér með les­end­um einni upp­skrift úr bók­inni. Fleiri upp­skrift­ir birt­ast eft­ir Gabrí­el á næstu dög­um.

Ribeye-nautasteik, chili-hollandaise-sósa og kartöfluveisla að hætti Gabríels.
Ri­beye-nauta­steik, chili-hollandaise-sósa og kart­öflu­veisla að hætti Gabrí­els. Ljós­mynd/​Há­kon Björns­son

Ri­beye-nauta­steik, chili-hollandaise-sósa og kart­öflu­veisla

Ri­beye-nauta­steik

  • 2 stk. ri­beye-nauta­steik (400 g/​200 g stk.)
  • 2 msk. smjör
  • 2 stk. grein­ar rós­marín
  • 2 stk. hvít­lauks­geir­ar
  • salt eft­ir smekk
  • ólífu­olía

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á hæsta hita og setjið ólífu­olíu á hana. Kryddið næst steik­urn­ar með góðu magni af salti og byrjið að steikja og ekki hreyfa við steik­inni á pönn­unni í rúm­ar 4-5 mín­út­ur, því þið viljið góða brún­ingu á hana.
  2. Snúið steik­inni síðan við og gerið al­veg eins hinum meg­in.
  3. Bætið síðan við smjöri og kryddi og leyfið að freyða yfir steik­ina og ausið yfir með skeið.
  4. Takið steik­urn­ar af pönn­unni og látið hvíla í rúm­ar 10 mín­út­ur.

Kart­öflu­veisla

  • 500 g smælkiskart­öfl­ur
  • 150 g par­mesanost­ur, rif­inn
  • 2 tsk. Knorr-hvít­lauks­duft
  • ½ tsk. Knorr reykt paprika
  • ¼ tsk. pip­ar
  • 2 tsk. salt
  • 3 msk. brætt smjör
  • 3 msk. graslauk­ur saxaður, til skreyt­ing­ar

Aðferð:

  1. Hitið ofn­inn í 200°C.
  2. Blandið sam­an osti og krydd­um í skál.
  3. Takið til ofn­plötu og klæðið með bök­un­ar­papp­ír, dreifið smjöri jafnt á papp­ír­inn og dreifið síðan osta­blönd­unni yfir smjörið.
  4. Skerið kart­öfl­urn­ar til helm­inga og þrýstið þeim ofan á ost­inn og raðið jafnt yfir ofn­plöt­una.
  5. Passið að hafa gott bil á milli.
  6. Passið líka að hreyfa ekki kart­öfl­urn­ar eft­ir að þið hafið sett þær á ost­inn. Setjið smá smjör og salt ofan á kart­öfl­urn­ar.
  7. Setjið inn í ofn og bakið í rúm­ar 30 mín­út­ur eða þar til ost­ur­inn er orðinn stökk­ur.
  8. Takið ofn­plöt­una út og leyfið að kólna.
  9. Setjið síðan kart­öfl­urn­ar á disk og látið hliðina með ost­in­um snúa upp.
  10. Skreytið með söxuðum graslauk.

Stökk chili-hollandaise-sósa

  • 50 g skalott­lauk­ur
  • 100 g hvít­vín­se­dik
  • 100 g vatn
  • 10 stk. pip­ar­korn
  • 1 stk. lár­viðarlauf
  • 150 g eggj­ar­auður
  • 500 g brætt smjör
  • salt eft­ir smekk
  • 2 msk. crispy-chili olía

Aðferð:

  1. Takið til meðal­stór­an pott og skerið skalott­lauk­inn í bita.
  2. Setjið síðan lauk­inn ásamt ed­iki, vatni og kryddi í pott­inn og sjóðið niður um helm­ing.
  3. Sigtið síðan lög­inn og setjið aft­ur í pott­inn.
  4. Bætið eggj­un­um við og pískið yfir lág­um hita þar til sós­an verður froðukennd.
  5. Bætið þá smjör­inu ró­lega við al­veg eins og gert er við bernaise-sósu­gerð.
  6. Kryddið til með salti, sítr­ónusafa og crispy-chili-ol­í­unni.
mbl.is