Menntamál hafa varla verið á dagskrá á Íslandi og árangurinn hefur verið eftir því.
Menntamál hafa varla verið á dagskrá á Íslandi og árangurinn hefur verið eftir því.
Menntamál hafa varla verið á dagskrá á Íslandi og árangurinn hefur verið eftir því.
Þetta segir Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, sem nú hefur boðið sig fram fyrir Sjálfstæðisflokk í Reykjavíkurkjördæmi suður.
„Mömmur, pabbar, afar, ömmur, verðandi foreldrar og allir aðrir, þessu verður að breyta,“ skrifar Jón Pétur í framboðsyfirlýsingu á Facebook.
„Það er ekki hægt að bjóða börnunum okkar upp á þetta skammarlega áhuga- og metnaðarleysi. Það er löngu kominn tími til sýna þeim sem erfa landið þá virðingu að lífsgæði þeirra skipti okkur máli,“ segir hann.
Tekur hann fram að störf hans við kennslu og skólastjórn hafi fært honum veruleg lífsgæði, „í formi þess að kynnast þverskurði mannlegs samfélags í gegnum nemendur mína í Réttarholtsskóla og Melaskóla. Þeir hafa auðgað líf mitt svo um munar og vonandi hef ég endurgoldið það að einhverju leyti.“
Hann heldur áfram:
„Það er skylda okkar, sem fáum það traust að mennta æsku Íslands, að hjálpa nemendum ná sem allra mestum árangri eins og kostur er. Skólar eru jöfnunartæki, það ætti enginn að líða fyrir stétt eða stöðu sína því að allir nemendur skipta máli og allir nemendur ættu að hafa eins jöfn tækifæri eftir 10 ára skyldunám sem mögulegt er,“ segir Jón Pétur.
„Staðan er því miður ekki þannig í dag. Menntamál eru líka efnahagsmál og einn af þeim þáttum sem hafa mikil áhrif á samkeppnishæfni okkar Íslendinga og þau hafa líka áhrif á vaxtakjör Íslands. Þrátt fyrir þetta hafa þau varla verið á dagskrá og árangurinn eftir því.“
Bendir hann á að hvorki ríkisútvarpið né forsætisráðherra hafi minnst á það um áramótin að um 40% nemenda sem útskrifist úr grunnskóla skilji ekki einfaldan upplýsingatexta.
„Það er stórhættulegt fyrir lýðræðið og bestu möguleg lífsgæði eru tekin af borðinu fyrir þennan stóra hóp.“
Kveðst hann svo sannarlega til í að leggja sín lóð á vogarskálarnar, fái hann umboð til þess.