Ánægjulegt að ávinningur birtist í lægri verðbólgu

Vextir á Íslandi | 30. október 2024

Ánægjulegt að ávinningur birtist í lægri verðbólgu

Lækkun tólf mánaða verðbólgu niður í 5,1% eru mjög ánægjulegar fréttir. Langtímakjarasamningar í byrjun árs eiga stóran þátt í þeirri verðbólgulækkun sem hefur verið á þessu ári.

Ánægjulegt að ávinningur birtist í lægri verðbólgu

Vextir á Íslandi | 30. október 2024

Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Sigríður Margrét Oddsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lækkun tólf mánaða verðbólgu niður í 5,1% eru mjög ánægjulegar fréttir. Langtímakjarasamningar í byrjun árs eiga stóran þátt í þeirri verðbólgulækkun sem hefur verið á þessu ári.

Lækkun tólf mánaða verðbólgu niður í 5,1% eru mjög ánægjulegar fréttir. Langtímakjarasamningar í byrjun árs eiga stóran þátt í þeirri verðbólgulækkun sem hefur verið á þessu ári.

Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Það eru mjög ánægjulegar fréttir að verðbólgan haldi áfram að minnka,“ segir hún og bendir á að verðbólgan sé 2,8% án húsnæðisliðarins sem sé nokkuð nálægt markmiði Seðlabankans.

Skynsamir kjarasamningar grunnurinn 

„Þessi breyting sem hefur átt sér stað á ríflega einu ári er m.a. því að þakka að við gerðum skynsama langtímakjarasamninga í upphafi ársins. Það má segja að þeir samningar hafi lagt grunninn að því að ná efnahagslegum stöðugleika, sem eru mikilvægustu þættirnir sem bæði heimilin og fyrirtæki landsins eru að horfa til,“ segir Sigríður Margrét og nefnir í þessu samhengi kannanir sem voru gerðar á meðal almennings og fyrirtækja í aðdraganda kjaraviðræðnanna.

„Þar var mikil samstaða um að það mikilvægasta sem við ættum að leggja áherslu á í kjarasamningunum var að finna leiðir til að ná niður verðbólgunni til þess að skapa grundvöll fyrir því að stýrivextir gætu lækkað,“ segir hún.

„Þurfti mikið hugrekki“

Sigríður Margrét nefnir að 60% allra verðmæta sem skapist á Íslandi renni til launafólks. Laun og launakostnaður séu langstærsti kostnaðarliður fyrirtækja fyrir utan aðföng. Þess vegna sé þörf á skynsömum langtímakjarasamningum sem samræmist þeirri innistæðu sem er til staðar í atvinnulífinu. Þannig verði verðstöðugleiki tryggður.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, tókust í hendur þegar kjarasamningar voru í höfn í mars síðastliðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við sömdum um 3,25% til 3,5% almennar launahækkanir næstu fjögur árin með 23.750 króna lágmarki. Það þurfti mikið hugrekki til að gera þessa samninga og taka ákvarðanir sem hafa þær afleiðingar að hlutir breytast. Það er þess vegna mjög ánægjulegt að við sjáum ávinninginn birtast okkur, m.a. í þessum lægri verðbólgutölum.“

Hún tekur þó fram að tryggja þurfi að launastefnan sem var samið um haldi, auk þess sem opinber fjármál þurfi að styðja við markmiðin sem heimili og fyrirtæki leggja áherslu á.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Taki ákvarðanir í samræmi við gögnin

Spurð út í væntingar sínar til næstu stýrivaxtaákvörðunar Seðlabankans 20. nóvember segir hún:  „Við treystum því að Seðlabankinn horfi til þeirra gagna sem hann er vanur að horfa til og taki ákvarðanir til samræmis við þau.“

mbl.is