Segir Trump óstöðugan og í hefndarhug

Segir Trump óstöðugan og í hefndarhug

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, hélt lokaræðu kosningabaráttu sinnar í gær. Sagði hún mótframbjóðanda sinn Donald Trump vera ógn við lýðræðið.

Segir Trump óstöðugan og í hefndarhug

Forsetakosningar í Bandaríkjunum 2024 | 30. október 2024

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, hélt lokaræðu kosningabaráttu sinnar í gær. Sagði hún mótframbjóðanda sinn Donald Trump vera ógn við lýðræðið.

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, hélt lokaræðu kosningabaráttu sinnar í gær. Sagði hún mótframbjóðanda sinn Donald Trump vera ógn við lýðræðið.

Um 75 þúsund manns mættu á kosningafundinn í gærkvöldi í Ellip­se-garðinum fyrir utan Hvíta húsið í Washington.

Sagði Harris það ljóst að niðurstöður kosninganna yrðu afgerandi fyrir framtíð Bandaríkjanna og myndu ákvarða hvort þau yrðu land frelsis eða land sundrungar.

Harris sem er lögfræðingur og fyrrverandi ríkissaksóknari Kaliforníu-ríkis kallaði ræðu sína „lokamálfluttning“ sinn. 

Mjótt á munum

Mjótt er á munum milli frambjóðendanna tveggja en aðeins vika er til stefnu þar til Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta.

Er Harris með forskot á Trump samkvæmt kosningakönnun ABC-fréttastofunnar 538. Mælist Harris með 48,1% fylgi en Trump með 46,7% fylgi. Samkvæmt RealClearPolitics er það aftur á móti Trump sem leiðir en þar er munurinn talsvert minni: Trump með 48,4% og Harris með 48%. 

Líklegt er að frambjóðendurnir tveir muni einbeita sér að því að reyna að sveigja niðurstöðurnar sér í hag í sjö sveifluríkjum Bandaríkjanna: Georgíu, Norður-Karólínu, Pennsylvaníu, Michigan, Wisconsin, Nevada og Arisóna.

Trump hélt fund á sama tíma og Harris við golfsetur sitt í Mar-a-Lago í Flórída þar sem hann sagði Harris hvetja til haturs og sundrungar.

Harris við ræðuhöldin í gær. Aðeins vika er til stefnu …
Harris við ræðuhöldin í gær. Aðeins vika er til stefnu en mjótt er á munum milli frambjóðendanna tveggja. TASOS KATOPODIS

Heltekinn af meintu óréttlæti

Staðsetning fundarstaðar Harris í gær varð ekki fyrir valinu af tilviljun heldur valdi hún sama stað og Trump hélt „Björgum Bandaríkjunum“-ræðu sína þann 6. október 2021, rétt áður en æstur múgur réðst að þinghúsi Bandaríkjanna til að mótmæla sigri Joe Biden og Harris í forsetakosningunum.

Töldu stuðningsmenn Trump að kosningunum hefði verið „stolið“ en Trump hélt því ítrekað fram að brögð hefðu verið í tafli í atkvæðatalningunni. 

Harris hóf ræðu sína á að aðgreina sig og andstæðing sinn sem væri óstöðugur einstaklingur sem væri heltekinn af hefndarþorsta og meintu óréttlæti.

Vill beita valdi gegn andstæðingum sínum

Hét Harris því að hún myndi ganga að embættinu með verkefnalista – ekki óvinalista líkt og Trump, sem hún lýsti sem smámunasömum einræðisherra sem hygðist beita hervaldi gegn „innri ógnvöldum“, þ.e. Bandaríkjamönnum sem væru ósammála honum.

Vék Harris máli sínu að eigin stefnumálum eftir að hafa farið yfir bresti andstæðings síns og lagði þar áherslu á skatta- og fjárhagsáætlun miðstéttarfólki til bóta, þungunarrof og innflytjendamál.

„Stjórnmálamenn verða að hætta að keyra upp ótta í sambandi við innflytjendamál til að næla sér í atkvæði,“ sagði hún, „og takast á við þau sem þá alvarlegu áskorun sem þau eru“.

Hlaut Harris mikið lófatak er hún ítrekaði að hið opinbera ætti engan rétt á að segja konum hvað þær megi og megi ekki gera við eigin líkama, ólíkt repúblikönum.

mbl.is