Maríanna Magnúsdóttir er eigandi ráðgjafafyrirtækisins Improvement og elskar að bæta til hins betra. Hún hefur löngum nýtt sér umbótahugsun í lífi og starfi og því eru hún og Viktoría Jensdóttir að fara af stað með námskeiðið Skilvirki leiðtoginn. Sambýlismaður Maríönnu er Alexander Angelo Tonini og eiga þau fimm börn.
Maríanna Magnúsdóttir er eigandi ráðgjafafyrirtækisins Improvement og elskar að bæta til hins betra. Hún hefur löngum nýtt sér umbótahugsun í lífi og starfi og því eru hún og Viktoría Jensdóttir að fara af stað með námskeiðið Skilvirki leiðtoginn. Sambýlismaður Maríönnu er Alexander Angelo Tonini og eiga þau fimm börn.
Maríanna Magnúsdóttir er eigandi ráðgjafafyrirtækisins Improvement og elskar að bæta til hins betra. Hún hefur löngum nýtt sér umbótahugsun í lífi og starfi og því eru hún og Viktoría Jensdóttir að fara af stað með námskeiðið Skilvirki leiðtoginn. Sambýlismaður Maríönnu er Alexander Angelo Tonini og eiga þau fimm börn.
„Það reynir á leiðtogahæfni okkar og þá sérstaklega á skipulags- og samskiptahæfni að sinna samsettri fjölskyldu, sjálfri mér og starfsframanum.“
Maríanna segist alltaf hafa ætlað að verða dýralæknir og hafi því farið á náttúrufræðibraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
„Mín verkefni á lífsleiðinni hafa mótað mig mjög mikið en þá sérstaklega að upplifa bróðurmissi 17 ára gömul er hann framdi sjálfsvíg,“ og segist hún eftir þá lífsreynslu hafa fundið hve mikilvægt væri að sinna lífshamingjunni.
Eftir framhaldsskólaárin fór Maríanna í nám í rekstrarverkfræði til að halda sem flestum dyrum opnum. Á árum hennar hjá VÍS sem forstöðumaður Umbótastofu lærði hún straumlínustjórnun og leiddi innleiðingu umbótamenningar í takt við stefnu fyrirtækisins. Sú reynsla og þekking, ásamt markþjálfun nýttist vel til að miðla áfram umbótahugsun í ráðgjafastörfum hennar hjá Manino.
Hún fór í gegnum annað stórt verkefni þegar hún skildi við barnsföður sinn, þá með börnin sín, tveggja, fjögurra og sex ára.
„Ég fann fyrir mikilli streitu í því breytingaferli og leitaði í öryggi.“ Á þeim tíma hóf hún störf sem leiðtogi breytinga hjá Landsneti.
„Mínar helstu áskoranir hafa verið að passa ekki inn í hefðbundin form og að finna að mín leið sé ekki í takt við hefðbundnar leiðir,“ segir Maríanna og bætir því við að hafa stundum þurft að taka ákvarðanir sem komu sér vel fyrir hana en mættu skilningsleysi og mótlæti frá öðrum.
En hún hafi lært að hlusta á innsæið.
„Það getur verið krefjandi að lifa í sannleika sínum og hráleika þegar margur kýs að lifa í glansmynd og meðvirkni.“
Maríanna segir að velgengni á vinnumarkaði snúist ekki um titlatog heldur lífsgæði. „Hversu vel í stakk búin við erum til að takast á við þau verkefni sem mæta okkur og hversu mikil jákvæð áhrif manneskja hefur á fólkið í kringum sig,“ og bætir við að í því felist hamingjan í lífi og starfi.
Mikilvægt sé að markmiðasetning hafi að endingu einhverja þýðingu fyrir hana. „Mitt markmið í dag er að hafa orku til að sinna sjálfri mér, fjölskyldu minni og starfi.“
Hvað gefur vinnan þér?
„Mín vinna er tilgangsdrifin og þýðingarmikil og því veitir hún mér mikla lífsfyllingu. Um leið og vinnan mín fer að verða orkuþjófur þá þarf ég að staldra við og endurmeta stöðuna. Þá kemur umbótahugsunin að góðum notum.“
Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?
„Já það getur verið skuggahlið af því að hafa mikinn drifkraft og metnað að ofgera sér. Haustið 2023 fór taugakerfið mitt á hliðina. Það var engu sérstöku um að kenna annað en ég hafði ekki áttað mig á því að hafa verið undir langvarandi álagi í áratugi og svo kom að skuldadögum.“
Á þeim tímapunkti var ekkert annað að gera fyrir Maríönnu en hreinlega að byrja upp á nýtt. Hún þurfti að læra listina sem felst í jafnvæginu. Auk þess naut hún aðstoðar frá fjölda fagaðila til að takast á við verkefnið.
Maríanna leggur mikið upp úr að eiga rólega morgna og til að stuðla að því sé mikilvægt að skipuleggja daginn kvöldinu áður.
„Ég er einmitt í þeirri tilraun að vera ekki bundin hefðbundnum átta tíma vinnudegi. Þetta er mikil jafnvægislist og ég er stöðugt að læra hvernig ég nýti sveigjanleikann mér í hag.“
Verkefnin eru næg utan vinnutíma enda fjölskyldan stór. Svo eru það einnig áhugamálin en Maríanna segist vera algjört náttúrubarn og þar stendur upp úr afþreying á borð við fjallgöngur, skíði og samvera með fjölskyldu og vinum ásamt því að upplifa heiminn í gegnum ferðalög.
Hvernig leggst veturinn í þig?
„Veturinn leggst ágætlega í mig. Mér finnst ofboðslega spennandi að hefja nýjan kafla í fyrirtækinu mínu Improvement, mikill sköpunarkraftur sem fylgir því.“
Maríanna ætlar sér að taka einn dag í einu, vera auðmjúk gagnvart sjálfri sér og síðast en ekki síst að fagna jafnt stóru og smáu sigrunum.