„Við reynum auðvitað alltaf í kosningabaráttu að nálgast kjósendur á sem fjölbreyttastan hátt og það skiptir máli að ná samtali við fólk,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og efsti frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi syðra, í samtali við mbl.is.
„Við reynum auðvitað alltaf í kosningabaráttu að nálgast kjósendur á sem fjölbreyttastan hátt og það skiptir máli að ná samtali við fólk,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og efsti frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi syðra, í samtali við mbl.is.
„Við reynum auðvitað alltaf í kosningabaráttu að nálgast kjósendur á sem fjölbreyttastan hátt og það skiptir máli að ná samtali við fólk,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og efsti frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi syðra, í samtali við mbl.is.
Umræðuefnið eru húsvitjanir frambjóðenda flokksins sem sækja kjósendur heim þessa dagana og ræða sín og þeirra hjartans mál fyrir kosningar í nóvemberlok.
„Við byrjuðum strax í vikunni og gengum í mörg hús þar sem okkur var ótrúlega vel tekið og rætt um mörg málefni, í raun spunnust meiri umræður en við bjuggumst við svona þegar frambjóðendur banka á dyrnar,“ segir Áslaug og bætir því við að ánægjulegt sé að ræða við borgarana augliti til auglitis, fólk sem ekki mæti endilega á stjórnmálafundi heldur sjái frambjóðendur fyrst og fremst í fjölmiðlum. „Það er bæði persónulegra og skemmtilegra,“ segir ráðherra af innlifun.
Aðspurð kveður hún frambjóðendur ætla sér í sem flest hverfi. „Við ákváðum að fara núna í hverfi sem er nálægt viðburði sem við stöndum fyrir í Elliðaárdalnum á laugardaginn, fjölskylduviðburði tengdum hrekkjavökunni, svo við fórum núna í Ártúnsholtið og Fossvoginn. Svo ætlum við í Breiðholtið, Vesturbæinn, Skerjafjörðinn, Hlíðar og fleiri staði,“ segir Áslaug.
Og hvaða hópur af ykkur frambjóðendum er í þessu, fyrir utan þig?
„Það eru efstu frambjóðendur og svo kannski einn þekktur og einn óþekktur sem labba saman, það var svona uppleggið,“ svarar Áslaug og nefnir auk sjálfrar sín frambjóðendurna Hildi Sverrisdóttur þingflokksformann og Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóra. „Við tökum svo með okkur frambjóðendur sem eru neðar á lista og það er gríðarlega mikill hugur í öllum hópnum,“ bætir hún við.
Áslaug er spurð hvort fólk taki óvæntum heimsóknum vel á tímum rafrænna samskipta sem ná til allra alls staðar og Íslendingar ef til vill orðnir vanari því að heimsóknir séu tilkynntar fyrir fram í stað þess að bara sé bankað upp á eins og tíðkaðist frá landnámi til farsímabyltingar.
„Ég óttaðist alveg í fyrstu hvernig fólk tæki þessu, en ég veit að mér sjálfri finnst best að hitta fólk augliti til auglitis til að ræða málin. Þetta gekk framar vonum og okkur var ótrúlega vel tekið, mjög margir kusu að spjalla við okkur um málefnin og fáir sem báðust undan því að spjalla við okkur og í þeim tilfellum varð þá bara um örstutta truflun að ræða,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, um vitjanir sínar og meðframbjóðenda á heimilum kjósenda.