Bæjarstjórn Grindavíkur hefur áhyggjur af Grindvíkingum og atvinnurekendum í bænum eftir að upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu slitnaði og ljóst verður að þingstörf verða ekki með venjulegum hætti næstu vikurnar.
Bæjarstjórn Grindavíkur hefur áhyggjur af Grindvíkingum og atvinnurekendum í bænum eftir að upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu slitnaði og ljóst verður að þingstörf verða ekki með venjulegum hætti næstu vikurnar.
Bæjarstjórn Grindavíkur hefur áhyggjur af Grindvíkingum og atvinnurekendum í bænum eftir að upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu slitnaði og ljóst verður að þingstörf verða ekki með venjulegum hætti næstu vikurnar.
Í áskorun sem bæjarstjórnin hefur sent alþingismönnum er vakin athygli á bókun á fundi hennar á þriðjudag, þar sem því er fagnað að aðgerðaáætlun um húsnæðismál sé komin fram og lögð áhersla á að tillögur sem í henni felast nái fram að ganga.
„Bæjarstjórn telur sérstaklega brýnt að tillögur um lagabreytingar sem varða útfærslu sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir tekjulága íbúa Grindavíkur, frá 1. janúar 2025, og aukinn frest húseigenda til að selja eignir sínar til Þórkötlu verði lögfestar á næstu vikum.“
Einnig segir bæjarstjórnin brýnt að tryggðar verði nauðsynlegar fjárheimildir til að fjármagna aðgerðir í þágu grindvískra heimila, samhliða afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.
Bæjarstjórnin vekur líka athygli á að í umsögn atvinnuteymis bæjarins, um lagafrumvarp um stuðningslán til rekstraraðila í Grindavík, sé útlistað hvaða lagaákvæði sem Alþingi hafi sett á undanförnu ári muni renna úr gildi um áramótin.
„Bæjarstjórnin gerir þá sjálfsögðu kröfu til Alþingis og viðkomandi ráðherra og ráðuneyta að tryggt verði að Grindvíkingar verði ekki fyrir tjóni vegna stjórnarslita og þingrofs.“
Nefnd eru sérstaklega nokkur lagaákvæði sem nánar eru tiltekin í áskoruninni.
„Það er óhugsandi og algerlega ótæk niðurstaða að rof verði á gildistíma úrræða í þágu Grindvíkinga þótt um sé að ræða lagaákvæði sem löggjafinn hafi gert ráð fyrir að yrðu endurskoðuð með tilliti til aðstæðna við lok gildistíma laganna,“ segir í áskorun bæjarstjórnarinnar.
Bent er á að atriðin sem nefnd eru séu mikilvæg í ljósi þess að náttúruhamförum sé því miður ekki lokið og að land haldi áfram að rísa við Svartsengi.
„Fyrirsjáanleiki um stuðningsúrræði, hvort sem þau snúa að einstaklingum, fyrirtækjum eða rekstri Grindavíkurbæjar, skiptir mjög miklu máli. Vafi um hvort úrræði verði framlengd er því óásættanlegur.“