Líklega hjálmi að þakka að ekki fór verr

Öryggi sjófarenda | 1. nóvember 2024

Líklega hjálmi að þakka að ekki fór verr

Þegar Blængur NK var á veiðum á suðausturmiðum síðastliðinn vetur slitnaði togvír og var einn skipverjanna svo óheppinn að fá vírinn í sig. Að mati Rannsóknanefndar samgönguslysa voru það samverkandi þættir sem orsökuðu slysið og vísar nefndin meðal annars til þess að kósi í auga togvírs var skemmdur.

Líklega hjálmi að þakka að ekki fór verr

Öryggi sjófarenda | 1. nóvember 2024

Blængur NK frystitogari Síldarvinnslunnar
Blængur NK frystitogari Síldarvinnslunnar Ljósmynd/Síldarvinnslan: Atli Þorsteinsson

Þegar Blængur NK var á veiðum á suðausturmiðum síðastliðinn vetur slitnaði togvír og var einn skipverjanna svo óheppinn að fá vírinn í sig. Að mati Rannsóknanefndar samgönguslysa voru það samverkandi þættir sem orsökuðu slysið og vísar nefndin meðal annars til þess að kósi í auga togvírs var skemmdur.

Þegar Blængur NK var á veiðum á suðausturmiðum síðastliðinn vetur slitnaði togvír og var einn skipverjanna svo óheppinn að fá vírinn í sig. Að mati Rannsóknanefndar samgönguslysa voru það samverkandi þættir sem orsökuðu slysið og vísar nefndin meðal annars til þess að kósi í auga togvírs var skemmdur.

Atvikið átti sér stað 4. febrúar í norðaustanátt og nokkrum sjó. Um borð var unnið að því að taka hlera í gálga en búið var að lása úr þeim og byrjað að hífa í grandara, að því er segir í atvikslýsingu í skýrslu rannsóknanefndarinnar.

„Á togþilfari voru fjórir menn. Tveir bakborðsmegin og tveir stjórnborðsmegin. Umrætt sinn gekk allt eðlilega stjórnborðsmegin en upphalarinn bakborðsmegin var klemmdur milli afturlunningar og hlera. Til þess að losa upphalarann þurfti að slaka bakborðshleranum örlítið og hífa í hann aftur. Skipverjarnir sem stóðu stjórnborðsmegin voru búnir að koma sér fyrir á hefðbundnum stöðum og þeir sem voru bakborðsmegin voru viðbúnir því að slakað yrði í hlerann hjá þeim,“ segir í skýrslunni.

Fyrir mistök var síðan slakað í stjórnborðshlerann og við það slitnaði togvírinn þeim megin með þeim afleiðingum að vírinn slóst í eða féll á skipverjann sem stóð framar utan við rennuna. Var hann fluttur í land fjórum dögum seinna.

Í mynd úr skýrslu rannsóknanefndar má sjá hvar talið er …
Í mynd úr skýrslu rannsóknanefndar má sjá hvar talið er að skipverjinn stóð er slysið varð. Mynd/Rannsóknanefnd samgönguslysa

Telja ljóst að um höfuðhögg hafi verið að ræða

Síldarvinnslan, sem gerir Blæng út, lét gera innri rannsókn á atvikinu og segir skýrslu útgerðarinnar að „hjálmurinn bjargar að öllum líkindum að ekki fór verr, þó er erfitt að staðfesta á myndum hvar vírinn lendir á manninum, ekki sáust nein ummerki á öryggishjálmi eftir atvikið. Maðurinn fær slæman heilahristing í atvikinu sem erfitt er að að skýra með öðrum hætti enað vírinn falli í höfuð mannsins.“

Talið er líklegt að það hafi verið komnir veikleikar í kósu og splæs við auga sem var þess valdandi að augað gaf sig.

„Við rannsókn hafa komið fram tækifæri þar sem hægt er að bæta verklag og vinnuaðstöðu sem lámarka líkur á atvikum sem þessu,“ segir í skýrslu útgerðarinnar.

Bent er þó á að skipt var um togvíra í lok apríl 2023 en viðmiðið er að endurnýja togvíra á 12 mánaðar fresti. Þá voru hlerar endurnýjaður í janúar 2024 og var þá splæst upp á báðum togvírum.

Gripu til aðgerða

Í kjölfar slyssins var tafarlaust farið yfir víra, splæs og augu ásamt því að splæst voru ný augu og skipt um kósa.

Þegar komið var í land var togvír styttur um 200 metra og gengið úr skugga um að hann væri í lagi auk þess sem fundnir voru öflugri kósar sem síður eiga að brotna. Þá var komið fyrir upphengju/slá fyrir togvír milli blakkar og flugbrautar til að lágmarka hættu á að togvír falli á vinnusvæði sjómanna.

Einnig var ákveðið að yfirfara verklag við umhirðu víra og verklag á þilfari ef hreyfa þarf togspil eftir að menn eru komnir aftur í skut. Í framhaldinu verða togspil ekki hreyfð fyrr en staðfesting liggi fyrir um að skipverjar séu á öruggu svæði og á að taka tillit til þess átaks sem er á hlera þegar hann er hífður upp. Auk þess var gert við öryggismyndavél stjórnborðsmegin sem víaði aftur í skut en var biluð þegar atvikið varð.

Haldinn var öryggisfundur með báðum áhöfnum Blængs áður en farið er í næstu veiðiferð og slysið rætt.

Ákveðið var að bæta verklag um umönnun slasaðra eftir höfuðhögg sem og verklag um varðveislu þess búnaðar sem gefur sig og lögð áhersla á að slysstaður sé vel myndaður áður en vinna hefst aftur.

Góð og ítarleg greining

„Samverkandi þættir sem fóru saman áttu allir þátt í slysinu. Kósi í auga togvírsins var skemmdur, slakað var fyrir mistök í rangan hlera þar sem skipverji stóð á hættusvæði og híft var með of miklu átaki,“ segir í niðurstöðu rannsóknanefndarinnar.

Segir nefndin áhöfn og útgerð hafa gert góða og ítarlega greiningu á atvikinu.

mbl.is