Þáttarstjórnendur kappræðna RÚV efndu til hróshrings meðal leiðtoga stjórnmálaflokkanna í gærkvöldi til að sýna að vel gæti farið á milli andstæðinganna.
Þáttarstjórnendur kappræðna RÚV efndu til hróshrings meðal leiðtoga stjórnmálaflokkanna í gærkvöldi til að sýna að vel gæti farið á milli andstæðinganna.
Þáttarstjórnendur kappræðna RÚV efndu til hróshrings meðal leiðtoga stjórnmálaflokkanna í gærkvöldi til að sýna að vel gæti farið á milli andstæðinganna.
Hóf Arnar Þór Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, hringinn og hrósaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, fyrir að vera ærlegur maður sem hafi af velvilja fórnað árum til að láta gott af sér leiða.
„Ég held að það sama megi raunar segja um allt þetta ágæta fólk sem hérna stendur.“
Sagði Sigmundur Davíð ekki erfitt að hrósa Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, leiðtoga Pírata, sem stóð honum við hlið.
„Þetta er hörkuþingmaður fyrir sín sjónarmið, við erum nú yfirleitt ósammála held ég, oftar en ekki, stöku sinnum erum við sammála en hún gefur ekkert eftir. Ég kann að meta það að hún berst fyrir því sem hún trúir á og það er mikilvægt að hafa þannig stjórnmálamenn.“
Sjálf fór Þórhildur Sunna fögrum orðum um Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, sem hún sagði vera ferskan vind í stjórnmálunum.
„Ég fíla það hvernig þú hefur farið beint á móti þáverandi fjármálaráðherra (Bjarna Benediktssyni) sem að var mjög erfitt að ná tökum á, en þú hefur oftar en ekki snúið hann niður og mér hefur fundist mjög skemmtilegt að fylgjast með því. Sérstaklega með hans gömlu kreddur um hagstjórnina.“
Kvaðst Kristrún hafa margt gott að segja um Svandísi Svavarsdóttur, formann Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs. Svandís sé femínísk fyrirmynd sem skipti máli fyrir ungar konur í pólitík.
„Hún er líka ein af þessum konum sem ég hef litið upp til. Sterkari konur í pólitík, með sterka femíníska taug og ég held að það hljóti bara allar ungar konur í pólitík, óháð því hvar þær eru, að bera mikla virðingu fyrir því að það hefur ekkert alltaf verið auðvelt að vera kona í pólitík.“
Svandís hrósaði Jóhannesi Loftssyni, formanni Ábyrgrar framtíðar, fyrir seiglu, en kvaðst hafa hitt hann í fyrsta sinn rétt fyrir útsendingu kappræðnanna.
„Ég dáist náttúrulega bara að hans seiglu, ég meina hann er kominn hingað og kláraði að safna meðmælendum fyrir einn framboðslista og það er alvöru elja og alvöru sýn.“
Jóhannes hrósaði leiðtoga Sósíalista, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, fyrir góða framkomu og sagði hana gefa frá sér gleði og ánægju.
Tók Sanna til máls og hrósaði Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, fyrir hreinskilni og að tala blátt áfram.
„Mér finnst magnað við Ingu að hún segir bara það sem hún vill segja. Hún er ekki að láta neinn hræða sig. Bara hreinskilni. Mér finnst það flott.“
Inga sló á létta strengi er kom að því að gefa forsætisráðherranum Bjarna Benediktssyni gullhamra og kvaðst ávallt hafa litið upp til hans – enda væri hann svo hávaxinn.
„Bjarni hefur náttúrulega sýnt það að hann er einn öflugasti stjórnmálamaður sem við eigum í dag, hann hefur nú staðið í ströngu en alltaf staðið það af sér. Þannig ég myndi nú segja að hann væri í seigara lagi og stendur keikur fyrir sínu. Þannig ég segi bara áfram veginn Bjarni, þú ert bara nagli.“
„Sömuleiðis,“ sagði Bjarni kíminn og vék máli sínu að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar.
Hún sagði Bjarna Þorgerði vera þann þingmann sem hefði setið hvað lengst á þingi en frumkrafturinn væri enn til staðar. Hún vildi enn gera Ísland betra og væri með hjartað á réttum stað – aðeins til hægri.
„Ég ætla bara að dást vegna þess að ég hef líka verið lengi, ég hef ekki alveg verið svona lengi, og það er bara stórmál að taka bara hjartað úr starfsævinni í stjórnmál og vinna fyrir samfélagið. Það hefur hún gert og mér sýnist að það sé enn neisti í henni og kraftur.“
Þorgerður hrósaði Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir hestamennsku og það eitt að vera dýralæknir sem henni þætti sjálfri öfundsvert. Henni þætti einnig ótrúlegt og aðdáunarvert hvernig Sigurður hefði tekist á við ríkisstjórnarsamstarfið síðustu sjö árin.
„Þá finnst mér ótrúlega áhugavert og aðdáunarvert hvernig hann hefur starfað síðustu sjö árin í þessari ríkisstjórn sem hefur verið svolítið á jöðrunum sitthvoru megin og það hefur verið svolítil störu keppni á milli hinna flokkanna, maður hefur séð lipurðina, samstarfsviljann, lausnamiðaða nálgun hjá Sigurði Inga. Hann er greinilega góður að vera í samstarfi með.“
Komið var að Sigurði Inga næst að hrósa Arnari Þór og kvaðst hann ekki þekkja mikið til hans persónulega. Hann hefði þó heyrt af honum góða söguna frá því í forsetakosningunum þar sem hann bankaði upp á bæjum að safna undirskriftum. Honum heyrðist á því að Arnar bæri með sér góðan þokka.
„Nú er hann mættur aftur, það er ákveðin seigla að geta boðið fram með svona stuttu millibili og vera tilbúinn í aðra kosningabaráttu.“