Starfsmenn saka BBC um skekkju í umfjöllun

Ísrael/Palestína | 4. nóvember 2024

Starfsmenn saka BBC um skekkju í umfjöllun

Um hundrað starfsmenn breska ríkisútvarpsins BBC hafa sakað vinnuveitanda sinn um skekkju í umfjöllun miðilsins um stríðið á Gasasvæðinu, Ísrael í hag.

Starfsmenn saka BBC um skekkju í umfjöllun

Ísrael/Palestína | 4. nóvember 2024

Höfuðstöðvar BBC í Lundúnum.
Höfuðstöðvar BBC í Lundúnum. AFP/Henry Nicholls

Um hundrað starfsmenn breska ríkisútvarpsins BBC hafa sakað vinnuveitanda sinn um skekkju í umfjöllun miðilsins um stríðið á Gasasvæðinu, Ísrael í hag.

Um hundrað starfsmenn breska ríkisútvarpsins BBC hafa sakað vinnuveitanda sinn um skekkju í umfjöllun miðilsins um stríðið á Gasasvæðinu, Ísrael í hag.

Gagnrýna starfsmenn miðilsins hann jafnframt fyrir að skorta fréttamennsku sem byggi á staðreyndum og sýni raunverulega mynd ástandsins.

Í bréfi sem sent var til framkvæmdastjóra og forstjóra BBC, Tim Davie og Deborah Turness, á föstudaginn sagði að það bryti í bága við grundvallargildi blaðamanna að draga ekki Ísrael til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar.

Breska dagblaðið Independent greindi frá bréfinu sem starfsmenn BBC undirrituðu nafnlaust auk 200 manna af öðrum miðlum, sagnfræðinga, leikara, fræðimanna og stjórnmálamanna.

Afleiðingar ófullnægjandi umfjöllunar gífurlegar

„Afleiðingar ófullnægjandi umfjöllunar eru gífurlegar. Sérhvert sjónvarpsinnslag, grein og útvarpsviðtal sem hefur ekki tæklað fullyrðingar Ísraelsmanna á gagnrýnan hátt hefur stuðlað að kerfisbundinni afmennskun Palestínumanna,“ segir í bréfinu.

Þeir sem undir það rita hvetja BBC til að taka það skýrt fram í fréttaflutningi sínum að Ísrael hafi meinað fjölmiðlum aðgengi að Gasasvæðinu til að koma í veg fyrir beina og óháða upplýsingagjöf.

Fara þeir sömuleiðis fram á að BBC taki það skýrt fram þegar ekki séu fullnægjandi sannanir fyrir fullyrðingum Ísraelshers, að BBC taki skýrt fram í fyrirsögnum þegar Ísraelsher standi á bak við árásir, að BBC setji fram sögulegt samhengi Ísraels og Palestínu fyrir október 2023 þegar við á, og að fréttamenn BBC spyrji ráðamenn og fulltrúa hersins í Ísrael gagnrýnna spurninga í öllum viðtölum.

Ógn við hlutleysi og sjálfstæði BBC

Miðlar á borð við BBC njóti mikils trausts almennings og beri því skylda til að fylgja málum eftir út frá staðreyndum og þeim sönnunargögnum sem fyrir liggi. Hnignun ritstjórnarstaðla BBC sé ógn við hlutleysi miðilsins og sjálfstæði.

Í nóvember á síðasta ári, um mánuði eftir að stríðsátökin brutust út á Gasa, skrifuðu átta blaðamenn BBC bréf til Al Jazeera og sögðu breska ríkisútvarpið gerast sekt um tvískinnungshátt í umfjöllun sinni um hernað Ísraels á Gasa í samanburði við fréttaflutning þeirra af innrás Rússa í Úkraínu.

Talsmaður BBC tjáði sig um bréfið á föstudaginn og sagði miðilinn hafa verið skýran um þær takmarkanir sem séu settar á umfjöllun ríkisútvarpsins, meðal annars hvað varði aðgengi á Gasa og á viss svæði í Líbanon.

„Þegar við höfum gert mistök eða breytt því hvernig við fjöllum um hluti þá höfum við verið gagnsæ með það.“

mbl.is