Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir fullyrðingar borgarstjóra um sögulegar hagræðingar ekki standast skoðun. Það sé tálsýn að borgin sé ekki lengur rekin með halla, enda sé rekstrarafgangur háður því að Perlan seljist fyrir áramót, sem sé óskhyggja að hennar mati.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir fullyrðingar borgarstjóra um sögulegar hagræðingar ekki standast skoðun. Það sé tálsýn að borgin sé ekki lengur rekin með halla, enda sé rekstrarafgangur háður því að Perlan seljist fyrir áramót, sem sé óskhyggja að hennar mati.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir fullyrðingar borgarstjóra um sögulegar hagræðingar ekki standast skoðun. Það sé tálsýn að borgin sé ekki lengur rekin með halla, enda sé rekstrarafgangur háður því að Perlan seljist fyrir áramót, sem sé óskhyggja að hennar mati.
Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 og fimm ára tímabilið til 2029 er lögð fram í borgarstjórn til fyrri umræðu í dag, en þar er gert ráð fyrir 1,7 milljarða króna rekstrarafgangi á A-hluta borgarinnar 2025.
Í útkomuspá er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins 2024 verði jákvæð um 531 milljón króna sem sé um 5,5 milljarða króna jákvæður viðsnúningur frá fyrra ári.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir að rekja megi árangurinn til aðhalds og aðgerða til mæta hallarekstri í samræmi við megináherslur fjármálastefnu Reykjavíkurborgar sem sett hafi verið fram við upphaf kjörtímabilsins.
„Í dag á að bera á borð fyrir okkur þá tálsýn að borgin sé ekki lengur rekin með halla. Það sem meirihlutinn hins vegar forðast að nefna, og kom raunar ekki fram í dagsljósið fyrr en eftir ítrekaðar fyrirspurnir mínar, að allt hangir þetta á þeirri óskhyggju að Perlan seljist fyrir áramót“, er haft eftir Hildi í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
Hún segir rétt að staldra við fullyrðingar borgarstjóra um að umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir séu helsta ástæða þess að rekstrinum hafi verið snúið til betri vegar. Hagræðingarkrafa hafi verið sett á svið, draga hafi átt úr launakostnaði og nýjar ráðningarreglur innleiddar til að stemma stigu við starfsmannafjölgun.
„En var þessu fylgt eftir? Þegar tölurnar eru rýndar kemur í ljós að launakostnaður jókst um 7,2 milljarða milli ára og rekstrarkostnaður sömuleiðis um 5,3 milljarða. Starfsfólki hélt jafnframt áfram að fjölga, einna helst í yfirbyggingunni. Hvaðan sækir Einar þá viðsnúninginn? Hvar eru þessar sögulegu hagræðingar?“, spyr Hildur.
Benti hún á að tekjur borgarinnar hefðu hækkað um 17,3 milljarða á milli ára, en vandi borgarinnar væri ekki tekjuvandi. Tekjurnar hefðu aukist stöðugt síðastliðinn áratug.
Um væri að ræða útgjaldavanda, enda hefði starfsmannafjöldi og rekstrarkostnaður aukist langt umfram lýðfræðilega þróun síðasta áratug.
„Fullyrðingar borgarstjóra um sögulegar hagræðingar standast enga skoðun. Hér hefur engu verið hagrætt nema sannleikanum“, segir Hildur.
„Arðgreiðslur, tekjur af sölu byggingarréttar og ætlaður hagnaður af sölu Perlunnar nema 12,4 milljörðum króna í útkomuspá fyrir 2024. Ef þessara tekna nyti ekki við væri niðurstaðan af rekstri borgarinnar um 11,8 milljarða halli! Það blasir við að rekstur borgarinnar er fullkomlega ósjálfbær“, segir Hildur.
Það sé löngu tímabært að horfast í augu við vandann, ráðast í hagræðingar, minnka yfirbygginguna og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Samhliða þurfi að útvista fleiri verkefnum og láta af samkeppnisrekstri.
„Einungis þannig náum við böndum á stjórnlausum rekstri,“ segir hún að lokum.