Hvað gerist ef það verður jafntefli?

Hvað gerist ef það verður jafntefli?

Litlar líkur eru á því að kosningunum vestanhafs ljúki með jafntefli en það er engu að síður möguleiki.

Hvað gerist ef það verður jafntefli?

Forsetakosningar í Bandaríkjunum 2024 | 5. nóvember 2024

Síðast þurfti þingið að velja forseta eftir kosningar árið 1800.
Síðast þurfti þingið að velja forseta eftir kosningar árið 1800. AFP/Charly Triballeau

Litlar líkur eru á því að kosningunum vestanhafs ljúki með jafntefli en það er engu að síður möguleiki.

Litlar líkur eru á því að kosningunum vestanhafs ljúki með jafntefli en það er engu að síður möguleiki.

Hvað er þá til ráða ef hvorki Kamölu Harris, frambjóðanda demókrata, né Donald Trump, frambjóðanda repúblikana, tekst að tryggja sér þann meirihluta kjörmanna sem þarf til þess að setjast á stól forseta? 

Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna kemur það í hlut þingsins að skera úr um úrslitin.

Möguleiki á jafntefli

Til þess að tryggja sér sigurinn í komandi kosningum þarf annar hvor frambjóðandinn að tryggja sér meirihluta af 538 kjörmönnum kjörmannaráðs Bandaríkjanna.

Hvert ríki um sig setur fram ákveðinn fjölda kjörmanna. Flest ríki Bandaríkjanna gefa þeim frambjóðanda sem hlýtur meginþorra atkvæða alla sína kjörmenn, að undanskildum ríkjunum Nebraska og Maine.

Tryggja þarf hið minnsta 270 kjörmenn til þess að ná meirihluta og þó að ólíklegt sé þá getur það farið svo að hvor frambjóðandi um sig tryggi sér aðeins 269 kjörmenn.

Svo dæmi sé tekið þá gæti Harris borið sigur úr býtum í Wisconsin, Michigan og Pennsylvaníu á meðan Trump bæri sigur úr býtum í Georgíu, Arizona, Nevada og Norður-Karólínu, auk eins kjördæmis í Nebraska sem alla jafna hallast til vinstri.

Þessi niðurstaða er þó ólíkleg.

Tryggja þarf hið minnsta 270 kjörmenn til þess að ná …
Tryggja þarf hið minnsta 270 kjörmenn til þess að ná meirihluta. AFP/David Becker/Roberto Schmidt

Þingið valdi forseta fyrir rúmum 200 árum

Verði jafntefli þarf að grípa til kosninga í þinginu, samkvæmt 12. viðbót stjórnarskrárinnar. Aldrei hefur reynt á hana áður.

Þingið neyddist þó til að velja forseta eftir kosningarnar árið 1800, þar sem Thomas Jefferson atti kappi við John Adams, sem þá var forseti.

Þingmenn í fulltrúadeildinni áttu erfitt með að koma sér saman um valið, svo mjög að þeir völdu ekki Jefferson fyrr en eftir 36. kosninguna í þinginu.

Þetta moð leiddi til þess að samþykkt var að leggja áðurnefnda 12. viðbót við stjórnarskrána, fjórum árum seinna.

Yrði kosið í þinginu þá færi sú kosning fram 6. janúar 2025, eða réttum fjórum árum frá árás stuðningsmanna Donalds Trump á þinghúsið í Washington.

Eitt ríki, eitt atkvæði

Þessi atkvæðagreiðsla yrði svo ólík því sem þingmenn og almenningur hafa vanist. Hvert ríki fengi nefnilega aðeins eitt atkvæði, annars vegar í fulltrúadeildinni við val á forseta og hins vegar í öldungadeildinni við val á varaforseta.

Með öðrum orðum, þá fengi dreifbýla ríkið Wyoming, sem telur aðeins um 500 þúsund íbúa og kýs jafnan til hægri, jafn mikið vald við kosninguna og demókratavígið Kalifornía, með sínar 39 milljónir íbúa.

Höfuðborgin Washington hefur þrjá kjörmenn í forsetakosningunum en enga fulltrúa á þingi. Íbúar þar hefðu því enn minna að segja um þá sem fara með völdin í landinu.

Þingmenn þeirra ríkja sem hafa fleiri en einn þingmann í fulltrúadeildinni, en það eru þau flest, þyrftu svo að koma sér saman um frambjóðanda til að velja. Ef horft er yfir þingið núna má telja líklegt að repúblikanar fengju á endanum að ráða.

mbl.is