Ríkið geti lært ýmislegt af borginni

Ríkið geti lært ýmislegt af borginni

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, segist stoltur af fjárhagsáætlun borgarinnar og þeim viðsnúningi sem hefur orðið á rekstrinum. Hann segir ríkið geti lært ýmislegt af vinnubrögðum borgarinnar í að láta áætlanir standast.

Ríkið geti lært ýmislegt af borginni

Fjárhagsörðugleikar Reykjavíkurborgar | 5. nóvember 2024

Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir …
Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er áætlanirnar voru kynntar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, segist stoltur af fjárhagsáætlun borgarinnar og þeim viðsnúningi sem hefur orðið á rekstrinum. Hann segir ríkið geti lært ýmislegt af vinnubrögðum borgarinnar í að láta áætlanir standast.

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, segist stoltur af fjárhagsáætlun borgarinnar og þeim viðsnúningi sem hefur orðið á rekstrinum. Hann segir ríkið geti lært ýmislegt af vinnubrögðum borgarinnar í að láta áætlanir standast.

Gert er ráð fyrir 1,7 milljarða króna rekstrarafgangi á A-hluta borgarinnar 2025. Þá sýnir útkomuspá rekstrarafgang upp á ríflega hálfan milljarð króna á þessu ári. Hefur borgarstjóri staðfest að þar sé þó horft til þess að salan á Perlunni klárist á árinu, en tilboð í hana nemur 3,5 milljörðum.

Áætlanir borgarinnar gera ráð fyrir að reksturinn batni enn frekar næstu fimm árin. Rekstur samstæðu (A- og B-hluta) skilar 14,3 milljarða afgangi árið 2025 samkvæmt áætlunum.

„Ég er mjög stoltur af þessari áætlun og í raun þeirri ótrúlegu vinnu sem liggur að baki, en ekki bara á þessu ári heldur frá upphafi kjörtímabilsins. Þá auðvitað skall á okkur verðbólgan sem ekki hafði verið inni í þjóðhagsspánni, og setti okkur – heimili og fyrirtæki í landinu – auðvitað í bara alveg nýja stöðu,“ segir Dagur og bætir við að það hafi ekki verið einfalt að vinna borgina út úr því.

„En við gerðum það með því að setja á okkur mælanleg markmið – 5 ára áætlun – sem við höfum verið að fylgja með mjög mikilli vinnu á fjölmörgum sviðum.“

Finnur fyrir miklu þakklæti 

Dagur segir það vera ánægjulegt fyrir borgarbúa, og fyrir alla landsmenn, að vinnan sé að skila árangri. 

„Við sjáum að við erum að leggja hérna fram fjárhagsáætlun með afgangi í dag, á sama tíma og ríkið er í raun að hækka spár um halla úr ríkissjóði fyrir næsta ár verulega,“ segir hann og á þar við að fjár­mála- og efna­hags­ráðuneytið ger­ir nú ráð fyr­ir að heild­ar­tekj­ur rík­is­sjóðs verði um 20,7 millj­örðum króna minni á næsta ári en gert var ráð fyr­ir þegar fjár­laga­frum­varp árs­ins 2025 var lagt fram í september. Er það meðal annars afleiðing nýrrar hagspár Hagstofunnar.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, staðfesti við mbl.is fyrr í dag að ekki væri horft til nýju hagspár Hagstofunnar við gerð áætlana Reykjavíkur, en að milli umræðna verði rýnt í það hvort nýja hagspáin muni hafa áhrif til breytinga.

Dagur segir að erfitt efnahagsumhverfi ríki en borgin sé að standa sig. 

„Ég finn fyrir rosalega miklu þakklæti í garð stjórnenda og starfsfólks borgarinnar sem hefur staðið með okkur í þessu. Þetta er ekki einfalt að ná fram hagræðingu á verðbólgutímum. Það er gert mjög mikið af hjartanu, af virðingu fyrir þeirri mikilvægu þjónustu sem við erum að sinna og þeirri starfsemi sem að okkur er treyst fyrir.“

Dagur segist finna fyrir miklu þakklæti í garð stjórnenda og …
Dagur segist finna fyrir miklu þakklæti í garð stjórnenda og starfsfólks borgarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill ekki blanda þessu tvennu saman 

Dagur er í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður í komandi alþingiskosningum. Samkvæmt nýjustu könnunum er Samfylkingin með um 24% fylgi og næði því 18 þingmönnum á þing. Líklegt þykir því að Dagur komist á þing. 

Þú miklar það ekkert fyrir þér að takast mögulega á við hallarekstur ríkissjóðs?

„Ég vil kannski ekki blanda þessum tveimur umræðum saman, en svona til að orða það pent þá held ég að ríkið gæti lært ýmislegt af þeim vinnubrögðum sem beitt hefur verið hjá Reykjavíkurborg í fjármálum og það að láta áætlanir standast.“

mbl.is