Læknar hafa aftur samþykkt verkfallsaðgerðir með afgerandi meirihluta en atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir í nóvember, desember og janúar lauk í dag kl. 16.
Læknar hafa aftur samþykkt verkfallsaðgerðir með afgerandi meirihluta en atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir í nóvember, desember og janúar lauk í dag kl. 16.
Læknar hafa aftur samþykkt verkfallsaðgerðir með afgerandi meirihluta en atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir í nóvember, desember og janúar lauk í dag kl. 16.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Læknafélagi Íslands.
Þar segir að 1.246 einstaklingar hafi verið á kjörskrá og greiddu 1061 þeirra atkvæði, eða 85,5%.
Þar af sögðu 1.015 einstaklingar já við verkfallsaðgerðum eða 95,66% kjósenda. 32, eða 3,3%, sögðu nei og skiluðu 11, eða 1,04% einstaklinga auðu.
Læknar höfðu samþykkt verkfall 31. október með miklum meirihluta en var svo félagsmönnum Læknafélagsins greint frá því 1. nóvember að ríkið taldi boðun á verkfallinu ólögmæta.
Boðaði Læknafélagið í kjölfarið til nýs verkfalls 3. nóvember.
„Atkvæði voru greidd á 11 vinnustöðum lækna og var fjöldi lækna sem samþykkti verkfallsboðun frá því að vera allir sem greiddu atkvæði niður í að vera 72,2% þeirra sem greiddu atkvæði. Á tveimur vinnustöðum greiddu allir atkvæði með verkfalli, á fimm vinnustöðum greiddu a.m.k. 95% atkvæði með verkfalli, á einum vinnustað greiddu 93% með verkfalli, á tveimur vinnustöðvum greiddu milli 83 og 85% atkvæði með verkfalli og á einum vinnustað greiddu 72% atkvæði með verkfalli,“ segir í tilkynningunni um nýlokna atkvæðagreiðslu.
Verður ríkissáttasemjara og viðsemjandanum, samninganefnd ríkisins, tilkynnt á morgun um að verkföll muni hefjast 25. nóvember.
„Verkfallsaðgerðirnar verða vikulega og hefjast 25. nóvember nk. eins og fyrr segir. Fyrstu vikuna verða allir vinnustaðir lækna í verkfalli frá mánudegi 25. nóvember til fimmtudags 28. nóvember frá miðnætti til kl. 12 að hádegi. Næstu vikuna verða allir vinnustaðir lækna í verkfalli frá miðnætti til kl. 12 á hádegi þriðjudaginn 3. desember og fimmtudaginn 5. desember. Í þriðju vikunni verða allir vinnustaðir lækna aftur í verkfalli frá mánudegi 9. desember til fimmtudags 12. desember frá miðnætti til kl. 12 á hádegi. Í fjórðu vikunni verða allir vinnustaðir lækna í verkfalli mánudag 16. desember og miðvikudag 18. desember frá miðnætti til kl. 12 á hádegi,“ segir í tilkynningu á vef Læknafélags Íslands.
Þá kemur fram að hlé verði á verkfallsaðgerðum frá 20. desember til og með 5. janúar 2025 en munu svo verkfallsaðgerðir halda áfram með nákvæmlega sama hætti þ.e. í fjögurra vikna lotum alveg fram að dymbilviku.
„Stjórn og samninganefnd LÍ vona að til verkfallsaðgerða þurfi ekki að koma og að samningar náist áður en boðuð verkföll eiga að hefjast,“ segir í tilkynningunni.