Fann ekki fyrir móðurlegu eðlishvötinni

Frægar fjölskyldur | 10. nóvember 2024

Fann ekki fyrir móðurlegu eðlishvötinni

Annie Mist Þórisdóttur þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, enda ein skærasta íþróttastjarna okkar Íslendinga. Hún kom fram á sjónarsviðið eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir rúmum áratug og hefur verið áberandi innan CrossFit-heimsins síðustu ár og ýtt undir vinsældir æfingakerfisins, hérlendis og erlendis.

Fann ekki fyrir móðurlegu eðlishvötinni

Frægar fjölskyldur | 10. nóvember 2024

Annie Mist elskar að vera móðir.
Annie Mist elskar að vera móðir. Ljósmynd/Aðsend

Annie Mist Þórisdóttur þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, enda ein skærasta íþróttastjarna okkar Íslendinga. Hún kom fram á sjónarsviðið eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir rúmum áratug og hefur verið áberandi innan CrossFit-heimsins síðustu ár og ýtt undir vinsældir æfingakerfisins, hérlendis og erlendis.

Annie Mist Þórisdóttur þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, enda ein skærasta íþróttastjarna okkar Íslendinga. Hún kom fram á sjónarsviðið eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir rúmum áratug og hefur verið áberandi innan CrossFit-heimsins síðustu ár og ýtt undir vinsældir æfingakerfisins, hérlendis og erlendis.

Ásamt því að vera afreksíþróttakona og medalíuhafi er Annie Mist stolt móðir tveggja ungra barna og nýtur þess að fá að fylgjast með börnum sínum vaxa og þroskast, en í langan tíma var hún hálfhrædd við tilhugsunina um að eignast barn og verða móðir. Hún fann ekki fyrir þessari svokölluðu móðurlegu eðlishvöt sem svo margir tala um, en það breyttist óvænt í fjölskylduferðalagi fyrir örfáum árum.

„Ég hafði aldrei skipt á bleyju áður en ég varð móðir og var alls ekki mikið að biðja um að fá að halda á börnum fjölskyldumeðlima og vinkvenna minna, eins og flestir vilja gera. Ég var ekki barnapía á táningsárunum og þegar ég varð ófrísk að dóttur okkar fór ég að velta ýmsu fyrir mér og til dæmis því hvort ég myndi höndla grátur, mér finnst grátur frekar pirrandi, en höndla hann þó betur í dag,“ segir Annie Mist og hlær.

Annie Mist hefur unnið þó nokkra stórsigra á keppnismótum erlendis.
Annie Mist hefur unnið þó nokkra stórsigra á keppnismótum erlendis. Ljósmynd/Aðsend

„Ég verð að eignast barn núna“

Annie Mist kynntist sambýlismanni sínum, hinum danska Frederik Emil Ægidius, árið 2010 og var það sameiginlegur áhugi þeirra á CrossFit sem dró þau hvort að öðru, en parið kynntist á CrossFit-móti og byrjaði saman örfáum mánuðum seinna. Í dag eru þau búsett í Kópavogi ásamt börnum sínum, Freyju Mist, fjögurra ára, og Atlasi Tý, sem varð sex mánaða þann 30. október síðastliðinn.

Þið eignist barn eftir tíu ára samband, höfðu þitt rætt barneignir?

„Já, við vorum alveg búin að ræða þetta fram og til baka og það kom tími þar sem ég hélt að ég væri ófrísk, það gerði mig hrædda, ég var alls ekki tilbúin, enda vildi ég einblína á ferilinn minn á þessum tímapunkti. Frederik var þó sultuslakur og meira en tilbúinn að tækla hlutverkið, þetta var árið 2012,“ segir Annie Mist sem komst þó fljótt að því að hún var ekki ófrísk. „Þetta varð þó til þess að við byrjuðum að ræða barneignir og skipuleggja hvenær það myndi henta okkur að verða foreldrar.“

Frederik ásamt Freyju Mist.
Frederik ásamt Freyju Mist. Ljósmynd/Aðsend

Sterk löngun til að eignast barn helltist yfir Annie Mist í fjölskyldufríi í Orlando í Bandaríkjunum.

„Þetta er sko frekar fyndið. Fjölskyldan mín, foreldrar, bræður, makar þeirra og börn, ferðaðist saman til Orlando árið 2019 í sólríkt páskafrí. Ein af litlu frænkum mínum tók vart augun af mér alla ferðina, elti mig hvert sem ég fór, spurði mig ótal spurninga og í eitt skipti faðmaði hún mig þéttingsfast og það var á því augnabliki sem ég áttaði mig á að ég vildi verða móðir núna. Ég hugsaði strax: „Ég verð að eignast barn núna.“ En þangað til hafði ég alltaf hugsað: „Eitt ár í viðbót að keppa, eitt ár í viðbót.“ Og á þessum tímapunkti var ég þegar búin að ákveða að bíða í eitt ár en það breyttist á örskotsstundu eftir þessi samskipti við bróðurdóttur mína.

Ég sagði Frederik frá þessu og hann minnti mig á að ég væri skráð á keppnismót eftir þrjá mánuði,“ segir Annie Mist hlæjandi. „Ég keppti því á heimsleikunum og bjó svo til barn. Ég varð ófrísk í þriðju tilraun.“

Annie Mist var dugleg að æfa yfir meðgöngutímabilið.
Annie Mist var dugleg að æfa yfir meðgöngutímabilið. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gekk fyrri meðgangan?

„Alveg svakalega vel, en þetta var mjög sérstök ólétta þar sem kórónuveirufaraldurinn var í hámarki á þessum tíma. Ég var samt mjög heppin og náði að æfa tvisvar á dag í gegnum allt meðgöngutímbilið en þurfti að sjálfsögðu að breyta ýmsu í æfingunum mínum. Ég upplifði einstaka sinnum, sérstaklega þegar ég leit í spegil, að þetta væri ekki líkaminn minn, en tilhugsunin um að ég væri að búa til líf gladdi mig mikið og fékk mig til að fagna stækkandi óléttukúlu. Þetta var ekki auðvelt verkefni en ég var mjög lánsöm.“

Annie Mist segir seinni óléttuna hafa komið þeim á óvart.

„Þetta kom skemmtilega á óvart. Ég var alveg tilbúin, við ætluðum alltaf að eignast fleiri börn. Ég keppi sem sagt aldrei á getnaðarvörn og varð ófrísk aðeins örfáum dögum eftir heimsleikana í fyrra.“

Fannstu mun á óléttunum?

„Það gerðist allt aðeins fyrr á seinni meðgöngunni, það sást snemma á mér og ég fann fyrir brjóstsviða og samdráttum í dágóðan tíma. Ég var með samdrætti í tvo mánuði á seinna hluta meðgöngunnar og hélt oft að ég væri að fara fyrr af stað. Þetta var mjög óþægilegt en ég gat sem betur fer sofið, en ég var þreyttari á seinni meðgöngunni, enda með lítið barn heima og svo vorum við á fullu að hefja fyrirtækjarekstur, á ekki einu heldur tveimur fyrirtækjum, og að flytja.“

„Útvíkkunin tók mjög langan tíma“

Fyrri fæðing Annie Mistar var erfið og tók langan tíma.

„Úff, fyrri fæðingin tók mikið á, hún stóð yfir í þrjá sólarhringa. Eins og ég sagði þá var þetta á tímum kórónuveirunnar og var spítalinn í viðbragðsstöðu og með fjöldatakmarkanir. Ég var því mikið ein á spítalanum en þegar ég missti vatnið og var flutt á fæðingarsvítuna fékk maðurinn minn að koma til mín og vera hjá mér.

Mæðgnastund.
Mæðgnastund. Ljósmynd/Aðsend

Útvíkkunin tók mjög langan tíma og þegar ég var komin með fulla útvíkkun þá festist dóttir okkar á leiðinni, hún pompaði aldrei nægilegt langt niður, var með höfuðið upp og öll skökk. Læknar og ljósmæður reyndu allt sem þau gátu til að snúa henni en það gekk illa,“ segir Annie Mist sem var flutt á skurðstofu eftir tvo tíma við að reyna að þrýsta barninu út úr líkama sínum.

„Rétt áður en ég átti að gangast undir bráðakeisaraskurð náðu læknar henni út með því að klippa mig og nota sogklukku. Ég rifnaði illa í hina áttina og missti tvo lítra af blóði,“ útskýrir hún og lýsir fæðingunni sem átakamikilli.

Hvernig leið þér?

„Þetta var erfitt. Dóttir okkar var tekin í rannsóknir og ég bað Frederik um að fylgja henni og láta mig vita. Það tók heila tvo tíma að sauma mig saman og eftir það fékk ég að hitta hana. Það var magnaðasta tilfinning í heiminum að fá hana loksins í fangið. Það er hægt að segja manni hversu dásamlegt það er að eignast börn en það áttar sig enginn fullkomlega á tilfinningunni fyrr en það gerist.

Við vorum á spítalanum í tvær nætur. Ég var handónýt, gat ekki haldið á henni og var nálægt yfirliði vegna blóðmissis og neitaði að fá blóðgjöf og fékk því bara járn.“

Af hverju neitaðir þú blóðgjöf?

„Ég hélt einfaldlega að ég þyrfti ekki á því að halda og vildi bara að það yrði geymt og notað til að hjálpa einhverjum öðrum.“

Annie Mist ásamt fjölskyldu sinni.
Annie Mist ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Aðsend

„Datt í smá fæðingarþunglyndi“

Annie Mist segist hafa átt erfitt með að slaka á þessa fyrstu daga eftir fæðinguna.

„Á spítalanum var ég mjög stressuð og alltaf að vakna til þess að kanna hvort hún væri ekki örugglega að anda. Kannski dæmigert hjá óreyndri móður. Ég fékk því Frederik til að hafa hana í fanginu á meðan ég svæfi svo ég næði almennilegri hvíld, það gekk ágætlega, en þegar heim var komið datt ég í smá fæðingarþunglyndi, án efa vegna erfiðrar fæðingar og svefnleysisins. Mér leið aldrei vel nema þegar ég var með hana í fanginu eða að horfa á hana.“

Kom þetta til vegna hræðslu?

„Já, en ýmislegt spilaði inn í. Það var svakaleg hræðsla í mér í kjölfar alls þess sem ég hafði gengið í gegnum. Þetta var bara yfirþyrmandi. Ég gat ekki sofið, vildi ekki borða og alls konar skrýtnar hugsanir komu fram, ólíkar þeim sem ég hugsaði reglulega.

Það endaði á því að ég brotnaði niður og opnaði mig loksins um vanlíðanina við Frederik og ljósmóður sem sinnti heimavitjun. Hún sá á mér að ég var vansvefta og útskýrði fyrir mér að ég yrði að sofa, sem ég þá gerði. Ég svaf í þrjár klukkustundir og þegar ég vaknaði leið mér eins og ég væri að sjá lit í fyrsta sinn og fann loks fyrir gleði.“

Annie Mist svífur um á bleiku skýi þessa dagana.
Annie Mist svífur um á bleiku skýi þessa dagana. Ljósmynd/Aðsend

Annie Mist fór í skipulagðan keisaraskurð þegar hún eignaðist seinna barn sitt, soninn Atlas Tý, fyrr á árinu.

„Ég var mjög hrædd fyrir seinni fæðingunni, enda átti ég ekki góðar minningar frá fyrri upplifun minni. Ég fór í skipulagðan keisaraskurð og er mjög þakklát fyrir það. Ég var sko ekki hrædd við að fæða barn aftur, ég veit vel að ég hefði getað það, og langaði að reyna að upplifa betri fæðingu, en ég tók þessa ákvörðun út frá syni mínum og dóttur.

Ég vildi ekki stofna honum í hættu og gat sömuleiðis ekki hugsað mér að koma heim til dóttur minnar eins ónýt og ég var eftir fyrri fæðinguna. Ég ákvað því að gangast undir keisaraskurð og get ekki verið ánægðari með ákvörðun mína, þetta var allt önnur upplifun. Það var allt í lagi með mig, þó svo ég gæti ekki haldið á dóttur minni fyrstu vikuna, en ég var andlegu jafnvægi og fékk að njóta þess að vera með lítið barn, ég naut þess með Freyju en ekki á sama máta og með Atlas Týr, ég var mun slakari.“

Annie Mist og Atlas Týr.
Annie Mist og Atlas Týr. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is