Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
ViðskiptaMogginn hefur fjallað um málefni Controlant síðustu vikur. Forsíðuviðtal var við framkvæmdastjóra Birtu lífeyrissjóðs, Ólaf Sigurðsson, þar sem haft var eftir honum að það væri rangt að yfirvofandi væri að skipt yrði um stjórnendur og millistjórnendur í félaginu eftir fjármögnunarlotu sem lauk nýverið. Hann vísaði í bjarta framtíð fyrirtækisins.
Félagið lauk 25 milljóna dala fjármögnun á dögunum og gekk frá 10 milljóna dala lánalínu frá Arion banka. Ástæðan fyrir lánalínunni er, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans, minni áhugi fjárfesta en búist var við.
Á mánudag tilkynnti félagið, að líkindum Birtu lífeyrissjóði nokkuð að óvörum, að enn frekari skipulagsbreytingar yrðu gerðar. Nýr forstjóri er settur til hliðar við Gísla Herjólfsson, Trausti Þórmundsson, og kemur hann úr stjórn félagsins. Trausti er meðstofnandi Controlant en sér nauðsyn þess að stíga nú inn í daglegan rekstur. Það er líklega hvorki það ódýrasta fyrir félagið né eitthvað sem skerpir á rekstrinum.
Í tilkynningu frá Controlant kemur jafnframt fram að félagið þurfi að draga enn frekar úr kostnaði, eftir að hafa þó sagt upp rúmlega 200 manns. Nú kveður félagið 50 starfsmenn til viðbótar, þvert á öll svið, og millistjórnendum fækkar. Eftir breytinguna eru 230 manns eftir.
Í ljósi vandræðanna í rekstri Controlant og þessara miklu uppsagna verður að ítreka það sem áður hefur verið spurt; ber enginn ábyrgð á upplýsingum til fjárfesta og áætlunum sem virðast ekki standast neinn veruleika?
Hefði ekki verið nær að taka Gísla forstjóra félagsins út úr daglegum rekstri í stað þess að bæta við öðrum forstjóra? Hvernig ætla þeir að skipta með sér verkum?
Munu fjárfestar treysta því sem Gísli hefur fram að færa til framtíðar miðað við orð og áætlanir hans síðustu mánuði eða er þetta bara allt í lagi, enda nýsköpunarfyrirtæki og fyrstu árin alltaf óviss? Lá þessi breyting í rekstrinum virkilega ekki fyrir í síðustu fjármögnunarlotu, kynnti félagið og Arion banki þetta ekki fyrir fjárfestum?