„Við erum greinilega ekki öll að skilja hvert annað nógu vel eða tala um sömu hlutina.“
„Við erum greinilega ekki öll að skilja hvert annað nógu vel eða tala um sömu hlutina.“
„Við erum greinilega ekki öll að skilja hvert annað nógu vel eða tala um sömu hlutina.“
Þetta segir Esther Jónsdóttir, stjórnmála- og jafnréttisfræðingur, en hún var gestur Dagmála á dögunum til að ræða þá gjá sem virðist vera að myndast milli kvenna og karlmanna í stjórnmálum.
Ýmsar öfgahreyfingar í netheimum, sem skipa fólk í fylkingar eftir kyni, séu ein birtingarmynd þess.
Það hafi vissulega sýnt sig eftir að Donald Trump vann sigur gegn Kamölu Harris í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, en sumar konur hafa í kjölfarið lýst því yfir að þær hyggist sniðganga karlmenn, þar sem vegið sé gegn réttindum þeirra með kjöri Trumps.
Femíníska hreyfingin kallast 4B og á rætur að rekja til Suður-Kóreu og hefur látið á sér kræla á hinum ýmsu samfélagsmiðlum.
Kveðst Esther telja að uppgangur hreyfingarinnar í Bandaríkjunum sé eins konar leið til þess að taka vald yfir eigin líkama á tímum þar sem mörgum líði eins og þau séu að renna úr greipum þeirra.
„Þetta er kannski ákveðin sjálfshjálp, fyrst að ríkisstjórnin og yfirvöld eru að reyna að stjórna þínum líkama og þínum réttindum.“
Esther segir erfitt að segja til um hvað framtíðin beri í skauti sér og hvort gjáin fari stækkandi eða hvort fólk fari brátt að ná saman á ný þegar kemur að jafnréttismálum og kynjahlutverkum.
„Það sem gleymist kannski líka í þessu er að þetta eru ekki bara 100% karlar á móti konum. Það er auðvitað alltaf fólk báðum megin,“ segir Esther og bendir á að til að mynda sé til hópur kvenna sem aðhyllist tradwife-hreyfinguna.
Tradwife, eða hefðbundin húsmóðir, aðhyllist svokölluð hefðbundin gildi og hlutverk kynjanna en þó nokkrir kvenkyns áhrifavaldar sem aðhyllast stefnuna hafa aflað sér mikilla vinsælda á TikTok og Instagram.
Þá séu aðrar hreyfingar á borð við Incel-hreyfinguna, þar sem karlmenn kenna kvenréttindum um skírlífi sitt, einnig til merkis um að fólk sé ekki að tala sama máli.